03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (3068)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði, að hv. fjhn. væri reiðubúin að bera fram heimildarendurnýjun, þá verð ég að taka undir það með hv. þm. V.-Húnv., að ég skil ekki þau vinnubrögð. Hv. n. hlýtur þá líka að vera þeirrar skoðunar, að ekki eigi að fella niður greiðslur til verðlækkunar á innlendum afurðum.

Ég vil ekki blanda mér inn í þessa deilu, en aðeins leiðrétta það, að stj. — eða ég fyrir hennar hönd - hafi lofað því, að þær tekjur, sem fengjust af hækkun tóbaks og áfengis, yrðu ekki notaðar nema með sérstöku leyfi Alþ. Hér er um missögn að ræða. Þegar frv. um hækkun tóbaksverðs var samþ., gaf ég yfirlýsingu um, að aðeins þær tekjur, sem af tóbakshækkuninni leiddi, skyldu ekki notaðar, nema meiri hl. þm. væri því fylgjandi. Ég skal ekki fara út í það, hvort meiri hl. þ. er því fylgjandi. En það voru aðeins þessar tekjur, sem rætt var um, því að ríkisstj. þurfti ekki heimild til að hækka vínið. Enda benti ég á þetta, þegar fyrst var farið að ræða málið. Það er því ekl~i rétt, að stj. hafi brotið loforð sitt, og ég vil lýsa yfir því nú, að meiri hl. tekna, sem hér ræðir um, er ekki af tóbakinu, heldur víninu.