10.12.1943
Efri deild: 63. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2982)

3. mál, eignaraukaskattur

Frsm. meiri hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil fyrst spyrja hæstv. forseta, hvort ekki væri ástæða til að takmarka ræðutíma. Fimm sjálfstæðismenn hafa staðið hér upp við þessa umr. hver eftir annan og haldið langar ræður. Ég vil segja það eitt um þau orð, sem hv. 6. þm. Reykv. notaði í niðurlagi ræðu sinnar, að hann býr þau til. Hvað snertir ráðstöfun þess fjár, sem fæst með þessum skatti, er það að segja, að það er í fullkomnu samræmi við aðrar till., sem hafa verið bornar fram á þessu þingi. Það er gert ráð fyrir, að 1/3 renni í framkvæmdasjóð ríkisins. Nú liggur fyrir till. um það, að meiri hl. fjármagnsins, sem tekinn er úr framkvæmdasjóði, 5 millj. kr., skuli renna til skipasmíða.

Ég er ekki svo í vafa um það, að þær upphæðir, sem teknar eru hér með sköttum, komi frá sjávarútveginum. Það er öllum kunnugt. En ég veit ekki betur en að samflokksmenn þessa hv. þm. hafi hver um annan þveran greitt atkv. með því að moka milljónum úr ríkissjóði í uppbætur á landbúnaðarafurðir. Að því er snertir það, að tekið sé fé frá útgerðinni, þá er þess að gæta, að útgerð er ekki nein ein heild. Útgerð er rekin af mörgum einstaklingum við mismunandi skilyrði og aðstöðu, svo mismunandi, að einn græðir meira en heppilegt er, en öðrum þarf að hjálpa. Og því er réttlátt, að gróði eins aðilans gangi til að hjálpa öðrum, og það er það, sem hér er gert. Og það er gert með skattálögum. Það er ekki til neins að tala um útgerðina eins og hún sé einkaeign borgarstjórans í Reykjavík. Útgerð samanstendur af einstaklingum og félögum með mismunandi aðstöðu, mismunandi möguleikum, og skattálögur eru ekkert annað en það, að þessir aðilar eru að borga fyrir þá aðstöðu, sem þeir hafa fengið. Hins vegar má ganga of langt í skattaálögum. Ég held, að hv. 6. þm. Reykv. væri mjög hollt að hugleiða þetta, áður en hann heldur næstu langlokuræðu sína hér. En þessi hv. þm. hafði það þó fram yfir flokksbræður sína hér, sem haldið hafa langar ræður, að hann reyndi í upphafi ræðu sinnar að færa nokkur rök fyrir máli sínu. Hann vildi sanna, að það væri fjarri öllu lagi. að misskipting auðsins og teknanna hefði vaxið, síðan styrjöldin hófst, og mismunur á lífskjörum manna hefði aukizt. En ég fullyrði, að misskipting auðsins hefur aukizt, síðan styrjöldin hófst, og ég vil bæta því við, til þess að hv. 6. þm. Reykv. hafi eitthvað að fóta sig á, að mismunurinn á lífskjörum fólks hefur líka aukizt, a. m. k. á einu sviði, og það ætti borgarstjóranum í Reykjavík að vera manna kunnugast um. Hins vegar er það rétt, að munurinn á lífskjörum manna hefur ekki aukizt í þeim skilningi, að fleiri eru nú en fyrir stríð, sem geta borðað sig vel sadda og fengið sæmileg klæði vegna þeirrar almennu atvinnuaukningar, sem orðið hefur í landinu. Þetta hygg ég, að sé rétt, en hitt vil ég fullyrða, að mismunur á lífskjörum manna almennt, t. d. húsnæði, hefur aukizt gífurlega. Nú byggja menn yfir sig fyrir hundruð þúsunda kr., á meðan aðrir búa í lélegri húsakynnum en nokkurn tíma hefur þekkzt áður, í óupphituðum sumarbústöðum, mönnum er hrúgað saman í þröng húsakynni, vegna þess að húsnæði er ekki til. Ætlunin er, að 1/3 af þessu fé gangi til byggingarsjóðs verkamanna og alþýðutrygginganna, og einmitt á þessu sviði hefur mismunurinn á lífskjörum manna aukizt svo gífurlega þessi síðustu ár, að af því stafar hætta. Ég verð því að segja það, að mig undrar, að borgarstjórinn í Reykjavík skuli telja þessa ráðstöfun svívirðilega.

