03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) :

Mér fannst ræða flokksmanns þessa hv. þm. vera nógu greinileg, þó að hann færi ekki að bæta þar um. Hv. frsm. minni hl. fann ósamræmi í því, að ég gerði ráð fyrir því, að fjhn. væri reiðubúin til þess að flytja frv. fyrir ríkisstj. um heimild til þessara greiðslna. Þetta leggur svo hv. frsm. minni hl. út á þann veg, að ég háfi lýst yfir því, að fjhn. öll væri reiðubúin til þess að gefa slíka heimild. En þetta getur ekki staðizt. Hv. þm. veit vel, að fjhn. er yfirleitt reiðubúin til þess að flytja frv. fyrir stj. án tillits til afstöðu þm. En ég sagði, að ég gerði ráð fyrir, að meiri hl. fjhn. mundi svo vera fús til þess að leita slíkrar heimildar. En þetta hróflar ekkert við því, að meiri hl. n. er sammála um það, að það þurfi að fá heimild án tillits til afstöðunnar til þess, hvort þessari heimild skuli beitt eða ekki. En ég veit, að hv. þm. skilur, hver munur er á þessu. Hæstv. fjmrh. upplýsti hér, að meiri hl. af tekjuauka samkvæmt verðhækkun víns og tóbaks mundi stafa frá áfenginu. En ég veit ekki betur en þetta sé þveröfugt við það, sem gefið hefur verið í skyn áður. Þó má vel vera, að mig misminni um það, en það skiptir ekki máli, því að aðalatriðið er þetta, að meiri hl. þ. vill fá að taka afstöðu til málsins. Út af því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, vil ég aðeins benda á það, að í l. frá 14. apríl 1943 er engin skuldbinding um það að greiða niður verð á landbúnaðarafurðum. Það er veitt heimild handa stj. til þess, en undir venjulegum kringumstæðum notar stj. ekki slíka heimild, nema hún hafi á bak við sig meiri hl. Alþ. Og í öllu falli getur það alveg eins brugðið til beggja vona, hvort stj. vildi nota þessa heimild. Svo að í þessu felst engin skuldbinding um greiðslu úr ríkissj. í þessu skyni, og í ræðu hv. þm. vantaði grundvöllinn, það aðalatriði, að í l. felist skuldbinding um að borga niður verð á þessum vörum.