10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í C-deild Alþingistíðinda. (3161)

151. mál, skólasetur og tilraunastöð á Reykhólum

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Saga þessa máls er í stuttu máli sú, að á síðasta þingi bar ég fram frv. til l. um að reisa skóla á Reykhólum, sbr. þskj. 90. Þetta frv. lá lengi hjá landbn., og afgreiddi hún það með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi forseta:

„Í trausti þess, að fram verði látin fara hið bráðasta ýtarlegur undirbúningur að lagasetningu um framtíðar menningarstarfsemi á Reykhólum og á þann hátt fáist öruggur grundvöllur undir þá starfsemi, þá leiðir deildin hjá sér frekari afgreiðslu málsins og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.

Nokkru síðar fluttu menn úr landbn. þáltill. í Sþ. um það, að Alþ. skyldi skipa fimm manna n. til þess að rannsaka þessi mál og gera till. um, hvernig ráðstafa skuli Reykhólum í framtíðinni sem skólasetri og sem tilraunastöð. Þetta var samþ. einróma í Sþ. og n. síðan skipuð eins og ákveðið var af þinginu. Henni var sett að skilyrði að skila störfum fyrir 1. okt., og byggðist það eingöngu á því, að unnt væri að koma málinu inn á þetta þing svo snemma, að það gæti orðið afgreitt á þinginu. N. skilaði áliti sínu 19. september til ráðuneytisins. Ráðuneytið mun hafa haldið þessu máli hjá sér sem næst mánuð og síðan sent það til landbn. Nd. og óskað eftir, að n. færi með málið eins og henni þætti bezt við eiga hér á Alþingi.

Ég átti tal um þetta mál við form. landbn. Nd., sem er jafnframt formaður Búnaðarfélags Íslands, Bjarna Ásgeirsson, en Búnaðarfélagið var á sínum tíma fylgjandi þessu máli. Bjarni tjáði mér, að hann væri málinu samþykkur, en hann óskaði eftir, að landbn. Ed. tæki málið að sér, vegna þess að landbn. Nd. hefði svo mikið að gera, að það væri ekki öruggt, að hún kæmi málinu frá. Nú hefur hv. landbn. Ed. haft þetta mál til athugunar í fjórar til sex vikur og hefur nú sagt, að hún vilji ekki flytja frv. í því formi, sem það er í nú, og hefur mér skilizt á formanni n., að það væri nauðsynlegt að senda a. m. k. nokkurn hluta frv. til mþn. í skólamálum. En því er til að svara, að þetta er ekki skólamál, heldur landbúnaðarmál. Það hefur gengið gegnum búnaðarþing og verið til athugunar í Búnaðarfélaginu, og ef landbn. hefði í byrjun haft þá skoðun, að þetta ætti að fara til mþn. í skólamálum, var tilgangslaust að skipa n. eins og gert var á sínum tíma. Mér finnst alveg óhæfileg afgreiðsla hjá landbn., þegar málið er flutt fram eins og á síðasta þingi og búið er að leggja í kostnað og fyrirhöfn við þennan undirbúning og n. hefur verið sammála, þá sé málið tafið með því að láta það liggja aðgerðarlaust vikum saman, svo að það geti ekki fengið afgreiðslu. Vonast ég til, að þetta sé ekki gert vegna andúðar á málinu, en tel, að ekki sé sá skilningur á því, sem þyrfti að vera, til þess að það fen.°i þá afgreiðslu, sem æskileg er.

Form. landbn. hefur minnzt á það, að komið gæti til mála að afgreiða málið með því að kljúfa það og annar þáttur þess sé um tilraunastöðina, en hinn um skólann. Þetta get ég ekki fallizt á og legg mjög mikla áherzlu á, að það verði ekki gert, þar sem ég tel, að það mundi tefja framkvæmd skólamálsins, ef farið yrði að hluta það í sundur.

Ástæðurnar til þess, að ég legg áherzlu á að þetta mál nái þegar fram að ganga á þinginu, eru þessar:

Tilraunaráð mun hafa nægilegt fé til að hefja framkvæmdir á Reykhólum, strax og l. ná fram að ganga, og mun ætla sér að gera það og aðeins bíða eftir, að l. verði samþ. hér á þingi.

2. Það er ákaflega nauðsynlegt að vinda að því bráðan bug að skipuleggja byggingar á staðnum, svo að ekki þurfi að rífa niður það, sem byggt er upp. Það hefur þegar verið byggt íbúðarhús af öðrum ábúanda jarðarinnar, og það er því miður sett á stað, þar sem það veldur truflun. Það er nauðsynlegt að byggja yfir hinn ábúandann, ef hann á að vera þar, því að húsnæði það, sem hann hefur, er ekki boðlegt mönnum.

3. Það er beðið eftir því, að þetta mál skipist, til þess að koma upp sundlaug, sem er aðkallandi, vegna þess að ekki er hægt að uppfylla skyldur samkvæmt íþróttal., fyrr en sú sundlaug er komin upp. Það var ætlunin, að hún yrði byggð í haust, en þessu var frestað í því fulla trausti, að Alþ. gengi frá málinu eins og til var ætlazt og n. leggur til.

Svo er enn eitt atriði, sem er knýjandi í þessu máli, og það er að ákveða vegarstæðið frá Reykhólum og út á Reykjanes. Það hefur verið ákveðið á allt öðrum stað en ætlazt er til að það komi, ef till. n. verða samþ.

Landbn. hefur haft málið í langan tíma, og það ætti ekki að taka nema örstutta stund að ganga svoleiðis frá því, að það geti komið til 2. umr.

Í sambandi við, að það hefur komið til tals að senda málið til mþn. í fræðslumálum, skal ég geta þess, að ég talaði við fræðslumálastjóra í dag, og hann fullyrti, að hann legði ekki á það neina áherzlu, því að það mætti laga agnúana, en það yrði að hraða málinu svo sem unnt væri, enda var það hugmynd þingsins í fyrra, að þessu skyldi hraðað.

Ég vænti, að það sé til athugunar, hvort d. sér sér ekki fært að vísa málinu til 2. umr., án þess að það fari til n., en ef það fæst ekki, þá, að n. taki liðlega á málinu og hraði því.