25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sveinbjörn Högnason:

Það virðist ætla að verða nokkuð drjúgt hv. þm. að ræða um þetta svo kallaða mjólkurmál, því að það er á dagskrá jafnvel í mörgum myndum hér í þessari hv. d. og hver spekingurinn þykist hér öðrum meiri.

Ekki er að efa það, að hv. flm. þessarar þáltill., sem nú var að mæla fyrir henni, um rannsókn á þessu fyrirtæki bændanna, — ekki er að efa það, að hann mun þykjast flytja þessa þáltill. af einhverri sérstakri fyrirhyggju fyrir bændum og þeim, sem þessi mál hafa með höndum. Og í niðurlagi ræðu sinnar sagði hv. flm., að þetta væri gert til þess að finna grundvöll fyrir betra samkomulagi í þessum málum.

Nú er mér ekki kunnugt um annað en á síðasta sumri hafi verið fundinn sá grundvöllur milli þeirra aðila, sem þessi mál hafa með höndum, er fullt samkomulag hafi orðið um, og flokkur þessa hv. þm. hamraði stöðugt á, að væri það eina samkomulag, sem ætti að vera í þessu máli, að framleiðendur sjálfir tækju þau í sínar hendur. Á meðan ósamkomulagið var milli framleiðendanna, var stöðugt deilt á þá af flokki og flokksblaði þessa hv. þm. fyrir það, — sem þeir töldu — að ófremdarástand væri í þessum málum, af því að bændur hefðu ekki getað komið sér saman um málið. Og nú, þegar samkomulag hefur náðst í þessum málum, þá virðist það ekki síður vera háskalegt í þeirra augum en þegar ósamkomulagið var um þetta vandamál þessarar stéttar landsins. En því furðar mig á, að fulltrúi sveitakjördæmis skuli bera fram slíka till., sem hér er á ferð, því að frá mínu sjónarmiði séð, — eins og ég skal nánar koma að síðar, — er tvennt, sem í henni felst. Það er fyrir það fyrsta sérstaklega mikill barnaskapur, eins og spurningarnar eru fram settar, flestar hverjar, og þessi rannsóknarefni tilfærð í till., og í öðru lagi er með till. undir niðri reynt að vekja tortryggni á þessu fyrirtæki bændanna, mjólkurskipulaginu og mjólkursamsölunni, sem ég hygg, að af öllum, sem til þekkja, sé álitið, að sé bezt rekna fyrirtækið, sem bændur reka. Og þær upplýsingar, að dreifingarkostnaðurinn hjá þessu fyrirtæki sé minni á mjólkinni, sem vandfarnara er með en mjög margar aðrar vörur, a. m. k. en nokkra aðra neyzluvöru í landinu, hef ég fyrr gefið við umr. um mjólkurmálið í annarri mynd þess hér nýlega. Þess vegna virðist mér það vera mjög einkennilegt, að það eigi að taka eitthvert stjórnarskrárákvæði, 34. gr. stjskr., til þess að framkvæma einhverja sérstaka rannsókn af hálfu hæstv. Alþ., þar sem vitað er, að fjölmörg önnur mál, og að kalla má öll önnur mál, sem snerta neyzluvörur hér í bænum, eru í lakara ásigkomulagi en mjólkursamsalan, eins og ég skal sýna. Ég fyrir mitt leyti get nú ekki séð, ef maður tæki þessar spurningar hverja út af fyrir sig, hvaða sérstaka hæfileika hv. alþm. ættu sérstaklega að hafa til þess að framkvæma slíkar rannsóknir, sem hér er talað um í till., fram yfir þær, sem fagmennirnir hafa gert og liggja öllum, sem vilja sjá þær, opnar til athugunar. Ef nokkurt vit ætti að vera í þessari till., ætti hv. flm. að snúa henni á þann veg, að Alþ. skyldi skyldað til að kynna sér gögn þau, sem fyrir liggja í öllum þessum atriðum, sem hann spyr um, frekar en hv. alþm. hafa gert enn, en koma ekki fram með slíka dæmalausa fáfræði eins og hér lýsir sér í þessari þáltill. í jafnstóru máli og hér er um að ræða, og það frá fulltrúa sveitakjördæmis, sem á að gæta hagsmuna þess. Það er meira en leyfilegt er af hendi eins þm. að hafa ekki kynnt sér gögn þau, sem gefin hafa verið út um næstum því hvert einasta málsatriði, sem þessi hv. þm. spyr um.

Þessi hv. þm. spyr um, að hverju leyti séu réttmætar umkvartanir Reykvíkinga og Hafnfirðinga um gallaða og lélega mjólk. Ég hygg nú, að það sé ekki til nema ein leið til þess að rannsaka það um þá mjólk, sem fólkið er búið að drekka, en það er að lesa þær skýrslur, sem fyrir liggja, bæði hjá heilbrigðiseftirlitinu og þeim mönnum, sem þetta eftirlit hafa með höndum.

Þá leggur hv. þm. til, að þessi n. rannsaki orsakir þess skorts á mjólk og mjólkurafurðum, svo sem smjöri, skyri og rjóma, sem oft hafi gert vart við sig. Er þetta virkilega maður, sem er fulltrúi fjölda bænda, sem óskar rannsóknar á því, hvers vegna sé á þessum tímum skortur á framleiðslu bænda, nú í því versta ári sennilega, sem komið hefur yfir þetta land, hvað snertir landbúnaðarframleiðslu, og í þeim erfiðu kringumstæðum, sem bændur hafa átt við að búa um vinnuafl? Og árferðið í haust hefur einnig verið þannig, að hv. þm. ætti að vera kunnugt um þá erfiðleika, sem framleiðendur úti um land hafa nú átt við að stríða, þó að það séu ekki allir neytendur hér í Reykjavík, sem gera sér fyllilega ljóst, af hverju skortur á þessum vörum stafar. Ef skortur er á þeim, sem er þó ótrúlega lítill, þá er það fyrst og fremst af því, að framleiðslan hefur haft erfiða aðstöðu til þess að framleiða meira en gert hefur verið. Þetta mundi hvert einasta skólabarn sjá í hendi sér, svo að segja hvar á landinu sem væri. Og það liggur við, að það sé móðgun við hæstv. Alþ., að það skuli þar koma fram ósk um rannsókn á því, hvernig á þessu standi, og það frá hv. þm. úr sveitakjördæmi.

