28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 647 í C-deild Alþingistíðinda. (3144)

123. mál, náttúrurannsóknir

Kristinn Andrésson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls við þessa umr., en ég vil þó nú segja nokkur orð.

Ég held, að hv. þm. þurfi ekki að tala af of miklum fjálgleik um stofnun og starfsemi þessa ráðs. Það er eitt af hreiðrunum frá tímum þjóðstjórnarinnar, þar sem spillingin hefur búið um sig. Þess vegna fagna ég því, að þetta mál skuli vera komið á dagskrá, en ég tel, að nauðsynlegra hefði verið að kjósa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka störf ráðsins en að auka við það.

Ég ætla annars ekki að ræða þetta mál almennt nú við þessa umr., en ég mun gera það við 2. umr., en það var eitt atriði í ræðu hv. þm. Str., sem ég vildi gera aths. við. Hann sagði það um Björn Sigurðsson lækni, að hann hefði ekki viljað starfa undir rannsóknastofu háskólans, en að hann hefði viljað starfa undir stjórn rannsóknaráðsins. Þessum hv. þm. ætti að vera það kunnugt, að Björn vildi ekki veita tilraunastofu í sjúkdómafræði forstöðu, nema því aðeins, að hún starfaði algerlega sjálfstætt. Á fundi, sem haldinn var fyrir um mánuði til þess að ræða um þessa stofnun, hélt Björn því fram, að það þyrfti að breyta l. um rannsóknaráð ríkisins. Hann var meira að segja það vel búinn undir þennan fund, að hann lagði þar fram uppkast að frv. til l. um tilraunastofu í sjúkdómafræði, sem hann gerði sér vonir um, að landbn. mundi taka við til flutnings, og í 3. gr. frv. þessa, sem samið var af honum, segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Atvmrh. hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar. Ráðh. ræður forstöðumann og annað starfsfólk í samráði við hann“. — Í stuttu máli sagt, að Björn Sigurðsson hefur áður farið fram á það, að þessum l. yrði breytt og það yrðu samin sérstök l. um tilraunastofu í sjúkdómafræði undir yfirstjórn atvmrh. Það er sem sagt, að Björn óskaði eftir því að vera hvorki háður rannsóknaráði né rannsóknastofu háskólans, heldur fá að starfa algerlega sjálfstætt.