11.10.1943
Efri deild: 32. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (3050)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Ég skal gefa hv. 5. þm. Reykv. þann vitnisburð, að hann hafði réttara eftir mér nú en í ræðu sinni áðan. En ég sé ekki, þó að hann hafi haft þá röksemdafærslu, sem hann segist hafa viðhaft, að það breyti neinu. Afstaða mín er ljós, eins og rökstudda dagskráin sýnir. Ég álít ekki tímabært að breyta dýrtíðarl., eins og ég hef þegar sýnt fram á, og ég álít það ekkert óvenjulega afstöðu til mála, meðal annars vegna þess, að málið er í rannsókn. Mér finnst það ekki eins skýlaust og hv. þdm. vildi vera láta, að verði till. hans samþ. og svo færi, að n. yrði ekki sammála um grundvöllinn, þá gildi gamli grundvöllurinn. Tilvitnun hv. þm. í dýrtíðarl. er alveg rétt. En í till. segir, að n. eigi að endurskoða grundvöll vísitölu þeirrar, er um getur í 1. málsgr., eftir því sem ástæða þykir til, og ákveða verð samkvæmt því. Nú á að ákveða nýtt verð fyrir 15. ágúst ár hvert og þar með nýjan grundvöll. Þetta lagaákvæði stendur við hliðina á hinu. Eftir hverju á þá að fara? Ég held, að það sé ekki alveg ljóst, að gamli grundvöllurinn gildi. En þar sem hv. þm. lofaði góðu um það, að vilja gjarnan koma inn ákvæði, sem gerði þetta skýlaust, ef brtt. hans verður samþ., þá tek ég hann á orðinu og mun bjóða honum að flytja með honum breyt. í þá átt, að ef ekki næst samkomulag í n., þá gildi gamli grundvöllurinn.