28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í C-deild Alþingistíðinda. (3128)

123. mál, náttúrurannsóknir

Brynjólfur Bjarnason:

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál mikið hér við 1. umr., og ég mun greiða atkv. með því að vísa frv. til 2. umr. og n., en þó aðeins í trausti þess, að n. breyti því í það horf, sem er hæstv. deild sæmandi. Þessi l. hafa alltaf verið fáránleg, en þó er þessi till. fáránlegust af öllu.

Í þessum l. er upphaflega gert ráð fyrir, að meðlimir ráðsins verði hvorki fleiri né færri en þrír, svo að þjóðstjórnarflokkarnir þrír hefðu þar hver sinn fulltrúa, en nú eiga þeir að vera fjórir, svo að Alþfl. fái sinn fulltrúa í ráðið. Sósfl. hefur alltaf verið á móti slíkri skipan í rannsóknaráð ríkisins, enda mun það eins dæmi í öllum heimi, að slík stofnun sem þessi sé skipuð pólitískt. Enda hafa störf ráðsins verið í samræmi við skipan þess. Sumir beztu vísindamenn okkar hafa algerlega neitað að starfa undir handarjaðri þess og beinlínis sett það skilyrði, að það kæmi þar ekki nærri. Sósfl. hefur ákveðið að setja fulltrúa í ráðið eingöngu í þeim tilgangi að vita, hvort ekki væri hægt að hafa einhver áhrif á störf þess og starfsemi. Og ef það tekst ekki, býst ég fastlega við, að hann dragi fulltrúa sinn til baka.

Vísindastarfsemi er stutt á veg komin hjá okkur Íslendingum og skipulag þessara mála mjög í riðlun enn þá, og það skal játað, að það er ekki nærri vandalaust að skipuleggja þessi mál og koma þeim á fastan grundvöll. Það væri því eðlilegast að vísa þessu frv. frá með rökstuddri dagskrá í trausti þess, að ríkisstj. léti fara fram athugun á því, hvernig þessum málum yrði bezt fyrir komið, en ég mun þó ekki bera fram tillögur í þá átt að svo stöddu.