10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (3077)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var hér síðast til umr., og þráðurinn er því farinn að slitna í þeim umr., sem þá áttu sér stað. Ég skal því ekki gera mikið að því að elta ólar við það, sem þá kom fram, en það var þó sérstaklega ýmislegt, sem kom fram hjá hv. þm. Siglf., sem ég hefði ástæðu til þess að gera aths. við.

Hv. þm. V.-Sk. hafði þó þegar svarað honum allýtarlega, áður en umr. var frestað á dögunum, en ég get þó ekki stillt mig um að minnast nokkuð á það, sem kom fram í ræðu hans.

Hann fór út í það að tala almennt um landbúnað og verðlag á landbúnaðarafurðum og sagði meðal annars, að það verðlag, sem nú þyrfti að vera á landbúnaðarafurðum, sýndi það, hvað landbúnaðurinn væri mikið á eftir tímanum samanborið við aðrar atvinnugreinar. En ég vil nú biðja menn að athuga, hvernig er ástatt um aðrar atvinnugreinar hér í landinu, því að þegar verið er að gera samanburð á verðlagi, er það eina, sem kemur til greina að bera saman, það er verðlag á ýmsum afurðum í landinu sjálfu. Það er það, sem verður fyrst og fremst að taka tillit til. Það hefur enga þýðingu að bera saman verð á landbúnaðarafurðum hér og í Suður-Ameríku eða t. d. kaupgjald hér og í Kína. Þetta skraf hv. þm. um verðlag á smjöri í S.-Ameríku er því alveg út í bláinn. Hitt, sem máli skiptir, er að bera saman, hvernig verð á landbúnaðarafurðum stenzt samanburð við verðlag annars varnings, sem er framleiddur hér. Ég ætla því að halda því fram, að ef verð á landbúnaðarafurðum væri borið saman við verð á t. d. iðnaðarframleiðslu í landinu, þá mundi verða nokkuð annað upp á teningnum en sú mynd, sem virðist svífa fyrir hugskotssjónum þeirra, sem tala um þetta mál af lítilli þekkingu og enn minni velvild. Ég hygg, að það mundi verða þröngt fyrir dyrum hjá fleirum en búandkörlum hér í landinu, ef ætti að fara að gera allsherjar samanburð við aðrar þjóðir, sem hafa miklu betri framleiðsluskilyrði. Þá ræddi hv. þm. Siglf. mikið um uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir og fór háðulegum orðum um bændastéttina í því sambandi. Hann sagði, að það væri sama og að þessu fé væri kastað í sjóinn að vera að ausa því í kotbændur hér í landinu, án þess að nokkuð sæist eftir af því, þar sem þeir hokruðu við vonlaust verk. Hv. þm. finnst hann líklega geta gilt úr flokki talað af hálfu þeirra, sem greiða þetta fé til kotbænda. En ég hygg, að það sé hollt fyrir hann og aðra þá, sem tala í svipuðum tón um þessar útflutningsuppbætur, að gera sér grein fyrir því, hver sé hinn raunverulegi grundvöllur þessara peninga, sem sumir landsmenn draga nú til sín í svo stórum stíl. Það er annars vegar gífurlega hátt verð á fiskafurðum og hins vegar það mikla fjármagn, sem setuliðið hefur flutt inn í landið. Þetta fjármagn hefur dregizt sérstaklega til sumra manna í landinu, án þess að þeir hafi gert nokkuð til þess fram yfir aðra, en þeir hafa af tilviljun setið við þessar auðsuppsprettur. Það er því hreinasta firra að halda því fram, að þeir, sem af tilviljun hafa komizt yfir mikil auðæfi, eigi að fá að halda í allt, sem þeir hafa getað klófest, en hinir, sem hafa ekki haft aðstöðu til þess að njóta þessara gæða, eigi alls ekkert að fá. Allt þetta tal um uppbætur og styrki er því alveg út í bláinn. Það er skylda Alþ. að sjá um það, að hlutfallið milli stéttanna raskist ekki og að allir njóti þess fjármagns, sem hér berst að. Það væri þjóðfélagslegt óréttlæti, ef sumir, sem af tilviljun hafa setið við seðlauppsprettuna, eiga að fá að sitja að því öllu saman, á meðan aðrir geta ekki séð sér sæmilega farborða á þessum veltiárum, þótt þeir vinni að þjóðnytjastörfum.

En engin af þessum sérstöku auðsuppsprettum á sér neina verulega framtíð, heldur eru þær og þessar uppbætur aðeins stundarfyrirbrigði, sem hefur skapazt vegna hins óvenjulega ástands, sem er orsök stríðsins. Svo er hv. þm. Siglf. að fjargviðrast yfir því, að það sé varhugavert að færa hluta af þessu fjármagni yfir til bændanna, því að það geti vakið hjá þeim óeðlilega bjartsýni. En hvað heldur hann þá um verkamenn? Getur ekki hið háa kaupgjald vakið óeðlilega bjartsýni hjá þeim? Ég get ekki séð, að það veki neitt hættulegri bjartsýni hjá bændum, þótt þeim séu í eitt eða tvö skipti tryggðar sambærilegar tekjur við aðrar stéttir þjóðfélagsins.

