11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (3045)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Magnús Jónsson:

Hv. síðasti ræðumaður, 1. þm. Eyf., var að gefa í skyn, að þetta frv. hefði þann dulda tilgang að koma fyrir kattarnef því samkomulagi, sem varð í sex manna n., eða eyðileggja þann grundvöll, sem skapaður var í þeirri n. Hv. þm. beindi þessu þó ekki til sjálfstæðismanna og sósíalista í n., enda er fylgi okkar við frv. engan veginn við það bundið, að slíkt komi fyrir, síður en svo. Ég fyrir mitt leyti vil einmitt, að þessi grundvöllur geti orðið sem öruggastur, og þess vegna samþ. ég brtt. hv. 5. þm. Reykv.

Mér skildist hv. 1. þm. Eyf. líta svo á, að Sjálfstfl. hefði samþ. það með þögninni, að stj. innti af hendi þessar greiðslur, og hann hefði ekki afturkallað þá samþykkt sína. Í bréfi Sjálfstfl. var skýrt tekið fram, að stj. bæri að leita heimildar Alþ., og það er á mati flokksins, hve lengi hann telur, að þetta megi dragast. En ég held á hinn bóginn, að það sé alveg rétt, að menn hafi almennt búizt við því, að störf sex manna n. mundu leiða til þess, að dýrtíð lækkaði, en hækkaði ekki. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hélt það. En ég held, að það, hve þetta ákvæði er nú í mikilli óvissu, stafi af því, að menn héldu almennt, að ekki þyrfti til þess að koma, að mikið yrði greitt í þessu skyni.

Mér kom á óvart ræða hv. þm. Str. og það, sem hann sagði viðvíkjandi þessari heimild ríkisstj., því að ég man ekki betur en við umr. um tóbakið legði hann mikla áherzlu á það, að stj. fengi alls engar víðtækar heimildir í þessu efni. Mér fannst hann halda því fram í öðru orðinu, að þetta hefði aldrei verið sett inn í l. sem ótakmörkuð, almenn heimild. Að mínum dómi er það alger misskilningur á frv., að með því sé yfirleitt nokkur afstaða tekin til þess, hvort stj. hafi þessa heimild eða ekki, en átökin eru um það, hvort þ. ætlar að halda fast í rétt sinn til þessarar fjárveitingar eða ekki, enda segir í frv., eins og það er orðað eftir 2. umr. í Ed.: „. ... en leita skal hún heimildar Alþingis til fjárframlaga í því skyni“. Ég vil segja, þó að ég vilji ekki taka ákveðna afstöðu í málinu fyrir mína hönd eða annarra, að mér finnst frekar liggja í þessu, að þ. vilji taka með lipurð í óskir hæstv. ríkisstj., því að það væri að leggja dálitla fallgryfju fyrir hana, ef þ. væri með samþ. frv. að benda henni á það, að hún yrði að leita heimildar, sem yrði svo neitað. Það er að vísu vafamál, hvort hæstv. ríkisstj. getur talizt hafa þessa heimild nú, en með frv. er skorið úr um það, að það er Alþ., sem hefur heimild til að veita slíka heimild.

Ég þarf ekki að svara hv. þm. Str. um það, hvaða till. Sjálfstfl. hefur í málinu. Það kemur vitanlega fram á sínum tíma. En ég get tekið undir með hv. þm. um það, að leiðinlegt er, þegar vinnubrögð eru þannig, sem hann lýsti. Ég held þó, að þar þurfi enginn öðrum að bregða um neitt, og er það þessu frv. óviðkomandi.

Ég held, að það væri réttast, ef þetta frv. heldur áfram, að Alþ. gæti verið búið að taka ákvörðun sína annaðhvort með ákvæðum í frv. eða í sambandi við meðferð málsins, áður en l. ganga í gildi. Ég vil á hinn bóginn benda á það, að nokkur ástæða var til, að hik kom í svipinn á þá menn, sem annars vildu bera fram sérstakar till., því að nú er starfandi n., sem á að skila áliti eftir stuttan tíma. Sú n. er sett til sameiginlegrar niðurfærslu á kaupgjaldi annars vegar og afurðaverði hins vegar. Vera má, að ýmsir hafi litla trú á þessu, en ég vil þá vitna í þau orð hv. þm. Str., að enginn hér á þ. hafði trú á sex manna n., en hún komst þó eigi að síður að ákveðinni niðurstöðu.

Mér fyndist eðlilegt, að dokað yrði við, þangað til séð yrði fyrir endann á því, hvort n. getur komið með lausn eða eitthvað það, sem mætti byggja á í þessu máli.