08.10.1943
Efri deild: 31. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (3036)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Magnús Jónsson:

Ég er einn í meiri hl. fjhn. og þarf ekki að gera grein fyrir mínu atkv. Ég vil samt stuttlega skýra afstöðu mína. Það er eitt atriði, sem mér finnst ekki hafa komið fram, nefnilega, að hér er um sjálfsvarnarátök þ. að ræða. Það hefur, — þó að undir rós sé, — verið dregið í efa, hvað Alþ. eigi að hafa ríkan rétt til að ákveða fjárframlög úr ríkissj. Þetta er stórt atriði og nauðsynlegt, að þm. geri sér það ljóst. Það kom skýrt fram hjá hæstv. fjmrh., þegar frv. um tóbakseinkasöluna var til umr., að hann taldi sig í vafa um rétt ríkisstj. samkv. 4. gr. dýrtíðarl.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel enga vanvirðu að því, þó að ég hafi ekki hugsað um þetta mál sérstaklega í þessu sambandi, en mér finnst við nánari athugun koma skýrt í ljós, hversu stórkostlegir vankantar eru á þessari 4. gr. Það eru tvö atriði, sem koma sérstaklega til greina, og þá í fyrsta lagi, hvort þessi heimild geti náð fram yfir þá tekjuöflun, sem um getur í 1. gr. í sömu l. En í 2. gr. segir fyrir um, hvernig þeim tekjum skuli varið:

„Tekjum þeim, sem aflað er samkv. 1. gr., skal varið til að standast kostnað þann, er ríkissjóður kann að hafa af framkvæmd 4. og 5, gr. laganna“.

En í 4. gr. er þessi heimild, sem hér um ræðir. Og það virðist nokkurn veginn liggja í augum uppi, að sú heimild 4. gr. l. er takmörkuð við það, að Alþ. leggi hér til peninga, sem stjórnin megi verja til þess að standast þann kostnað, sem kann að verða af ráðstöfunum samkv. 4. og 5. gr. l. Ef fjárupphæð 1. gr. l. reynist vera takmörkuð, þá er hún takmörkuð víð rá fjárhæð, sem ríkisstj. hefur til umráða til þess að ákveða lægra verð á landbúnaðarafurðum. Ef litið er á 1. og 2. gr., þá finnst mér það sannast að segja nægja til þess, að stjórnin eigi að fara sér hægt í það að telja sig hafa heimildina fullkomna og ótakmarkaða. En auk þess er svo við nánari athugun, að mikill vafi er á, hvað felst í ákvæðum 4. gr. l. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að við lauslega athugun geti litið svo út, að hér sé um ótakmarkaða heimild að ræða. Í 4. gr. stendur:

„Þó er ríkisstjórninni heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði.“

Margir kynnu kannske að álíta, að stj. hafi með þessu heimild til að leggja fram ótakmarkað fé úr ríkissjóði. En það hefur hins vegar verið margbent á það, að hér er um svo tröllaukna heimild að ræða, að slík heimild hefði aldrei verið veitt á Alþ. Því að ef um væri að ræða að veita ótakmarkað fé til þess að ákveða verð á þessum afurðum, gæti verið um tugi milljóna að ræða. Þegar maður hefur því athugað þetta eitt út af fyrir sig, er það nóg til þess, að þm. gagnrýni þetta og þeim standi stuggur af. Annars eru aðalatriði þessarar málsgr. viðvíkjandi störfum sex manna n. Ef þessi n., sem á að finna hlutfallið milli verðlags landbúnaðarvara og kaupgjalds stéttarfélaga, hefur orðið sammála, er þar með ákveðið það verð, sem vera skal á þessum einstöku landbúnaðarafurðum. En þegar búið er að ákveða þetta verð, þá er eins og þeirri hugsun skjóti upp, að það gæti orðið nauðsynlegt, að ríkisstj. tæki einhvern þátt í greiðslum þessu varðandi og því hafi þessi setning verið sett inn til viðbótar ákvæðinu. Það virðist hafa verið svo, að eftir að búið var að slá föstu, hvaða verð á landbúnaðarafurðum skyldi vera, þá hafi verið farið að hugsa út í, að þetta verð gæti hækkað vísitöluna, svo að því hafi þetta verið eina smugan fyrir ríkisstj., þangað til Alþ. kæmi saman. En fyrir utan þetta er orðalagið ekki eins skýrt og það gæti verið í setningunni:

