08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Brynjólfur Bjarnason) :

Ég er stundum alveg hissa, hvað menn geta verið naskir, þegar þeir hafa hæpinn málstað, að geta fundið fyrir honum einhverjar ástæður, og ég dáist stundum að þessu. Ef ég hefði verið í sporum hv. 1. þm. Eyf. (BSt), hefði ég staðið eins og glópur að eiga að verja svona málstað. Nei, honum tekst að halda hér langa ræðu til þess að verja mál, sem honum finnst algerlega óverjandi, og afleiðingin er sú, að það eru ótrúlegustu hlutir, sem hann getur fundið upp til þess að verja sína afstöðu með. Ég ætla ekki út í það allt hér, enda tel ég það óþarfa að vera að slíku undir þessum umr.

Það er nú fyrst, að hv. þm. heldur því fram, að í dýrtíðarl. sé heimild, sem ríkisstj. hafi til þess að greiða ótakmarkað úr ríkissjóði til þess að borga niður vöruverðið. Hann telur þetta alveg ótvírætt og að það sé ekki vafi á því, að stj. hafi heimild til þess að borga niður vörutegundir eins og kjöt og mjólk, alveg eins og henni sýnist. Hv. þm. sagði, að leiðin til þess að takmarka þetta væri að setja það í fjárl. En í fjárl. í ár er ekkert um þetta, þannig að heimild ríkisstj. er alveg ótakmörkuð. Það er ekkert í fjárl., sem takmarkar þetta, vegna þess að í fjárl. er enginn stafur um það. Þá kemur hann inn á það, að hægt sé í fjárl., sem nú er verið að ganga frá, að taka upp fjárveitingu í þessu skyni og þá sé hægt að ákveða, hvort féð verður veitt og hve mikið. En skilur hv. þm. það ekki, að ef það er rétt hjá honum, að um ótakmarkaða heimild sé að ræða, þá gagnar ekkert, að það sé í fjárl., — ekki hið minnsta. Stj. getur notað ótakmarkað fé til þessara hluta næsta ár, hún getur notað allan tekjuafgang ársins, ef hún hefur þessa heimild, og það er alveg sama, hvað fjárl. segja. Hún getur líka á miðju ári eins og á þessu ári flutt till. um aukna tekjustofna án þess að tilgreina, til hvers hún ætli að nota þá. Hann ætlaði að koma því hér inn, að það væri enginn ágreiningur um, hvernig skilja bæri l. Þykist hann vera svona snjall lögfræðingur? Hann hlýtur að vita, að það eru fjöldamargir lögfræðingar, sem álíta, að ríkisstj. hafi ekki nokkra lagalega heimild til þessa, og álíta, að ef málið færi fyrir dómstólana, þá væri engin heimild fyrir hendi. Ég fyrir mitt leyti hallast að því, að það sé rétt. Hér stendur, að verð á landbúnaðarafurðum skuli vera þetta, sem ákveðið er, og samkvæmt þeim reglum, sem l. setja, hvorki meira né minna. Það verður að selja við þessu verði, og er ekki hægt að greiða það niður nema sérstaklega sé tekið fram, að það sé heimilt. Þess vegna þarf að vera ákvæði um það, að hægt sé að selja við lægra verði. Það stendur: „Þó er stj. heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði“. En það getur ekki hafa verið tilgangur löggjafans að gefa stj. óbundnar hendur um það, hversu mikið fé væri veitt í. þessu skyni, enda hefur engum dottið það í hug. Vill hann halda því fram, að flokkarnir hafi gert samkomulag um, að stj. hafi heimild til að greiða eins mikið og hún vildi? Vill hann halda því fram, að þetta hafi verið gert vitandi vits? Ég álít, að þetta vald eigi eingöngu að vera í höndum Alþingis. Samt heldur hann því fram, að þetta samkomulag hafi verið gert, þó að hann viti, að meiri hl. var ósamþykkur því, að stj. hafði þessa heimild. Dettur honum í hug, að það sé þetta, sem flokkarnir hafa komið sér saman um? Það, sem um er að ræða, er það, að stj. hefur skilið l. öðruvísi en meiri hl. Alþ. vill vera láta og þingið vill verja sig með því að gera ótvírætt, hvað við er átt.

Hv. 1. þm. Eyf. (BSt) heldur því fram, að þetta sé röskun á því. samkomulagi, sem gert var í vor. En ég vil segja honum, að það að ætla sér að skilja l. rangt er röskun á samkomulaginu, og vill meiri hl. Alþ. koma í veg fyrir, að reynt verði með rangri túlkun á lögunum að rjúfa það samkomulag.

