28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (3135)

123. mál, náttúrurannsóknir

Hermann Jónasson:

Hv. þm. Barð. sýndi mér þá miskunn að segja ekki frá því, hvaða menn það voru, sem var veitt þetta sérleyfi. Þetta fór svo mikið fram hjá mér, að ég held, að hvað sem ég ætti til að vinna að geta vitnað í málinu, mundi ég ekki muna nema eitt nafn. Leyfið, sem um er að ræða, er nú fallið niður, af því að það borgaði sig ekki að vinna það. Og ég verð að segja það, að ég hef ekki búizt við, að þau hneyksli, sem kunna að hafa orðið í starfi mínu, séu látin liggja í þagnargildi. En því miður er land okkar svo fátækt af jarðefnum, að þótt leyfið hafi fengizt til þess að vinna námur, hefur reynslan sýnt, að þessar námur eru ekki til, að það borgar sig ekki að leita þessara efna nema með svo miklu fjárafli, að það leggur enginn í það. Það borgar sig ekki að vinna brennisteininn, vegna þess að brennisteinsnámur, sem til eru annars staðar, eru svo ríkar, en með þeim skáldlegu tilhneigingum, sem eru þessum þm. í blóðið bornar, er hann vel á vegi staddur með að gera þetta mjög dramatískt.

Ég skal ekki deila við hv. 5. þm. Reykv., en ég vil spyrja hann, hvort líklegra sé, að n. vinni betur starf sitt, ef í henni eru þrír menn af pólitískum flokkum, en þó að þeir verði fjórir og Emil Jónsson fimmti maður? Er líklegt, að það breyti störfunum til hins verra, að Emil Jónsson verði þar áfram, og að ástæða sé til fyrir þennan ágæta vísindamann, sem er Björn Sigurðsson, að neita að fara í ráðið þess vegna? Það verður að skeika að sköpuðu með þetta. Björn hefur sagt mér, að hann vilji ekki vinna undir stjórn rannsóknastofu háskólans, en öðru máli gegnir, ef hann á að vinna undir stjórn rannsóknaráðsins. (BrB: Þveröfugt hefur hann sagt mér). Það er einkennilegt, því að ég veit ekki til að rannsóknaráð hafi það vald, að það geti staðið í vegi fyrir starfi nokkurs vísindamanns. Rannsóknastofa atvinnuveganna gæti það, en rannsóknaráð ekki.