13.09.1943
Efri deild: 16. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í C-deild Alþingistíðinda. (3017)

37. mál, alþýðutryggingar

Brynjólfur Bjarnason:

Ég álít, að mþn. sú, er starfar að rannsókn á alþýðutryggingunum, þurfi að taka þetta mál til yfirvegunar. Að vísu er ekki vel hægt að bera það gjald, sem hér um ræðir, saman við tekjuskattinn, af því að hann er stighækkandi. En hins vegar hef ég alltaf verið þeirrar skoðunar, að þessi skattur væri ekki rétt á lagður og hann ætti líka að vera stighækkandi. Þetta fé er nú orðið svo mikið, að meira er farið að bera á þessu ranglæti, því að það er ósköp eðlilegt, að lágtekjumönnum þyki hart að þurfa e. t. v. að borga hærri upphæð í lífeyrissjóðsgjald en nemur tekju- og eignarskatti þeirra. Þetta atriði þarf því að taka til endurskoðunar, og að því leyti álít ég, að þetta frv. stefni í rétta átt. Hins vegar væri ófært, ef frv. þetta leiddi til þess að minnka tekjur sjóðsins. Nú þarf þvert á móti að auka tekjustofna hans.

Annað atriði er það, sem mþn. þyrfti að taka til athugunar, að gamalmenni komin yfir 65 ára aldur þurfi ekki að greiða lífeyrissjóðsgjald. Það er nokkuð hart aðgöngu, að þeir skuli nú þurfa að greiða þetta gjald, sem voru ellistyrkþegar eftir eldri l. um þessi efni.