11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér inn í deilur þær, sem eru milli hv. 5. þm. Reykv. og hv. 1. þm. Eyf., en í síðustu ræðu hv. 1. þm. Eyf. féllu nokkur ummæli, sem ég vil ekki láta ómótmælt.

Hv. þm. segir, að búið sé að samþ. hér á þingi tekjuöflun til að greiða niður dýrtíðina. Ég hélt, að ég sæti hér eins mikið og aðrir þm., en ég hef ekki orðið var við, að þetta hafi verið gert. Ef hann á við þá hækkun, sem samþ. var á tóbaki, þá vil ég benda honum á, að hann sem nm. í fjhn. undirskrifaði nál. — að vísu með fyrirvara —, þar sem þetta stendur, með leyfi hæstv. forseta:

Meiri hlutinn telur ekki óeðlilegt, að rýmkuð sé álagningarheimild á tóbaki eða ákveðnum tegundum þess, og getur af þeim ástæðum mælt með því, að frumvarpið verði samþykkt. En um ráðstöfun á því fé, sem aflað verður með frv., hefur fjármálaráðherra skýrt nefndinni frá yfirlýsingu, er hann muni gefa við 2. umr., og telur meiri hlutinn þá yfirlýsingu fullnægjandi til þess að tryggja vald þingsins til ráðstöfunar fjárins.

Það var þannig gert að skilyrði hjá n., að það þyrfti samþ. þingsins til að nota þetta fé, sem því yrði varið til að greiða niður eða eitthvað annað, en þetta samþykki hefur hæstv. stj. ekki fengið enn þá. Það hefur að vísu verið leitað til flokkanna um að mega nota þetta fé til að greiða niður dýrtíðina. Hún hefur fengið það svar frá Framsfl., að hún mætti það, en skilyrðisbundið svar frá stærsta flokknum í þinginu, Sjálfstæðisfl., og meðan þessi skilyrði eru ekki uppfyllt, hefur hún ekki leyfi til að nota féð í þessu skyni. Þess vegna er nauðsynlegt að samþ. þetta frv. til að halda fjárveitingavaldinu hjá þinginu, en hvorki hjá Framsfl. né stj. Og ef það hefði komið fram við umr. um frv. um hækkun á tóbaki, að stj. ætlaði að nota þessar tekjur til dýrtíðarráðstafana án þess að fá til þess leyfi þingsins, þá hefði frv. verið stöðvað og hæstv. stj. ekki fengið þessar tekjur.

Hv. þm. gat þess, að ekki væri von, að þetta hefði komið inn á fjárl., því að þeim hefði verið lokið þá. Það er rétt, en þrátt fyrir það hefði stj. getað sett þessa fjárveitingu inn í næsta fjárlagafrv., en í því frv. er ekki ein króna til að greiða niður dýrtíðina.

Það er enginn vafi, að þingið meinti, þegar það gekk frá dýrtíðarl. og ákvað, hvaða tekjur skyldu koma samkvæmt þeim l., að heimild l. skyldi miðuð við þá tekjuöflun og ekkert annað.

Ég hef aðeins viljað láta þetta koma fram, því að ég tel alveg rangt, að það sé ómótmælt, að þessi heimild hafi verið samþ. hér á þingi.