15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs hér á dögunum, þegar þetta frv. var hér síðast til umr., og ég ætla ekki að verða langorður. Það eru aðeins örfá orð út af því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér síðast. Hann var að útskýra, hvernig á því stæði, að hann og hans flokksmenn væru með þessu frv., og sagði, að þeir vildu láta Alþ. slá því föstu, að ríkisstj. hefði ekki ótakmarkaða heimild til þess að borga niður dýrtíðina, og að þeir vildu slá því föstu, hve langt skyldi ganga í því að borga hana niður. Hann hélt því líka fram, að það mætti ganga frá því milli 2. og 3. umr. þessa máls, að hve miklu leyti ríkisstj. skyldi leyft að borga niður dýrtíðina. Ég held, að ekki sé hægt að fá öllu greinilegri skollaleik en þetta. Því er haldið fram, að þetta frv. fái ekki staðizt, nema það séu komin önnur ákvæði í staðinn fyrir það, áður en það verður samþ. Þessi ákvæði eiga að vera sama efnis og hin fyrri, en þau mega bara ekki vera þau sömu. En því flytja þessir hv. þm. ekki heldur frv. til l. um breyt. á dýrtíðarl., þess efnis að ákveða, hve mikið fé þeir vilja veita til þess að borga niður dýrtíðina? Hvers vegna vilja þeir endilega fella niður heimildina til þess að setja þegar inn í staðinn nýja heimild? Ég get ekki skilið, hvað slíkur skollaleikur á að þýða. Hitt er annað mál, að það er vel skiljanlegt frá sjónarmiði þm. sósíalista, hvers vegna þeir vilja samþ. þetta frv., — vegna þess að þeir vilja fella þessa heimild niður og láta ekkert koma í staðinn. Það er hrein afstaða, en hitt er alveg óskiljanlegt.

Ef þetta frv. verður samþ. og ekkert annað kemur í staðinn, þá hættir ríkisstj. þegar að borga niður dýrtíðina.

En mér kemur ekkert á óvart, þótt þetta frv. verði nú látið liggja þangað til að búið er að ganga frá einhverju öðru í staðinn.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta nú, heldur láta hér staðar numið að sinni.