03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. d. er kunnugt um afstöðu ríkisstj. til verðlækkunar innlendra afurða á íslenzkum markaði. Hún telur brýna nauðsyn bera til þess, að verðbólgan haldist í skefjum vegna atvinnuveganna í landinu, sérstaklega sjávarútvegsins. En það er ekki hægt nema með framlögum úr ríkissjóði. Stj. hefur tilkynnt öllum flokkum þ. afstöðu sína í þessu efni. Hér hefur ekki verið farið að með nokkurri leynd. Öllum er kunnugt, hvað verið er að gera. Til þess að standa straum af þessum greiðslum hefur ríkisstj. aflað tekna af tóbaki og áfengi, og verður ekki annað séð en þær tekjur muni standa undir greiðslunum. Stj. hefur gert ráð fyrir því, að þessar ráðstafanir væru teknar fyrir á þingi, en hún er ekki á þessu stigi málsins við því búin að koma fram með neinar till. og verður að láta í ljós undrun sína yfir þeim hraða, sem sumir flokkar krefjast, að hafður verði á um það, að sú eina ráðstöfun, sem gerð hefur verið gegn verðbólgunni, verði látin niður falla. Ef þetta frv. verður samþ., án þess að nýjar ráðstafanir verði gerðar eða nýjar heimildir veittar, þá skilur stj. það svo, að þ. vilji láta niður falla allar greiðslur til þess að lækka verðbólguna, og mun gera ráðstafanir samkvæmt því, undir eins og l. eru staðfest.