10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í C-deild Alþingistíðinda. (3079)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Háttv. þm. V.-Ísf. hefur talað nokkuð um þetta mál, og vildi ég víkja að ræðu hans með nokkrum orðum. Mér virtist koma fram í ræðu hans, að hann hefði gert ráð fyrir, að yrði samkomulag í vísitölun., þá mundi niðurborgun landbúnaðarafurða hverfa úr sögunni, vegna þess að verðið á innlendum afurðum mundi lækka.

Mér kom þetta aldrei til hugar, því að ég vissi, að verðlagið var ekki of hátt í samanburði við kaupgjald, enda kom það í ljós.

Hv. frsm. meiri hl., 3. þm. Reykv., lýsti yfir því, að meiri hl. fjhn. mundi fylgjandi áframhaldandi greiðslum til verðlækkunar innan lands. Það lítur út fyrir, að hann sé þessu fylgjandi, og hið sama kom fram hjá þm. A.-Húnv. Sé þetta svo, virðist mér, að þessir háttv. þm. hafi verið að villast, er þeir skrifuðu undir álít með sósíalistum, sem vilja ekki verja fé til þess að halda dýrtíðinni í skefjum. Hv. þm. A.-Húnv. segir, að engum muni hafa komið til hugar, að ríkisstj. mundi nota annað fé til niðurborgunar en það, sem aflaðist með ákvæðum dýrtíðarl. En í 4. gr. stendur: „Þó er stjórninni heimilt . . .“ o. s. frv. (JPálm: En önnur gr.?) Ég veit það. En þar er ekki sagt, að ekki megi verja meira fé en því, sem ríkisstj. fær samkv. þeirri grein. (JPálm: Það er einmitt sagt). Nei, það er alls ekki sagt.

Þá er það brtt. meiri hl., sem JPálm segir, að minni hl. muni kannske greiða atkvæði með, þótt við vildum ekki flytja hana með þeim. Ég lýsi því yfir, að ég verð ekki með till., og ég vildi biðja þm. að athuga hana vel, áður en þeir samþykkja hana, því að þar er ákvæði, sem er þvert ofan í ákvæði dýrtíðarl. En það er ákvæðið um, að 6 manna n. skuli starfa áfram og ákveða verðið ár hvert fyrir 15. ágúst. Þetta er alveg gagnstætt ákvæði 4. gr. dýrtíðarl., og ég skil ekkert í háttv. þm. A.-Húnv., að hann skuli verða til að flytja slíka till. Hins vegar get ég vel skilið, að hv. þm. Siglf. gerist flm. slíkrar till. Þegar þessi n. var skipuð, var lagt fyrir hana að skila áliti fyrir 15. ágúst 1943, og það gerði hún. Með því var starfi hennar lokið. Þá er hér einnig rætt um breyt. á þeim grundvelli, er n. byggði á. Tel ég, að samþ. þessarar till. geti orðið til þess að eyðileggja það samkomulag um þessi mál, sem náðist með starfi vísitölun. og vil ég því vara hv. þm. við því að samþ. tillöguna.