Þá var hv. þm. að tala um það, að það þyrfti að koma á breyttum framleiðsluháttum hjá landbúnaðinum. Þetta er nú ekki nein ný speki, enda hefur verið unnið að þessu undanfarið. Annars á þetta við allar atvinnugreinar í landinu og sumar enn þá fremur en landbúnaðinn. En er það ekki hlálegt, þegar þessi hv. þm. talar annars vegar um það, að það sé hættulegt að láta fjármagnið renna til bænda, en hins vegar talar hann um hina miklu þörf, sem bændur hafi á því að koma fyrir sig fótunum, að þeir þurfi að leggja í aukna ræktun og aðrar framkvæmdir. Heldur hv. þm., að þeim muni ganga það betur, ef þeir verða nú á stríðsárunum að vera tæplega hálfdrættingar á við aðrar stéttir þjóðfélagsins? Það er því sama, hvar er gripið í þennan lopa hjá hv. þm. Þar er allt jafnóheilt og ósamstætt og rekur sig hvað á annars horn. Ég skal svo ekki gera þennan útúrdúr lengri, þótt hann sé eðlileg afleiðing þess, hvernig hv. þm. Siglf. talaði. Ég skal því víkja að frv. sjálfu. Það fjallar um að nema úr l. þá heimild, sem ríkisstj. hefur nú, til þess að borga niður dýrtíðina. Ef þetta frv. verður samþ. og ekkert látið koma í staðinn, þá mun ríkisstj. hætta að borga niður dýrtíðina sama dag og þetta frv. verður að l., og afleiðingin af því verður sú, að dýrtíðin hlýtur að aukast verulega frá því, sem nú er. Nú er það spurningin, hvort það vakir fyrir öllum stuðningsmönnum frv., að það verði samþ. og ekkert látið koma í staðinn. Ég hef grun um það, að afstaða fylgismanna þessa frv. sé mismunandi, að því er þetta atriði snertir. Það mun vera vilji hv. þm. Siglf. og sósíalista yfirleitt, að frv. verði samþ. og ekkert látið koma í staðinn, þannig að vísitalan hækki og allt verði látið reka á reiðanum, unz það er komið í fullkomna upplausn og vandræði. Það er því eðlilegt, að sósíalistar vilji samþ. þetta frv., því að það er í samræmi við stefnu þeirra, enda er það flutt í Ed. af hv. 5. þm. Reykv. Það er engin furða, þótt þeir, sem vilja, að dýrtíðin vaxi, fylgi þessu frv. Ég skil afstöðu þeirra, en ég skil ekki, hvað vakir fyrir Alþfl. og Sjálfstfl. með því að fylgja þessu frv., vitandi það, að ef það verður samþ., þá verður hætt að borga niður dýrtíðina og hún látin vaxa skefjalaust. Ég er nú ekki viss um, að þeir vilji það, en ef svo er, að þeir vilji ekki sleppa dýrtíðinni lausri, hvernig dettur þeim þá í hug að láta fella þessa heimild niður? En ef þeir ætlast til þess, að eitthvað komi í staðinn fyrir þessa heimild, þá hefðu þeir ekki átt að beita sér fyrir því, að hún verði felld niður, heldur áttu þeir að beita sér fyrir því, að gerðar yrðu þær breyt. á dýrtíðarl., sem þeir telja nauðsynlegar. Ég skil ekkert í afstöðu þeirra hv. þm., sem vilja ekki láta hætta að borga niður dýrtíðina, en eru þó með þessu frv. óbreyttu. Þetta er eins og hver annar skollaleikur, að fella niður þessa heimild, en fara svo strax á eftir að reyna að koma einhverju í l., sem er svipað og það, sem þeir eru nýbúnir að fella niður. Ég get ekki séð, að það sé nein glóra í þessu. Hitt er ekki nema hlálegt, eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að þeir gefa í skyn, að þeir væru fúsir til þess að flytja till. um nýjar heimildir fyrir ríkisstj. Ef þeir vilja það, hvers vegna flytja þeir það þá ekki sem brtt. við þetta mál eða þá í sambandi við fjárl. og þá sem till. um það, hve miklu þeir vilja láta verja til þess að borga niður dýrtíðina? Það er óhjákvæmilegt fyrir þá annaðhvort að hætta við þetta frv. eða þá að sjá um það, að áður en það verður samþ., þá verði komnar fram till. um nýjar heimildir.

Það er sem sagt skiljanlegt frá sjónarmiði þeirra, sem vilja hætta að borga niður dýrtíðina, að samþ. þetta frv., en hjá þeim, sem vilja ekki láta hætta að borga niður dýrtíðina, en eru þó með þessu frv., er þetta hreinn skollaleikur.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. V.-Húnv., vill Framsfl. ekki samþ. að fella niður þessa heimild. Við viljum ekki eiga það á hættu að fara út á þá braut, á meðan ekkert er komið í staðinn, til þess að halda a. m. k. í horfinu. Við höfum hins vegar alltaf haldið því fram, að það væri neyðarúrræði að borga niður dýrtíðina með framlögum úr ríkissj., bæði vegna þess glundroða, sem kann að skapast, þegar því verður hætt aftur, og svo vegna þess, að hætt er við, að ekki verði hægt að afla nægilegs fjár til þess. Þótt við séum á þeirri skoðun, að það hafi verið gengið of langt í því að borga dýrtíðina niður, þá teljum við samt ekki heppilegt að fella nú niður þessa heimild, eins og á stendur, á meðan verið er að reyna að finna þá lausn, sem við megum treysta á í framtíðinni.