02.12.1943
Efri deild: 59. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í C-deild Alþingistíðinda. (3178)

173. mál, skipulag Reykjavíkurbæjar

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Ég hef nú hugsað mér að senda þetta frv. til umsagnar skipulagsn. ríkisins eða að allshn. sendi það til hennar, og getur hún þá látið uppi álit sitt um það og komið að þessari skýrslu, sem hv. þm. S.-Þ. talaði um. Ég hef ekkert á móti því að láta prenta hana. En ef hún hefur ekki sézt í blöðum, þá hefur ekki þótt ómaksins vert að prenta hana. En nú liggja fyrir uppdrættir frá öðrum en skipulagsn. ríkisins um fyrirkomulag bæjarins. En ekki hefur verið ráðizt í að gera heildaruppdrátt af bænum. En ef rætt er um uppdráttinn frá 1927, þá er hann náttúrlega miðaður við miklu minni bæ en Reykjavík er nú, og hann mundi því vera úreltur nú. Hann var með þeim hætti á sínum tíma, að hann öðlaðist ekki staðfestingu, af því að mönnum líkaði hann ekki. En bæði hjá þeim, sem gerðu þann uppdrátt, og einnig þeim, sem gert hafa uppdrátt síðar af bænum, hafa verið þeir sömu gallar, að ekki hefur verið gerður uppdráttur af bænum í heild, heldur aðeins smáhlutum í senn. En það er búið að gera svo mikið í þessu, og það liggja svo mikil frumgögn í þessu efni fyrir, að það verður verulegur hagur að því fyrir bæjaryfirvöldin og væntanlega skipulagsn. Reykjavíkur til leiðbeiningar um það, hvernig þessu skuli koma fyrir. En það er kannske umdeilanlegt, hvorir hafa réttara fyrir sér, sem um þetta hafa fjallað, og sýnist sitt hvorum. Ég veit, að ekki eru allir á einu máli um þetta í bæjarstjórn. Þó hygg ég, að því verði ekki neitað, að það er miklu meiri stórhugur og sýnist liggja djúptækari undirbúningur bak við till. þær, sem frá sérfræðingum bæjarins hafa komið, en í till. skipulagsn. ríkisins varðandi skipulag Reykjavíkurbæjar. — Ég tek þetta fram aðeins af því, að hv. þm. S.-Þ. fór óvirðulegum orðum um starfsmenn bæjarins, sem að þessu hafa unnið. (JJ: Ég benti á Norðurmýrina). Gallinn á þeim er þá kannske sá, að þeir eru of stórhuga, þannig að kostnaður við að koma till. þeirra fram sé svo mikill, að seint verði hægt að gera þær ráðstafanir, og þess vegna sé rétt, eins og skipulagsn. vill, að bæta úr göllunum nokkuð, en láta skipulag bæjarins verða kúðalegra, en þá um leið ódýrara í framkvæmd.