Að því er snertir misskiptingu teknanna, þá er það alveg bert, að þar er ekkert um að deila. Samkvæmt upplýsingum skattstofunnar hafa fjórir gjaldendur í Reykjavík aukið eignir sínar um 11 millj. kr. á árinu 1942, eða hver um hátt á 3. millj., auk þess sem þeir hafa safnað í nýbyggingarsjóð, sem mun vera um í kringum 7–8 millj. kr. Auk þess er búið að draga frá alla skatta, sem á eru lagðir á árinu 1943. Ég verð að segja það, að ef hv. þm. heldur, að slík eignaaukning hafi átt sér stað fyrir stríð, þá er það slík fjarstæða, að ekki er svara verð. Hv. þm. veit það, að þetta er gersamlega í ósamræmi við allar aðrar tekjur í landinu. Hann veit líka, að þessara tekna er ekki aflað með ráðdeild, fyrirhyggju né sparsemi. Þetta er ekkert annað en hvalreki, sem borizt hefur upp í hendur þessara manna. Af þessum fjórum er einn verzlunarmaður, sem hefur grætt 1200 þús. kr. Svo stendur þessi hv. þm. upp og segir, að þetta sé mesti misskilningur, að misskipting teknanna hafi aukizt, það hafi aldrei verið meiri jöfnuður um lífskjör manna. Í öðrum flokki hafa 7 útgerðarmenn og félög grætt um 500 þús. kr. hvert, auk þess sem lagt er í nýbyggingarsjóð, og auk allra skatta, sem voru lagðir á þau 1943. En þetta er ekki misskipting teknanna, þetta er fé, sem sparað hefur verið saman með því að neita sér um lífsins gæði, segja þeir fimm hv. þm. Sjálfstfl., sem hér hafa talað. Það er furðulegt, að nokkur maður skuli láta sér detta í hug að bera annað eins fram. Stríðsþjóðirnar skortir mat, og þess vegna fæst svo hátt verð fyrir aflann, ef einhver fæst til að sigla skipunum. Á þennan hátt berst gróðinn ofan í vasa þessara manna. Ef eitthvað væri að þessu frv. að finna, þá væri það helzt það, að það gengi of skammt. Nú má segja það, að þessi eignaaukning, sem hér er um að ræða, geti orðið hverfull stríðsgróði. Ég vil ekki neita því, en það er einmitt ástæðan til þess, að ég álít rétt að taka það, áður en hægt er að koma því undan. Með því að láta slíka misskiptingu teknanna viðgangast, sem hér er sannað, að hefur átt sér stað, er verið að leggja grundvöll að meiri ójöfnuði og meiri misskiptingu teknanna í framtíðinni og þar með misskiptingu auðs og eigna í landinu, því að með röskuðum eignarhlutföllum innan lands, er skapaður grundvöllur fyrir meiri misskiptingu tekna á milli einstakra manna framvegis. Þetta fé er þá lagt í kaup á ýmsum fasteignum, húsum og jörðum, skuldabréfum og öðru slíku, og það er engin trygging fyrir því, að það fé, sem safnazt hefur umfram nýbyggingarsjóðina og skattfrjálst er samkvæmt þessu frv., sé lagt í útgerð, ef útgerðarmenn sjá meiri hættu þar en annars staðar. Þeir, sem hafa umráð yfir þessum fjármunum í landinu, geta hins vegar neytt þá til þess.

