28.10.1943
Efri deild: 41. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í C-deild Alþingistíðinda. (3146)

123. mál, náttúrurannsóknir

Haraldur Guðmundsson:

Ég á bágt með að skilja þennan hv. þm. Hann hefur fellt stórkostlegan áfellisdóm yfir ráðinu, en þó hefur flokkur hans skipað fulltrúa í ráðið — og að því er hann segir, til þess að reyna að ná þar samkomulagi um breytingar á starfsemi ráðsins eða til þess að leggja það niður. Þ. e. a. s., hann viðurkennir þar með, að það sé ekki búið að komast að niðurstöðu um það enn þá, hvort leggja eigi ráðið niður eða breyta því, að málið sé enn þá á rannsóknarstigi. Þeir hafa þannig sett manninn inn til þess að kynna sér störf ráðsins. (BrB: Þess þurfti ekki). Þá er óskiljanlegt, hvers vegna þeir bera ekki strax fram till. um að leggja ráðið niður, fyrst búið er að rannsaka störf þess. Annars hélt ég, að það hefði átt að rannsaka störf ráðsins innan þess, en ekki utan, og það var ekki hægt, fyrr en maðurinn var kominn inn í ráðið. En eftir að búið er að setja manninn inn í ráðið, geta þeir ekki dregið hann til baka. En það er auðséð, að þessi hv. þm. hefur enga skoðun um ráðið, þar sem hann segir, að maðurinn hafi verið settur inn í ráðið til þess að athuga hvort leggja ætti það niður eða breyta því, og þó þurfi ekki að rannsaka störf þess. Ég get ekki séð, að það sé tímabært að leggja ráðið niður, — en hverju á þá að breyta? Ég get ekki séð, að ráðið verði neitt meira pólitískt, þótt Alþfl. fái þar einnig fulltrúa, svo að fulltrúarnir verði fjórir í stað þriggja. Það er kunnugt, að maður Alþfl. er mjög vel starfhæfur, og störf ráðsins verða áreiðanlega eins vel eða betur unnin, ef hann er í ráðinu, en ef hann er þar ekki.