„Þó er ríkisstjórninni heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði.“

En hver ákveður framlög úr ríkissj. annar en Alþ.? Alþ. ákveður öll framlög úr ríkissj. samkvæmt stjórnarskránni. Aftur á móti má skilja þetta þannig, að Alþ. sé að fá ríkisstj. þessi völd í hendur með þessu orðalagi í umræddri grein. Nú vil ég segja það, að þegar slíkur vafi er á, þá finnst mér ekki vera hægt að gefa skýrari svör en veitt voru í svari Sjálfstfl. við fyrirspurn ríkisstj. um þetta efni. Í svari hans er dregið í efa, hver hafi heimildina, en hins vegar komi ekki til neinna mála, að stj. noti sér hana, meðan Alþ. situr. Hér er því um að ræða, hver hefur heimildina. Stj. segir ég. Alþ. segir ég. Og það er því þetta, sem Alþ. verður að athuga vel við ákvörðun um þetta frv. Mér finnst því sjálfsagt, að Alþ. samþykki þetta frv., sem aðeins fer fram á að skera úr þessu vafamáli. Hér er alls ekki einu orði á það minnst, að Alþ. ætli að taka afstöðu á móti ríkisstj. eða sé með nokkrar átölur til hennar, þó að hún hafi veitt þetta fé. Áður en ég lýk máli mínu, vil ég með nokkrum orðum minnast á brtt. 136. Mér er ekki hægt að koma auga á neitt hættulegt við þessa brtt., eins og ég skil hana. Í dýrtíðarl. sjálfum eru tímabundin ákvæði um þessa sex manna n. og störf hennar, sem segja, að ef hún komist að samkomulagi, skuli hún ljúka störfum og skila áliti til ríkisstj. fyrir 15. ág. 1943. Samkomulag hefur fengizt í n. og haggast ekki, þó að þessari gr., sem brtt. getur um, verði bætt við gr. dýrtíðarl. Ég skil því brtt. eingöngu þannig, að hún eigi að vera til þess, að n. haldi áfram störfum sínum við að fá þennan grundvallarkostnað fastan með auknum upplýsingum. Það var sagt hér áðan, að það væri einkennilegt að fela sömu n. að endurskoða þennan grundvöll og það væri betra að fela þetta starf einhverjum öðrum. Mér finnst ákjósanlegast að fela þetta starf einmitt þessari n., því að hún hefur sett sig vel inn í vandamálin, og því bezt kunnug þessum málum. Mér finnst nægilegt að benda á það, að n. kannast sjálf við, að sá grundvöllur, sem hún fann, sé engan veginn eins fullkominn og hann þarf að vera. Með leyfi forseta vil ég benda á örfá atriði úr nál. T. d. við ákvörðun á verði kjarnfóðurs er byggt á skýrslum frá aðeins fjórum kaupfélögum. Það væri æskilegt að athuga þetta nánar, því að við slíkar niðurstöður þarf miklu víðtækari rannsókn. Um kaup bóndans segir í nál.: „Framvegis verður tíminn væntanlega ekki eins naumur, og mætti þá gera þessar skýrslur víðtækari, ef ástæða þykir til. N. hafði takmarkaðan tíma til starfa. Út af búreikningunum gagnrýni ég það, að stuðzt var aðeins við 40 búreikninga á hverju ári. Þegar leitað var upplýsinga um kaupgreiðslur til bænda, var aðeins snúið sér til eins hreppstjóra í hverri sýslu. Það er alveg augljóst mál, að miklu betra væri að afla fleiri skýrslna, enda segir n., að hún telji réttara, að skýrslu um kaupgreiðslur verði framvegis fengnar úr tveim hreppum í hverri sýslu. Hins vegar var tími nm. naumur, eftir að skýrslum var skilað, og það orsakaði, að þeir gátu ekki gert eins víðtækar skýrslur og þeir hefðu á kosið. Þessi brtt., sem hér um ræðir, álítur líka, að gefa eigi n. meiri tíma til þess að endurskoða og athuga þessa útreikninga, ef ástæða þykir til. Aðrar raddir hafa komið fram um að fela öðrum þetta verk og sé þá eðlilegast að fela það Hagstofunni. En mér finnst eðlilegast að fela það þeirri n., sem hefur unnið við þessi störf, svo að hún geti unnið áfram eftir sömu reglum við að fá þennan grundvöll fastari, og að hún fái þannig betri aðstöðu til þess.