08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (3034)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Til þess að gera sér grein fyrir, hvort þm. vildu samþ. rökst. dagskrána á þskj. 126 eða sjálft frv. með brtt. á þskj. 135, er nauðsynlegt að gera sér ljóst, hvort ríkisstj. hefur heimild þá í dýrtíðarl., sem um er rætt, og verður þá að lesa meira en svolítinn kafla í l. Þær tekjur, sem ætlazt er til, að aflað sé með dýrtíðarl., eru ekki settar í fjárl. síðasta árs og þar af leiðandi ekki heldur gjöldin. Þess vegna miðast öll heimildin aðeins við þessi einu l. Það var skilningur minn á síðasta þ., og ég hugsa að sá skilningur sé enn fyrir hendi hjá þm. Ef skilningur ríkisstj. er réttur, áttu allar tekjur og útgjöld að koma í fjárlfrv., en hæstv. fjmrh. hefur ekki sett útgjöldin í fjárlfrv. fyrir 1944 til þess að mæta þessu, og það sannar, að hann sjálfur hefur litið svo á, þegar hann útbjó fjárlfrv. og bað um tekjuöflun hér og lýsti yfir því, að það fé skyldi ekki notað nema í samráði við þ. Hér er ekki deilt um annað en hvort fjárveitingavaldið skuli færast úr höndum þ. yfir til ríkisstj. og það ríkisstj., sem hefur ekki þingmeirihluta á bak við sig, eða hvort Alþ. á að hafa það, eins og ætlazt er til í stjórnarskránni. Ef stj. telur sig hafa heimild til að greiða til dýrtíðarráðstafana samkv. 23. gr. fjárl., hlýtur líka sú heimild að falla niður í lok ársins. Því er nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að leita þessarar heimildar, áður en árið er útrunnið, þó að hún telji sig hafa heimild fyrir 1943. Ég sé ekki, af hverju ríkisstj. þrjóskast við að gera þessa skyldu sína, hvort það er af eintómum metingi um það, hvort hún eigi að beygja sig fyrir þessu lítilfjörlega Alþ., eða greiða þetta og láta síðan Alþ. banna það.

Ég vil í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Eyf. minna hann á, að þó að aldrei nema þessi l., sem hann vill ekki láta breyta, hafi verið samþ. af meiri hl. Alþ., er honum ljóst, að meðferðin var svo, að ekki var til sóma. Eftir að málið hafði verið vikum saman í Nd., og búið var að breyta því svo, að ríkisstj. þekkti ekki sitt eigið frv., er Ed. fyrirskipað að afgreiða það umhugsunarlítið. Málið var komið í þann eindaga, að það hafðist með herkjum ein nótt og tveir dagar fyrir Ed. til afgreiðslunnar, og hv. 1. þm. Eyf. er vel ljóst, að hér kom fram till., sem hann viðurkenndi þá, að mikið vit væri í að ræða, en það var ekki hægt, og tími vannst ekki til að ganga frá frv. eins og hann og fleiri álitu til meiri sóma. Það hefði kannske verið betra fyrir þjóðina, að Ed. hefði stöðvað málið og hugsað það betur.

Ég vil aðeins minnast á brtt. hv. 5. landsk. þm. og lýsa yfir því, að mér finnst hún mjög varhugaverð, ef hún verður samþ. á þessu stigi málsins. Hún kveður ekkert á um það, að n. skuli öll vera sammála, svo að það má skilja það á þann veg, að það sé aðeins meiri hl. n., sem geti ákveðið, að það yrði allt annað verðlag 15. ág. en samið er um nú. Hitt er annað mál, að það þýðir ekki að stimpast á móti, ef í ljós kemur, að niðurstöður 6 manna n. eru ekki réttar. Það verður ekki stætt á því fyrir neinn þm. eða flokk. Ég skal ekki segja, á hvern mundi halla, en þegar slíkt liggur fyrir, er ekki hægt að krefjast þess, að haldið sé í niðurstöðutölur, sem eru fundnar af því, að ekki vannst tími til að finna þær réttu.

Ég mun greiða atkv. með frv. eins og það liggur fyrir með brtt. í nál., en ekki með brtt. 136 á þessu stigi málsins.