Svo var það fleira, sem hann sagði, t. d., að það væri ekki rétt að vera að krukka í lögin, vegna þess að menn mundu þá kannske frekar lokkast til að gera á þeim breyt. Það gæti orðið ákaflega hættulegt, ef farið væri að breyta einum stafkrók í þessum l., þótt ekki væri nema til þess að skýra, hvað meint er með þeim, og svo gætu einhverjir freistazt til þess að koma með frekari breyt. Ég skal viðurkenna það, að ég hef látið freistast og hef borið fram brtt. um áframhaldandi starf 6 manna n. og ég er alveg viss um, að þm. sem áhuga hafa á l., mundu hafa borið fram brtt., þótt þessi brtt. hefði ekki komið fram. Ég held, að þetta sé fyrirsláttur, sem þurfi ekki að taka alvarlega. Þá telur þm., að þessi till. sé óþörf. Hann telur hana óþarfa vegna þess, sem hann tók fram — og ég hef áður rætt, að hægt sé að setja í fjárl. eftir nokkra daga einhver ákvæði um, hve mikið fé megi greiða. Hér er nú um meira en nokkra daga að ræða, því það er um það að ræða, hvort stj. hafi haft þessa heimild og hvort hún skuli hafa hana til áramóta. Ég geri ráð fyrir því, að þegar stj. verður ljóst, að meiri hl. þingsins vill, að hún hafi ekki þessa ótakmörkuðu greiðsluheimild, leggi hún þegar fyrir þingið sínar till. Þm. veik að því, að þetta væri ekki nema formsatriði, því að hann trúi því ekki, að nokkur þm. sé með því, að þessum greiðslum verði hætt. Hvernig getur hann sagt þetta, þegar hann veit, að tveir flokkar eru á móti þessum greiðslum og telja þær rangar? Ég vil ekki fara út í þetta núna, en hann veit ekki, hvernig meiri hl. Alþ. lítur á þetta mál. Sjálfstfl. hefur lýst yfir því, að hann muni ekki skýra opinberlega frá afstöðu sinni, fyrr en stj. hafi lagt fram till. sínar um það, hvort þessum greiðslum skuli haldið áfram. Hins vegar veit hann ekkert um það, hvort flokkurinn vill láta greiða landbúnaðarvörurnar niður framvegis og hve margir eru með því að greiða með þeim, því að ekkert hefur komið fram, sem sannar, að meiri hl. sé með því að greiða uppbætur á kjöt og mjólk til þess að lækka útsöluverðið á þessum vörum.