Hv. þm. gat þess, að þegar frv. var lagt fram í fyrra, þá hefði ég gert ráð fyrir því, að þess mætti vænta, að tekjurnar mundu verða um 12–15 millj., en samkvæmt því yfirliti, sem skattstofan hefur gert, virðist þessi áætlun ekki munu standast, því að samkvæmt því mætti gera ráð fyrir, að skatturinn mundi verða um 7–8 millj. kr. Ég hef engin gögn í höndunum til þess að vefengja niðurstöður skattstofunnar, en ég vil benda á það, að í frv. er gert ráð fyrir, að mjög verði hert á eftirliti með skattaframtölum við álagningu þessa skatts. Ríkisstj. er lagt á herðar að gera sérstakar ráðstafanir í því skyni, þar með að setja reglur um nafnskráningu verðbréfa, ef ekki fengist trygging fyrir réttum framtölum á annan hátt. Það er enginn vafi á því, að það er rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, að það fer mikið af tekjum undan skatti, en fyrir því er og séð í frv., ef stj. skortir ekki röggsemi í framkvæmd. Að því er snertir bankana, mætti einnig taka til athugunar bankainnstæður. En nú bregður svo við, að hv. þm. Seyðf. ber fram brtt. um að fella úr 2. gr. ákvæðið um að tryggja rétt framtöl með nafnskráningu verðbréfa og þar með torvelda eðlilegt og nauðsynlegt eftirlit með skattaframtölum. En hann vill halda því, sem hv. 6. þm. Reykv. átaldi, að gera ráðstöfun til þess að tryggja það, að framtöl þeirra manna, sem eiga verðbréf og bankainnstæður, séu rétt. Ég held, að það sé rangt að samþ. brtt. um þetta efni. Á því er enginn vafi, að bætt framtöl mundu stórauka skattstofna, sem hér kæmu til greina, og skatttekjurnar af skattinum þar af leiðandi. Þess er og að gæta í þessu sambandi, að miklum mun auðveldara er að hafa röggsamlegt eftirlit með framkvæmd þessara l. en almennum tekju- og eignarskatti. Hér er hægt að koma við fullkomnu eftirliti og athugun á bókhaldi og framtölum, og verður það að sjálfsögðu gert, enda til þess ætlazt samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Hv. 6. þm. Reykv. spyr, hvers vegna sé ekki tekinn allur eignaaukinn, heldur miðað við ákveðið mark, sem hann segir, að sé 50 þús. kr., en hafi verið 100 þús. kr. í fyrra, en er nú 80 þús. kr., en 100 þús. í fyrra, en það skiptir ekki máli. Þessu var breytt úr 100 þús. í 80 þús. vegna þess, að komið hefur fram brtt. um það, að sá tími, sem skattákvæðunum er ætlað að ná til, verði fjögur ár í stað þriggja, og er þá 20 þús. kr. eignaauki fyrir hvert ár ekki skattskyldur samkvæmt þessu. Það má deila um, hvort þetta er rétt mark, en um það þarf ekki að deila, að fjársöfnun, sem nemur 20 þús. kr. á ári, getur ekki kallazt stríðsgróði. En sé gróðinn kominn yfir sérstakt mark, getur hans ekki verið aflað með vinnu og sparnaði, og er það því stríðsgróði. En í sambandi við þessar hugleiðingar hv. þm. skal ég játa það, að ég er vel til með að athuga, hvort ekki sé ástæða til að ganga lengra í þessum efnum, eins og sums staðar er gert, að í staðinn fyrir að leggja á eignaauka væri lagður á almennur eignarskattur í eitt skipti fyrir öll. En ég hef enga von um, að það þýði að hreyfa því, en hef það í huga upp á seinni tímann. En um þessa eignaaukningu er það að segja, að hún er til orðin án tilverknaðar mannanna sjálfra, og þess vegna er eðlilegt, að hún sé