11.12.1943
Efri deild: 64. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í C-deild Alþingistíðinda. (3188)

176. mál, sparifjáreigendur

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af mér og hv. 1. þm. Reykv., og er tilgangurinn með því, að gerðar verði ráðstafanir til þess að bæta þeim sparifjáreigendum, sem safnað hafa fé og lagt það á vöxtu í þeim tilgangi að eiga þar framfærslueyri á elliárunum, að nokkru tjón það, sem þeir hafa beðið af verðrýrnun þeirri á peningum, sem stafar af vaxandi dýrtíð.

Eins og hv. þm. munu sjá á 3. gr. frv., þá eru þessar bætur bundnar þeim skilyrðum, að sparifjáreigendur séu 50 ára eða eldri, ef um konur er að ræða, en 60 ára eða eldri karlar, og einnig, að spariféð hafi verið talið réttilega fram til skatts undanfarin ár.

Þá er gert ráð fyrir, að þeir, sem svo er ástatt um, að þeir hafa orðið fyrir vaxtarýrnun vegna vaxtalækkunar bankanna, skuli fá greidda verðlagsuppbót miðað við 4% vaxtatekjur eftir skattaframtali 1940 að frádregnum vöxtum af skuldum. Þetta frv. er aðeins miðað við árin 1941–1943 og bindur ríkissjóði því engar framtíðarbyrðar á herðar.

Okkur flm. er það ljóst, að Alþ. hlýtur að renna blint í sjóinn með það, hve stór baggi þetta muni verða fyrir ríkissjóð, þar sem engar nákvæmar skýrslur liggja fyrir um þetta. En þeir, sem hafa haft með undirbúning þessa máls að gera, hafa gizkað á, að þetta mundi nema 450–600 þús. kr. Þetta er aðeins ágizkun, sem gerð er til þess að gefa nokkra hugmynd um, hve miklu þetta muni nema.

Sparifjáreigendur hafa undanfarið beðið tvöfalt tjón. Það er ekki einungis, að verðgildi peninganna hafi rýrnað, heldur hafa vextir einnig lækkað stórkostlega. Það verður því að játa, að öll sanngirni mælir með þessum uppbótum, enda er til hliðstætt dæmi, þar sem uppbætur eru greiddar úr ríkissjóði á lífeyrissjóðsgjald og eftirlaun og styrktarfé.

Ég vil svo að lokum leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn. að lokinni þessari umr.