03.11.1943
Neðri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra manna, sem standa að þessu meirihl. áliti, þar sem lagt er til, að frv. verði samþ. eins og það kom frá efri deild. Ég vil taka það fram, sem fram kom hjá hv. frsm. n., að í meiri hl. kom aðeins fram það sjónarmið, að þannig sé frá 1. gengið, að stj. verði að sækja um heimild Alþ. í hvert skipti fyrir niðurgreiðslur á dýrtíðinni í sambandi við innlendar afurðir, og er það í samræmi við þá skoðun mikils hluta þm. í fyrra — í sambandi við dýrtíðarl.—, að með þeirri heimild væri stj. ekki gefin almenn heimild til þess, eftir að sex manna n. hefði lokið störfum. Ég vil hins vegar taka það fram, að það er ekki talað fyrir mína hönd, þegar hv. frsm. segir, að meiri hl. n. muni vera tilbúinn að flytja fyrir stj. frv. um heimild til þess að greiða niður dýrtíðina með sama hætti og nú hefur átt sér stað. Ég mundi ekki vera því fylgjandi, af því að ég tel það engar raunverulegar ráðstafanir gegn dýrtíðinni, heldur aðeins ráðstöfun til þess að lækka vísitöluna. Það hefur komið fram hjá hv. þm. V.-Sk., að þetta hafi verið skilyrði fyrir því samkomulagi, sem varð um þessi dýrtíðarl. á síðasta þingi. Þessu hefur verið svarað nokkuð rækilega og sýnt fram á, að það getur ekki staðizt, enda er þetta svo hlálegt, að í blaði Framsfl., „Tímanum“, var því beinlínis haldið fram s. l. sumar, að þarna væri um neytendastyrk að ræða, og bændur hafa verið að gera samþykktir — eftir pöntun frá miðstj. Framsfl. — um það, að þeir kærðu sig ekkert um þessa neytendastyrki. Þess vegna skýtur nokkuð skökku við að halda því fram nú, að það sé brot á samkomulagi, að þingið vilji taka það í sínar hendur, hvenær vörur skuli borgaðar niður.

Sannleikurinn er sá, að þetta er hvorki neytendastyrkur né bændastyrkur, eins og nú er komið. Eftir niðurstöðu sex manna n. er ákveðið verðlag á íslenzkum afurðum á innlendum markaði til septembermánaðar næsta ár, og það skiptir bændur engu máli, hvort þeir fá þetta beint frá neytendum eða ríkisstj. Þetta skiptir ekki heldur neytendur neinu, vegna þess að lækki vísitalan, þá lækkar kaupgjaldið að sama skapi, svo að hvorugur þessara aðila græðir á þessari niðurfærslu á vísitölunni. Það eru aftur stóratvinnurekendur, sem græða á þessu, þetta er í rauninni styrkur til þeirra. Það hefur verið reynt að nota þetta til æsinga gegn bæjarfólkinu, að segja, að þetta sé sérstaklega gert fyrir neytendur. Ég álít það mjög illa farið, að verið sé að skapa slíka úlfúð á milli þessara stétta, einmitt þegar þær hafa náð samkomulagi. Það er alveg jafnóréttmætt að kalla þessa niðurborgun bændastyrki eins og að kalla þau neytendastyrki, og það er blettur á þeim samtökum bænda, sem létu hafa sig til þess að gera samþykktir í þessa átt og þannig látið hafa sig að ginningarfífli. Með samkomulagi sex manna n. var raunverulega bundinn endir á það tímabil, þegar þingið ákvað, að verð á innlendum afurðum skyldi borgað niður, og það var beinlínis tilgangur l., að þessar niðurgreiðslur væru bráðabirgðaráðstöfun, og ég man greinilega eftir því, að hjá formælanda Framsfl. í þessari d., hv. 2. þm. S.-M., var því sérstaklega haldið fram í sambandi við umr. um dýrtíðarl., að það væri mjög hæpin ráðstöfun til frambúðar að borga niður dýrtíðina, og það sama kom fram hjá öðrum flokksmönnum hans. Þegar svo ríkisstj. heldur áfram að greiða niður dýrtíðina, eftir að sex manna n. hafði komizt að samkomulagi án þess að leita heimildar Alþ., þá var komin full ástæða til þess, að fram kæmi frv. eins og það, sem hér liggur fyrir.

