10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 653 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

151. mál, skólasetur og tilraunastöð á Reykhólum

Páll Hermannsson. Hv. flm. hefur rakið hér sögu málsins. Það, sem hann sagði um meðferð málsins á síðasta þ., var alveg rétt og einnig það, að þetta mál á eiginlega sérstaka kröfu á hendur landbn. þessarar d. um fyrirgreiðslu, því að sú n. lagði drög að því, að málið yrði athugað í mþn., og það starf hefur verið unnið.

Hv. flm. gat þess, að málið hefði verið til athugunar í landbn. í fjórar til sex vikur, og það lætur kannske nærri, að svo sé. Bréfið til n. með málinu er dags. 13. okt., svo að það nálgast, að fjórar vikur séu síðan. Þar sendir ráðuneytið landbn. þetta frv. með skýringum. Landbn. tók það til athugunar í því augnamiði einu að gera sér grein fyrir, hvort hún ætti að flytja frv. hér eða ekki, en komst að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að flytja frv. ekki, einkum með tilliti til þess, að hér er á ferðinni nýtt skólafyrirkomulag, og þar sem nú er starfandi mþn. í skólamálum, fannst n. gætilegra, að það væri athugað þar. Þetta var aðalástæðan til þess, að landbn. taldi rétt að draga málið enn, og með þessum drætti vakir ekki fyrir n. að tefja málið eða spilla því á nokkurn hátt, heldur aðeins að vanda til þess sem bezt má verða. Auk þess get ég sagt, að þetta frv. — og einkum skólakaflinn — er ekki eins vandlega samið og n. hafði vonað. Eins og menn sjá, er frv. í tveimur aðalköflum, sem sé um tilraunastarfsemi, sem þegar styðst við l. og aðeins er um að ræða að velja stað fyrir á Vesturlandi, og ég efast ekki um, að Reykhólar séu vel til þess fallnir, en hins vegar skólakaflinn. Í honum eru atriði, sem þurfa athugunar við. Þar er um að ræða tvær til þrjár nýjar teg. skóla, sem margir gera sér vonir um, að verði gagnlegir. Það er gert ráð fyrir því í frv., að ríkið kosti þessa starfsemi alla. Ég hef ekkert um það að segja á þessu stigi, en vil samt benda á, að að vísu kostar ríkið bændaskólana alveg, en aftur á móti eru húsmæðraskólarnir kostaðir af héruðunum, ýmist ½ stofnkostnaðar eða ¼, en alltaf að töluverðu leyti. En í þessu frv. er ekki gengið frá yfirstjórn þessara skólamála eins og annarra ríkisstofnana, heldur skipar 5 manna n. yfirstjórnina, og ríkisvaldið hefur þá einu íhlutun, að það skipar einn manninn. Það má vera, að þetta mætti vel standast, en það þarf nákvæmrar athugunar við. Ríkisstofnanir heyra a. m. k. undir einhvern ráðh.

Annað atriði mætti nefna. Skólinn á að starfa í tveim deildum aðskildum, vera eins konar bændaskóli og húsmæðraskóli. En báðar þessar deildir virðast mér hljóta að lúta einni yfirstjórn í skólanum. Nokkuð þarf að velta því fyrir sér, áður en slegið er föstu, að engir erfiðleikar séu við, að einn maður stjórni þessum tveimur aðskildu deildum. Það má vera, að karlmaður geti haft á hendi yfirstjórn kvennaskála, en hitt er síður, að kona geri það. Hins vegar geri ég ekki ráð fyrir, að kona mundi ráðast í að stjórna jafnumfangsmiklum vinnuskóla fyrir karlmenn. Ég drep aðeins á þetta til umhugsunar á fyrsta stigi málsins.

Hv. flm. fór að vísu ekki fram á það beinlínis, að málið gengi áfram án þess að fara í n., en hann lét skína í, að sér mundi vera það kært, að mér skilst, til þess að flýta málinu. En gætilegra mun að vísa því til n., og býst ég þá við, að það komi til landbn. Ég skal lofa, að því leyti, sem það kemur mér við, að ekkert skal verða gert að óþörfu til að tefja málið, en n. hlýtur að leita upplýsinga og ráðlegginga hjá fræðslumálastjóra, Búnaðarfélagi Íslands og máske hjá ráðuneytinu, sem hefur sent n. málið. Ég mun verða því fylgjandi, að málinu verði vísað til n.