15.11.1943
Neðri deild: 46. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í C-deild Alþingistíðinda. (3087)

42. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér síðast til umr., var verið að fetta fingur út í orðalag á brtt., sem við þrír fjhnm. flytjum á þskj. 344, og mig minnir, að það hafi verið hv. þm. Mýr., sem vildi halda því fram, að okkur bæri ekki alveg saman um það, hvernig skilja bæri till.

Það er alger misskilningur, en til þess að koma í veg fyrir, að mögulegt verði að efast um, hvað fyrir okkur vakir, þá hef ég nú orðað þessa brtt. um og vil leggja hana hér fram skriflega. Ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni. Ég geri þetta í samráði við meðflm. mína, og auk þess hef ég sýnt hv. þm. Mýr. þessa till., og hann hefur fallizt á, að hún sé skýr og augljós.

Í brtt. minni er það lagt til, að verði ágreiningur innan n. um útreikning á verðinu, þá skuli álit meiri hl. gilda. En það getur komið til mála, að n. verði ekki sammála um þetta atriði, enda þótt hún verði sammála að öðru leyti. Ég vil nú leyfa mér að bera þessa brtt. mína upp, svo að hv. þm. þurfi ekki að vera í neinum vafa um efni hennar. Hún er á þessa leið:

„Meðan verð landbúnaðarafurða er ákveðið samkv. fyrirmælum laga þessara, skal nefndin starfa áfram og reikna út breytingar á verðinu fyrir 15. ágúst ár hvert samkvæmt því, sem kaupgjald er í landinu og rekstrarkostnaður landbúnaðarins að öðru leyti hefur breytzt á liðnu ári. Ef ágreiningur verður um þennan útreikning, gildir álit meiri hlutans.

Verði nefndin á einu máli um breytingar á þeim grundvelli, sem nú gildir, vegna nýrra upplýsinga, þá skal taka tillit til þess næst, þegar verðið er ákveðið“.

Þarna er líka breytt einu orði, þ. e. ég hef sett grundvelli í stað „grunnverði“. Ef mönnum þykir það eitthvað skýrara, þá er einfalt að samþykkja till. þannig.

Varðandi það atriði, sem kom fram hjá hv. 2. þm. S.-M., um að hér væri verið að leika einhvern skrípaleik, þá fer því fjarri.

Eins og ég og ýmsir aðrir hv. þm. hafa haldið fram, þá var aldrei til þess ætlazt, að samkv. þeirri heimild, sem nú á að fella niður, yrði varið meira fé til dýrtíðarráðstafana en því, sem innheimtist samkvæmt þeim sköttum, sem í lögunum felast. Ef þessi heimild er látin gilda áfram með það fyrir augum að fella inn í þetta meira fé, þá er það mjög óeðlilegt. Ég vil svo afhenda hæstv. forseta þessa skriflegu brtt. mína með tilmælum um það, að hann leiti afbrigða fyrir henni.