10.11.1943
Neðri deild: 43. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (3081)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller) :

Herra forseti. Ég hélt satt að segja, að ég hefði gert svo skýra grein fyrir þessu máli, að hverjum manni hefði átt að vera auðvelt að skilja afstöðu mína. En hér hefur staðið upp hver þm. á fætur öðrum til þess aðallega að lýsa yfir því, að þeir skildu bara hreint ekkert í því. En flutningur þessa máls kemur til af því, að sumir hv. þm. a. m. k. — og ég hygg meiri hluti hv. þm. — vefengja það, að í l. frá í vor um dýrtíðarráðstafanir felist ótvíræð heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða þessa upphæð, sem hér er um að ræða. Og jafnvel þó að ekki væri deilt um það, að þessi heimild væri fyrir hendi samkvæmt öðrum l., þá gæti enginn vafi leikið á því,. að ríkisstj. þyrfti að vita sig örugga um það að hafa meiri hluta þingsins að baki sér, hvenær sem hún notaði þessa heimild. Og það er ekkert annað, sem farið er fram á hér, en leggja það undir atkv. Alþ., hvernig þessa heimild skuli nota. Þetta ætti hver maður að geta skilið. Það liggur líka í hlutarins eðli, þó að maður taki þessa heimild eins og hún er orðuð, sem er þannig, með leyfi hæstv. forseta: „þó er ríkisstjórninni heimilt að ákveða lægra verð á einstökum vörutegundum gegn framlagi úr ríkissjóði“, — að hér er vitanlega átt við þingræðislega heimild, en ekki einræðislega heimild, heimild, sem ríkisstj. hefur leyfi til að nota samkvæmt vilja þingsins á hverjum tíma. En undir eins og vilja þingsins vantar til fyrir því, að ríkisstj. noti þessa heimild, þá vantar heimild samkvæmt þingræðisreglum. Og það er misskilningur núverandi hæstv. ríkisstj., sem liggur á bak við það að bíta sig svo fast í þetta orðalag laganna, án þess að taka til greina þær þingræðisreglur, sem hlýtur að verða krafizt, að bak við heimildina séu. Og þess vegna er það líka, að þegar hv. þm. V.-Sk. segir, að hér séu rofnir samningar, þá er það líka misskilningur. Það er auðvitað ekki gert. Því að jafnvel þó að litið væri svo á, að þessi heimild í 4. gr. laganna væri þáttur í samningum, sem gerðir hafa verið, þá verður að nota heimildina sem þingræðislega, sem þá ekki aðeins hæstv. ríkisstj. á að ákveða, hvort notuð sé, heldur líka hæstv. Alþ. Og mér finnst ákaflega undarlegt um þing, sem þykist standa á þingræðisgrundvelli, að nokkur rödd skuli koma yfirleitt fram um það, að ekki megi fara eftir venjulegum þingræðisreglum í þessu máli.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi, að við, sem viljum breyta l. og þó erum ekki yfirlýstir andstæðingar þess, að uppbætur séu greiddar á verð landbúnaðarafurða, hefðum heldur átt að lagfæra l., þannig að þessi heimild væri veitt í þeim ótvírætt. Já. Við viljum fyrst og fremst slá þessari reglu fastri, sem ég hef greint, og það eru alveg sérstakar ástæður til þess nú. Þegar það kemur fram, að hæstv. ríkisstj. vill ekki leita heimildar, sem mikill hluti þings gengur eftir, að leitað sé, þá er alveg sérstök ástæða til þess að slá föstu, hvað ber að gera. Og það er ekkert annað en grýla, sem hv. þm. eru að mála upp, þegar þeir eru að gera ráð fyrir, að til þess geti komið, að heimildin verði felld niður og hætt verði að greiða verð þessara vara niður, vegna þess að engin heimild sé til þess. Ég hef bent á það fyrir hönd meiri hl. fjhn., að n. mundi verða fús til þess milli umr., ef frv. yrði samþ. við þessa umr., að flytja fyrir ríkisstj. frv. um það, að henni skuli veitt þessi heimild. Og til þess getur unnizt nægur tími að fá þá heimild, ef ríkisstj. vill lúta svo lágt að leita hennar. Spurningin er ekki um neitt annað en þetta, sem ég hef tekið fram.

Ég hef áður gert svo skýra grein fyrir afstöðu meiri hl. n. í málinu, að ég tel óþarft að fara um hana fleiri orðum.

Viðvíkjandi brtt., sem hér hefur komið fram, þá skilst mér, að hún sé flutt vegna þess, að forsendur fyrir framkvæmd l. séu breyttar frá því, sem var, þegar l. voru sett. L. mæltu svo fyrir, að 6 manna n. skyldi finna vísitölu, sem hún hefur ekki fundið. Hún hefur ekki sett neina vísitölu upp. Þess vegna skilst mér, að það verði að taka málið upp á hverju ári, af því að þessi vísitala hefur ekki verið sett upp, sem þó var höfuðtilgangur þessara l., að fundin væri föst vísitala, sem gæti sagt til um, hvernig verðlagið ætti að breytast á þessum vörum á hverju ári.