10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í C-deild Alþingistíðinda. (3164)

151. mál, skólasetur og tilraunastöð á Reykhólum

Flm. (Gísli Jónsson):

Ég vil þakka hv. formanni landbn. yfirlýsingu hans að svo miklu leyti sem ég felli mig við hana. Ég skil ekki nauðsynina á því að vísa málinu til þeirra aðila, sem hann nefndi. Ég hef rætt við formann Búnaðarfélags Íslands, sem hefur lýst yfir því, að engin ástæða sé til að vísa málinu þangað, þar sé búið að ræða málið og sé enginn ágreiningur um það. Um fræðslumálastjóra vil ég benda á það, að Aðalsteinn Eiríksson, sem var sérstaklega valinn til að gæta hagsmuna þessa máls, hafði samband við fræðslumálastjóra um það, og hann fylgdist með því. Hitt er annað mál, hvort n. telur nauðsynlegt að senda frv. til mþn. í fræðslumálum, en ég veit, að það er þyngra á vogarskálunum hjá öllum mönnum, sem vilja málinu vel, að framkvæmdir geti hafizt á næsta ári. Það þarf að byggja það upp smám saman. Ég vænti þess því, að landbn. fari ekki nú að senda frv. til þessara aðila, en hitt er ekki nema eðlilegt, að hún sjálf fái málið til frekari athugunar. Aðeins bjóst ég hálft í hvoru við, að landbn. hefði þegar kynnt sér málið svo vel, að hún sæi sér fært að mæla með því að það færi til 2. umr. án þess að fara í n.

Form. n. minntist á fáein atriði í skólakafla frv. Það er eðlilegt, að hann vilji ræða það mál, þar sem frv. fer inn á nýjar brautir. T. d. það, hvort vera skuli einn eða tveir skólastjórar, er atriði, sem leysist af sjálfu sér, þegar skólinn fer að starfa. Yfirleitt mun reynslan þvinga fram fyrirkomulagsbreyt. á frv., þegar farið verður að starfa eftir því, og það alveg jafnt, hvort sem málið er nú sent til umsagnar fræðslumálastjóra og Búnaðarfélags Íslands eða ekki. Hér er um framtíðarmál að ræða, sem vex áfram stig af stigi. Það getur orðið langt, þangað til þessar skóladeildir taka til starfa.

Rætt hefur verið við landbrn. og Búnaðarfélag Íslands um, að skólinn yrði algerlega kostaður af ríkinu, enda er hann hugsaður í því formi, að það væri ekki eðlilegt, að héraðið þarna bæri neinn kostnað af þessum skóla. Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um þetta, en vil ítreka það að biðja landbn. að meta þetta tvennt, sem mælir með og meti, að frv. verði samþ. nú þegar. Ég vil svo að endingu bæta því við, að það er mjög nauðsynlegt, eins og form. landbn. er kunnugt, að frv. nái fram að ganga nú, til þess að unnt sé að segja ábúendum jarðarinnar nægilega snemma upp, svo að hún verði laus árið 1945. Verði ábúendum hins vegar ekki sagt upp fyrir fardag 1944, verður jörðin ekki laus til starfrækslu fyrr en árið 1946, og um það eru allir sammála, að það sé ekki hyggilegt að láta þetta mál bíða svo lengi.