11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (3042)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þær rökræður, sem hér hafa átt sér stað um það, hvort samþ. eigi þetta frv. eða ekki, en vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til málsins með örfáum orðum.

Ég vil fyrst taka fram, að Framsfl. hefur aldrei fallizt á, að þær aukatekjur, sem ríkissj. áskotnast fyrir þá verðhækkun, sem Alþ. samþ. nýlega á tóbaki, verði notaðar til að borga niður dýrtíðina nema fyrst um sinn. Leyfi Framsfl. er því tímabundið, en þó ekki skilorðsbundið eins og hjá Sjálfstfl. En viðvíkjandi þeirri heimild, sem er í 4. gr. dýrtíðarl., er það að segja, að hún virðist vera allákveðin. En eins og hún er til komin, þá kann að vera, að hún verði talin vafasöm, vegna þess að það er næstum því vitað, að þegar þessi l. voru samþ., þá bjuggust menn alls ekki við samkomulagi. En nú, þegar það er komið á daginn, að samkomulag náðist í sex manna n., vilja menn ekki sætta sig við það verðlag, sem þar varð samkomulag um. Það má því segja, að 1. hafi verið samþ. með forsendum, sem hafi ekki rætzt. Meiri hl. þ. bjóst ekki við, að samkomulag næðist, en þegar svo samkomulag verður, kemur sú óánægja, sem við heyrum nú, út af þessari heimild. Það er rétt að segja þetta hér á þingi, því að svona liggur í málinu.

Það er um það deilt, hversu miklar heimildir hæstv. ríkisstj. hafi til að borga niður dýrtíðina. Því er yfir lýst af sósíalistum og jafnaðarmönnum, að þetta frv. sé borið fram og því fylgt vegna þess, að þeir vilji afnema þær heimildir, sem hæstv. stj. kann að hafa, eða a. m. k. takmarka þær verulega. Framsfl. aftur á móti vill leyfa stj. að borga dýrtíðina niður, en Sjálfstfl. vill láta hana bera fram till. hér á þ. til að afla slíkra heimilda. Það er því erfitt að átta sig á málinu í svipinn. Frá hendi Sjálfstfl. kann að vera, að þetta sé formsatriði, þeir líti svo á, að. stj. hafi vafasama heimild, og þeir vilji afnema hana til að veita henni aðra nýja og vafalausa í staðinn. En áður en það liggur fyrir, er erfitt að ræða málið, því að það er erfitt að hefja hér langar umr. um efni, sem kann að vera aðeins form af hálfu þessa flokks, því að ef Sjálfstfl. samþ. nýja heimild til að borga niður dýrtíðina, þá er málið komið í sama horf og það er nú að áliti stj., því að hún telur sig hafa þessa heimild. En verði heimildin takmörkuð eða felld niður og ekkert sett í staðinn, þá er þetta orðið mál, sem hefur efnislegt innihald. Ég hef áður látið orð falla um það hér í d. og vil endurtaka það nú, að ég tel meira en lítið vafasamt að hægt sé til lengdar að borga dýrtíðina niður. En ég sé mér ekki fært að fallast á, að þessar heimildir séu af hæstv. stj. teknar, ef hún hefur þær, eða tekið fram fyrir hendurnar á henni, meðan ekki er hægt að benda á nýjar aðferðir og meðan verið er að reyna að starfa að því að reyna að finna einhverja framtíðarlausn á dýrtíðarmálunum, því að ekki er hyggilegt, þó að. maður búi í lélegu húsi, að rífa það ofan af sér, jafnvel þótt hjallur sé, áður en hægt er að útvega sér eitthvert annað húsaskjól. Ég, sem er manna mest efins í, að unnt sé að borga niður dýrtíðina til lengdar, vil samþ. till. hv. 1. þm. Eyf., vegna þess, að hún gefur aðeins frest til að borga niður dýrtíðina og halda í horfinu eins og er, meðan verið, er að finna nýjar leiðir, og í dagskránni er sú takmörkun, sem þingið er að óska eftir. Ég hygg, að sú takmörkun, sem felst í dagskránni, sé nægileg í svipinn. Á þessu stigi er erfitt að ræða málið, á meðan ekki er vitað, hvort það er aðeins formsatriði hjá Sjálfstfl. Ég geri ráð fyrir, án þess að ég viti það, að Sjálfstfl. hafi, áður en hann gekk að því að afnema þessa heimild, gert það upp við sig, hvaða skref hann ætlar að stíga í þessu máli næst. Hjá þinginu klingir nú stöðugt við: Ég vil ekki heyra þetta, ég vil ekki heyra hitt, — og þetta endar með vinnubrögðum, sem eru að gera þingið smám saman óstarfhæft. Ég er ekki að segja þetta í sambandi við þetta mál, því ég þykist vita, að Sjálfstfl. sé búinn að ákveða þá leið, sem hann ætlar að fara í því máli. Ég á við þessi vinnubrögð almennt, sem hljóta að enda með fullkominni upplausn. Vinnubrögðin eiga að vera þannig, að þingið segi: Ég vil þetta, en ekki hitt. Það, sem ég sakna í þessu máli, er einmitt það, að um leið og verið er að rífa niður, skuli það ekki koma fram, hvað fyrir þeim vakir, sem breytingar vilja gera. Það er eðli parlamentarismans, að menn segi, hvað þeir vilja, og berjist fyrir því, og ef þeir fá því framgengt, sem þeir vilja, að taka þá ákvörðun og stjórna samkvæmt henni. Með hinu mótinu er hætt við þeim vinnubrögðum, sem hér hafa nú ríkt um skeið, en ef þau vinnubrögð verða yfirleitt tekin hér upp, er ég hræddur um, að ekki horfi vænlega. Meira segi ég ekki, því að málið liggur alveg ljóst fyrir, þar sem Sjálfstfl. skýrir ekki enn og ætlar sennilega ekki að gera við þessar umr., hvað fyrir honum vakir og hvort það er aðeins formsatriði að taka af heimildina til að veita hana aftur. Ég get ekki fallizt á að hverfa frá því, sem er, meðan ekki er fundið annað betra, þó að ég sé allra manna mest á móti því, að haldið sé áfram að borga niður dýrtíðina.