Um þetta þarf ég í rauninni ekki að ræða frekar. Jafnvel hv. frsm. minni hl. var þeirrar skoðunar, að það væri óeðlilegt, að stj. hefði slíka ótakmarkaða heimild sem hér um ræðir, og ég geri ráð fyrir, að það sé skoðun yfirgnæfandi meiri hl. Alþ., að þannig eigi það ekki að vera og úr því að stj. hafi skilið þetta þannig, að hún hafi þessa heimild, verði að fá ótvírætt úr því skorið, hvort hún skuli hafa hana. Þessi breyt. á dýrtíðarl. til skýringar á þeim — til þess að fá þetta ótvírætt — er svo óhjákvæmileg og svo sjálfsögð, eins og sakir standa, að það þarf ekki að fara um það fleiri orðum. Hins vegar er kannske rétt að ræða ofurlítið um brtt. mína á þskj. 136 og þær mótbárur, sem þm. bar fram á móti henni. Hv. þm. (BSt) vildi halda því fram, að þessi till. mín breytti allmiklu vegna þess, að í dýrtíðarl. er svo ákveðið, að verð það, sem 6 manna n. komi sér saman um á landbúnaðarafurðum fyrir 15. ágúst, skuli gilda til stríðsloka. Aftur er ekki gert ráð fyrir, að hægt sé að endurskoða grundvöllinn. Eins og ég tók fram í upphafi, er ekki um slíka gerbreytingu að ræða, heldur aðeins það, að n. haldi áfram störfum sínum og endurskoði niðurstöður sínar, ef hún geti komizt að réttari niðurstöðu en hún gat fyrir 15. ágúst s. l. Þetta er tilgangurinn og annar ekki. Ég skil satt að segja ekki, hvað hv. þm. sér á móti þessu. Vill hann, að sá grundvöllur, sem nefndin hefur fundið með útreikningi sínum, haldist, þótt rannsókn leiði í ljós, að hann hafi verið meira og minna rangur, og þótt rannsókn leiði í ljós, að hann þurfi endurskoðunar við? Vill þm. halda því fram? Þm. segist vera á móti því, að grundvöllurinn sé athugaður frekar, og er á móti því, að þessi d. samþykki till. um athugun á starfi n. Við skulum nú segja, að það komi í ljós, að þetta sé ónákvæmt og þurfi leiðréttingar við. Vill þm. samt halda því fram, að þrátt fyrir það að n. af ýmsum ástæðum gat ekki fundið réttan grundvöll, eigi að halda sér að röngum grundvelli? Heldur hann, að það mundi eyða óánægju milli þessara aðila? Dettur þm. það í hug? Hann hélt því fram, að ef þessi rannsókn væri látin fara fram, ef n. héldi áfram störfum, mundi það verða til þess að skapa óánægju. Veit hv. þm. ekki, að það er óánægja — og það megn óánægja — með það samkomulag, sem orðið er, þótt flestir fagni því, að samkomulag gat náðst, og það ekki af óeðlilegum ástæðum? Þessi óánægja er einmitt vegna þess, að n. hafði svo litla aðstöðu til þess að gera niðurstöður sínar svo úr garði, að það tæki af öll tvímæli um, að þær væru réttar. Hann viðurkenndi þetta sjálfur. Ef menn koma og segja, að það megi ekki endurskoða þennan grundvöll, enda þótt viðurkennt sé, að mjög hafi skort á, að svo ýtarleg rannsókn hafi farið fram sem þurfti, að þrátt fyrir það þurfi að halda í það gamla, halda menn, að slíkt sé til þess að eyða tortryggni? Það er aðeins ein ástæða, sem getur skýrt afstöðu þeirra manna, sem viðurkenna, að endurskoðunar sé þörf, en vilja samt ekki, að hún fari fram. Þeir gera ráð fyrir, að endurskoðun mundi verða þeim í óhag. Þess vegna vilja þeir halda í ranglætið. Ég fullyrði, að ef menn vilja ekki hafa það, sem réttara reynist, hlýtur það að verða til þess að auka óánægju. Við skulum hugsa okkur, að það gæti orðið samkomulag á milli þeirra aðila, sem bak við 6 manna n. standa, milli Búnaðarfélagsins, Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hagstofustj., að aftur yrði samkomulag um niðurstöður, sem þessir aðilar kæmust sameiginlega að, en þrátt fyrir þetta vilja þm. halda í gamla grundvöllinn og bera því við, að með því sé verið að rjúfa samkomulag flokkanna frá síðasta þingi og því megi ekki raska. Halda menn, að aðilar mundu sætta sig við það? Hins vegar segist hv. þm. þó geta hugsað sér, að það gæti orðið nýtt samkomulag í dýrtíðarmálum um frekari ráðstafanir, en hann vill ekki nýtt samkomulag nema því aðeins, að Framsfl. hér á þingi sé ánægður. Hann vill því aðeins lausn á dýrtíðarmálunum, að réttur Framsfl. til þess að segja: hingað og ekki lengra — sé ótvíræður. Hann vill ætla Framsfl. rétt til þess að segja: „Hér verður ekkert samkomulag“, enda þótt fulltrúar Búnaðarfélags Íslands, Alþýðusambandsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hagstofustjóri séu sammála. Ég get skilið þetta út frá hans þrönga flokkssjónarmiði, en út frá almennu sjónarmiði ekki. Ég álít líka rangt, að þingflokkur Framsfl. gæti einn ráðið því, að samkomulag gæti ekki orðið um þetta mál, enda þótt framleiðslufélög bænda, samtök verkamanna og aðrir gætu orðið sammála. En það var einmitt þetta, sem mér skildist þm. vera að fitja upp á í andstöðu sinni á móti því, að yfirleitt yrði nokkur breyt. hvorki á dýrtíðarl. né þeirri niðurstöðu, sem 6 manna n. komst að. Rétt er að minna hv. þm. á, að með samkomulaginu, sem gert var í vor, afsalaði flokkur hans sér því að geta haft neitunarvald í þessum málum. Hann féllst á það, að hann mundi hlíta því samkomulagi, sem gert yrði af þeim aðilum, sem að n. stóðu. Nú er ekki farið fram á meira við flokkinn en hann hlíti áfram þeim dómi, sem þessir aðilar koma sér saman um. Ég held þess vegna — alveg þvert á móti þeirri skoðun, sem fram kom hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt) —, að þessi till. mundi geta orðið til þess að bæta samkomulagið í dýrtíðarmálunum og draga úr óánægju manna með þá samninga, sem þegar hafa verið gerðir. Ég held þvert á móti því að hafna þessari till., að hafna því, að rannsókn sé haldið áfram, sem allir viðurkenna, að sé ófullnægjandi, — að henni sé haldið áfram til þess að komast að réttari niðurstöðu. Að hafna því, sem sannara reynist að dómi allra, sem hlut eiga að máli, mun óhjákvæmilega verða til þess að auka óánægjuna stórkostlega.