skattlögð meira en hér hefur verið gert. Eftirmæli hv. þm. eftir vissar stjórnartilraunir gefa mér ekki tilefni til aths. Það er rétt, að það var rætt um löggjöf eins og þessa í sambandi við viðræður, sem fóru fram um stjórnarmyndun. Og við, sem flytjum þetta frv., erum þeirrar skoðunar, að þetta frv. eigi að geta komið að sama gagni, jafnvel þó að slík stj. verði ekki mynduð, vegna þess að tekjurnar eru bundnar í ákveðnu augnamiði. Þeim verður ekki varið til venjulegra útgjalda ríkisstj., heldur til þess að skapa varanleg verðmæti. Sumpart ávaxtast þetta fé, og sumpart bætir það úr þörfum og léttir þar með gjöld ríkisins og þjóðarinnar í heild. Þá spáði hv. þm. því, að svo mundi fara, að þörf yrði á róttækum aðgerðum í skattamálum og þá mundi ekki standa á Sjálfstfl. að ganga langt í þeim efnum, enda hefði Sjálfstfl. talið sig geta fylgt eignaaukaskattinum með því skilyrði, að skatturinn væri notaður til ákveðinna aðgerða. Ég verð að segja það, að þetta er mikil framför frá því, sem áður var, þegar þessi hv. þm. reis úr sæti sínu og fullyrti, að samþ. slíks frv. sem þessa væri brot á stjskr. og árás á eignarréttinn o. s. frv. Á því er enginn vafi, að það er mikil þörf róttækra aðgerða í skattamálum, en tiltrú mín til hv. 6. þm. Reykv. og flokksmanna hans til þess að standa að gagnlegum aðgerðum í því efni hefur farið mjög minnkandi við hinar löngu umr. um þetta mál. Ég hygg, að hugarfar þessara manna hafi komið svo greinilega fram í þessum efnum, að það væri barnaskapur að láta sér detta í hug, að þeir muni vera fylgjandi slíkum ráðstöfunum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. En hvað sem um það er, þá breytir það, sem hér er um að ræða, í engu möguleikunum fyrir slíkum aðgerðum í skattamálum, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á. Hér er aðeins um það að ræða, að taka nokkurn hluta af þeim gróða, sem safnazt hefur, og láta hann renna til ákveðinna aðgerða, sem nauðsynlegt er að sinna, ef kjör almennings eiga ekki að versna stórkostlega frá því, sem æskilegt er. Það á að sporna við því með því að leggja fram fé í eitt skipti fyrir öll, eins og frv. gerir ráð fyrir. Ég hygg, að með þessum orðum mínum hafi ég svarað ekki aðeins hv. 6. þm. Reykv., heldur einnig mestu af því, sem komið hefur fram í ræðum flokksmanna hans, sem hér hafa talað. Þó vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. Hann taldi, að til þess að rétt væri að samþ. slíkan skatt hér á landi, þyrfti þrennt að vera fyrir hendi: Fyrst, að auðsöfnun væri óeðlilega mikil, í öðru lagi, að skattaframtöl hefðu verið vanrækt, og í þriðja lagi, að þjóðfélagið væri í neyð. Ég tel, að það hafi komið fram í umr. og verið sannað, að fyrstu tvö skilyrðin eru fyrir hendi, að eignaaukningin hafi til orðið fyrir viðburðanna rás án tilverknaðar mannanna sjálfra og að skattaframtölin hafi verið vanrækt, en að þau hafa verið vanrækt, sést á því, að eignaaukningin hefur orðið. Þriðja atriðið, þjóðfélagsleg neyð, er ekki fyrir hendi eins og stendur, en það eru lítil búmannshyggindi að ætla sér að bíða eftir því. En með því að samþ. þær ráðstafanir, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., er hægt að hindra, að til slíks neyðarástands komi.