Það er að vísu svo, að dýrtíðarl. má skilja á þann veg, að heimild stj. nái til þess tíma, þegar samkomulag sex manna n. tekur við, og það kom greinilega í ljós, að stj. leit þannig á málið, og það staðfestist með því, að hún sendi bréf til þingflokkanna til þess að spyrja þá um afstöðu þeirra til þess, ef hún héldi áfram þessum niðurborgunum á innlendum afurðum. Hefði stj. verið þeirrar skoðunar, að hún hefði fulla heimild til þess að greiða þessar uppbætur ótakmarkað, þá hefði hún aldrei sent þetta bréf. En svo þegar flokkarnir eru búnir að svara þessu bréfi og meiri hl. svarar þessu neitandi, þá gerir stj. sér hægt um hönd og segir: Við þurfum ekki á samþ. ykkar að halda, við höfum þessa heimild í 1., og með því var hún að gera sín eigin verk að fálmi, sem engin hugsun gat legið á bak við. Annars er það áberandi fyrir stj. hvað hún leggur mikið kapp á það, að færa niður vísitöluna en ekki dýrtíðina, og hún leggur mikið kapp á að færa niður verð á vörum, sem koma aðallega inn á vísitöluna, og það er sýnilega áhuginn fyrir velferð stóratvinnurekendanna, sem ræður sjónarmiðum stj., en ekki það, að lækka dýrtíðina. Ég fyrir mitt leyti álít að það eigi að selja innlendar afurðir við því verði, sem sex manna n. ákvað, og þá vitanlega átt að ákveða vísitöluna í samræmi við það verðlag, sem á þeim er raunverulega. Það er alveg rétt, að það er hátt verð, en það sýnir okkur, hvað landbúnaðurinn er ófullkominn, að það skuli þurfa að vera svona hátt verð á þessum nauðsynjavörum. Það sýnir okkur, að þar þarf að kippa einhverju í lag og gera stórfelldar umbætur á landbúnaðinum. Ég er sannfærður um það, að það muni minna hv. d. á, hvað landbúnaðurinn er kominn langt aftur úr og hvað hann er ófær um að fullnægja þeim kröfum, sem gera þarf til hans, til þess að skapa bændum sambærileg lífskjör miðað við aðrar stéttir þjóðfélagsins. Það mundi einmitt verða til að minna þjóðina á, hverju ábótavant er. Hitt er að stinga höfðinu í sandinn, til þess að þurfa ekki að viðurkenna þá staðreynd, hve verðið er hátt á landbúnaðarafurðum og þarf að vera það, til þess að framleiðslan beri sig. Það er ekki sæmandi þinginu og til stórtjóns fyrir þjóðina. Og þeir, sem vilja fela það, hvað landbúnaðarafurðirnar þurfa að kosta, það eru þeir, sem ekkert vilja gera til úrbóta. Hinir, sem vilja láta landbúnaðinn svara kröfum tímans og framleiða fyrir þolanlegt verð og samræma kjör bænda við kjör kaupstaðarbúa, þeir eru fúsir til að styðja miklar endurbætur og verja stórfé til þess að bæta framleiðsluskipulag hans.

Við höfum heyrt, að 15,5 milljónum hafi verið varið í verðuppbætur á landbúnaðarafurðir árið 1942. Það er náttúrlega eðlilegt, að menn undrist yfir þessu og margir horfi til þess með skelfingu, að þetta muni lama atvinnuvegina. Það er rétt. Við vitum, að sjávarútvegurinn er fjárhagslega þýðingarmeiri en landbúnaðurinn, þótt hvorugan atvinnuveginn sé hægt að missa. En þjóð, sem þarf að flytja mikið inn af iðnaðarvarningi og öðru, þarf mikinn gjaldeyri, sem fæst fyrir sjávarafurðirnar. En nú væri ekki svo afleitt að borga þessar áminnztu upphæðir, ef það yrði til þess í eitt skipti fyrir öll að breyta eða gerbreyta skipulagi landbúnaðarframleiðslunnar. En þessu fé er aðeins dreift skipulagslaust út um allar sveitir, og fyrir bragðið munu margir bændur freistast til að leggja í meiri framkvæmdir en þeir koma til með að geta staðið undir í framtíðinni. Þetta verður svo sem ekki til að færa saman byggðina eða til þess að skapa meiri hagsýni í vinnuaðferðum, heldur til þess að viðhalda þúsund ára gömlu skipulagi. Þetta er harmleikurinn, sem er að gerast. Enginn mundi sjá eftir þessu fé ef það hefði orðið til þess að brjóta blað í sögu landbúnaðarins, ef framleiðslan fengist fyrir þolanlegt verð, án þess að bændur þyrftu að skerða tekjur sínar. En eins og þetta hefur verið framkvæmt, verður það aðeins til að viðhalda dreifbýlinu og kotabúskapnum, sem gerir það aftur að verkum, að fólkið flýr úr sveitunum til sjávarins, þar sem það hyggur betri lífsskilyrði. Þetta er sú sorglega staðreynd, sem gerir menn kvíðna. Þetta er aðeins til að skapa óeðlilega bjartsýni hjá kotbóndanum í bili. Hann fer að haga sér í samræmi við þannig fengnar tekjur, og það hlýtur að enda illa. En þeir, sem verja milljónum á þennan hátt, reka þó e. t. v. óafvitandi endahnútinn á kotungsskapinn, þannig að þessar aðgerðir verði til þess, að bændur flosni upp af jörðum sínum, þó að það væri í alla staði óhagsýnna en færa byggðina saman á markvissan hátt.

Neyzluvörur landbúnaðarins eru með þessu móti óeðlilega háar. Það er t. d. gremjulegt, að smjör, flutt frá Suður-Ameríku með stríðsfarmgjöldum, skuli vera hér talsvert ódýrara en bændur þurfa að fá fyrir það, ef þeir eiga að geta lifað sæmilegu lífi af framleiðslu sinni. Þetta er ófært. Það er að vísu svo, að sjávarútvegurinn gefur ríkinu stórfé í aðra hönd og hægt er að ganga að því með samtökum tveggja stærstu þingflokkanna og dreifa því sem styrkjum milli kotbýlanna. En strax og tekjur ríkisins minnka, þá stöðvast þessar greiðslur, og þá eru dagar kotanna e. t. v. taldir.

Er ekki hyggilegra að hvetja menn til að færa sig saman, svo að þeir geti framleitt ódýrar, og verja fé í því skyni. Væru það ekki réttari aðferðir en bíða eftir því, að kreppan sjálf kæmi til skjalanna með sínum „brutölu“ aðferðum. Það er enginn vafi á því, að þetta væri rétta lausnin, og enginn bæjarmaður mundi vera á móti því.

Eitt er víst. Skipulagsbreyting í búnaðarháttum hlýtur að koma. Það er aðeins hægt að tefja hana, en ekki hindra.