01.11.1943
Efri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í C-deild Alþingistíðinda. (3153)

134. mál, miðlunarsjóður húsaleigu

Flm. (Haraldur Guðmundsson) :

Þetta frv. er fram komið í því skyni að reyna að bæta úr einum þætti þeirra vandræða, sem öngþveitið í húsnæðismálum bæjarins hefur skapað. Það er alkunnugt, að mikill skortur hefur verið á húsnæði nú um ára bil. Á því er ekki nema ein varanleg lausn til, þ. e. aukin bygging íbúðarhúsa og skömmtun húsnæðis. Og samfara þessu verður fólk, sem býr í nýjum húsum, að sætta sig við að borga gífurlega háa húsaleigu. Þetta er afar erfitt viðfangsefni, því að því verður ekki neitað, að húseigendur þurfa að leigja dýrt, því að húsbyggingar eru gífurlega dýrar. En vér þurfum ekki annað en líta á auglýsingar í blöðum til þess að sjá, að hér er komið út í öfgar og menn eru farnir að nota sér húsnæðisvandræðin.

Í þessu frv. er lagt til, að stofnaður verði miðlunarsjóður húsaleigu og að úr honum sé greiddur sá hluti af húsaleigu í húsum byggðum eftir 1. jan. 1940, sem er umfram það, er greitt var fyrir sambærilegt húsnæði á þeim tíma. Í sjóð þennan renni þær auknu tekjur bæjarsjóðs Reykjavíkur og ríkissjóðs, sem leiðir af þeirri hækkun fasteignamats í Rvík, er gekk í gildi 1. jan. 1943. Það er erfitt að segja um útgjöld sjóðsins, en ætlazt er til, að ríkissjóður borgi, ef útgjöld verða umfram tekjur.

Sá mismunur, sem verið hefur á aðstöðu þeirra, sem búa í nýjum húsum og gömlum, verður að hverfa, og er ætlazt til, að þetta frv. bæti úr því að verulegu leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta að sinni, en óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og allshn.