28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (3129)

123. mál, náttúrurannsóknir

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér mikið í þessar deilur, en ætla aðeins að segja frá viðskiptum mínum við ráðið árið 1939. Ég fékk þá tilboð um að útvega og senda út 1000 sýnishorn af jarðefnum, eftir að ég hafði sent nokkur sýnishorn áður. Er ég sneri mér til ráðsins til þess að fá leyfi til þessa, fékk ég það svar, að ríkisstj. hefði veitt þrem mönnum sérleyfi í allt að hálfa öld á öllu Suðurlandsundirlendi í þessu skyni. Ég sneri mér þá til ráðherra, og kvað hann ekki hægt að sinna þessu tilboði nema með samþykki viðkomandi aðila og bauðst til að vera þar milligöngumaður. Það varð ekki öllu meira úr framkvæmdum í þessu máli, en ég vil í þessu sambandi beina þeirri spurningu til fyrrv. ráðherra, með hvaða rökum hann seldi þennan rétt ákveðnum mönnum í hendur og hver var vilji rannsóknaráðsins til þessa máls. Ég vil svo upplýsa, að hér var um mikið fé að ræða, 1000 kr. tonnið eða alls 200 þús. kr.