03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (3067)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. ( Skúli Guðmundsson) :

Hv. frsm. meiri hl. telur það ekki koma málinu við, þó að sett hafi verið n. til að reyna að komast að samkomulagi um niðurfærslu dýrtíðarinnar. Mér finnst það koma málinu við og finnst engin ástæða til að breyta dýrtíðarl. frá í vor, fyrr en séð er, hver verður árangurinn af störfum n. Mér finnst, að ríkisstj. ætti að hafa heimildina óbreytta, á meðan n. er að störfum. Þótt þetta sé ekki stærsta atriðið, veldur það því, eitt meðal annars, að ég get ekki fellt mig við frv.

Hv. þm. vildi gefa það í skyn, að meiri hl. fjhn. vildi samþ. að gefa ríkisstj. á ný heimild til að verja fé vegna dýrtíðarinnar. Þá fer ég nú að eiga örðugt með að skilja, hver sé vinningurinn við þetta allt saman. Ég get ekki skilið orð hans öðruvísi en svo, að hann - fyrir sitt leyti — vilji ekki fella niður heimildina, en vill þó, að frv. verði samþ., sem felur í sér, að heimildin falli niður. Hvað á það að þýða að taka af ríkisstj. þá heimild, sem hún hefur nú, ef þeir menn, sem að því standa, eru fúsir til að samþ. síðar, að heimildin haldist. Ég skil ekki þýðingu slíkra vinnubragða.