Ég veit ekki, hvernig þeir ætla að grafa eftir því nema fá um það upplýsingar frá búunum sjálfum um, hver salan er.

Þá vill hann láta rannsaka, hversu mikil sé vinnslan og hve mikil neyzlan. Hann þarf ekki annað en lesa reikninga búanna, sem eru opinberar skýrslur og ég hélt, að bæjarfulltrúar mundu lesa, þá sér hann upp á kíló, hvað þetta er mikið. Hann þarf hér ekkert að rannsaka,. nema ef hann hefur vanrækt að lesa opinber plögg, og þá ætti hann að bæta úr þessari vanrækslu sinni í stað þess að fara fram á, að skipuð verði rannsóknarnefnd á bændastéttina.

Þá vill hann láta rannsaka dreifingar- og vinnslukostnað. Þetta liggur allt fyrir í reikningunum, og þar getur hann fengið um þetta fullkomnar upplýsingar. Ég sé ekki, hvernig hv. þm. hugsar sér að fá þetta betur upplýst en hægt er að fá það af reikningunum, sem liggja fyrir um þetta atriði. Nei, það liggur í augum uppi, að það er annað hér á bak við, en það er að gera þetta fyrirtæki tortryggilegt og gefa í skyn, að það sé ekki rekið á heilbrigðan hátt, og þess vegna þurfi að rannsaka það. En ef Alþingi ætlar að taka upp þessa aðferð að gera viss fyrirtæki tortryggileg og fyrirskipa rannsókn á þau, hvenær sem vera skal, þá sé ég ekki, hvar verður stöðvað.

Ég vil í þessu sambandi minnast á það, að einn hv. þm. lét þau orð falla, þegar rætt var um frv. um breyt. á mjólkurl., að ég hefði valdið því, að talsvert af fólki hefði flæmzt frá þessu fyrirtæki. Ég vil segja það, að ef verið er með stöðugar árásir á fyrirtækið, eins og þessi hv. þm. virðist ætla að stofna til og nú er áframhald á með því að ætla að hefja rannsókn á það eftir þessari till., þá er það víst, að undir þeim starfsskilyrðum, sem skapast við slíkar árásir, verður þessu fólki ekki vært, svo að mikið af því hlýtur að flæmast burt frá fyrirtækinu.

Ég ætla, að það sé augljóst mál, ef halda á uppi slíkum árásum á eitt fyrirtæki, að þá sé hægur nærri að taka önnur fyrirtæki fyrir af öðrum þm., og ég sé ekki neinn möguleika fyrir þau að starfa undir slíkum skilyrðum, ef áframhald verður á slíku. Þess vegna verð ég að segja það, að sé þetta af góðu gert hjá þessum hv. þm. og hann vilji skapa frið og samkomulag milli neytenda og framleiðenda í þessu efni, þá er það ekki gert með því að vekja sem mesta tortryggni á allar hliðar, eins og gert er með þessari till., þar sem á að reyna að hafa stöðuga sakamálsrannsókn yfir fólkinu, sem að þessu vinnur og á að vinna.

Ég sé ekki heldur, að nv. þm., sem ætti að skipa í slíka n., hafi nein minnstu skilyrði til að framkvæma rannsókn, sem kæmi að nokkru gagni í þessu efni, því að vitanlega yrðu þeir að styðjast við skýrslur fagmanna, sem að þessu starfa, og sannleikurinn er sá, að það hefur skort fagmenn í mjólkuriðnaði, af því að það er svo ný grein. En ef það er svo, að þessir hv. alþm., sem vilja hefja slíka rannsókn, gera það í góðum hug, þá vil ég orða þessa till. á þann veg, að þessir menn a. m. k. skjóti geiri sínum þangað, sem þörfin er meiri, og ekki sé aðeins tekin fyrir sú varan, sem er undir langmestu og nákvæmustu eftirliti af öllum nauðsynjavörum í bænum, bezt skipulögð og minnstur dreifingarkostnaður á af öllum nauðsynjavörum í bænum. Ég vil benda hv. þm. á, að það væri kannske ekki ástæðulaust að athuga fisksöluna hér í bæ, því að eftir því, sem ég hef komizt næst, er dreifingarkostnaðurinn þar 80–83% á móti 6% af mjólkurvörunum, og eftir því sem heilbrigðisskýrslur segja, eru fiskbúðirnar í mjög hörmulegu ástandi, dreifingin mjög óhreinleg, og varan einatt herfilega skemmd, svo að ég tali nú ekki um skortinn á þessari vöru, því að það er yfirleitt svo, a. m. k. er það svo þar, sem ég fæ mat um þingtímann, að það er mjög erfitt að ná í nýjan fisk í þessum fiskbæ, Reykjavík, og efar þó enginn, að nógur fiskur sé á miðunum handa Reykvíkingum. Hvað verður þá af öllum þeim fiski, sem veiðist? Svipað og af setuliðsmjólkinni. Hann er seldur til útlendinga. Neytendur þykjast oft góðir, ef þeir fá góðan og óskemmdan fisk einu sinni í viku. Mér virðist, að þessi bæjarfulltrúi hefði átt að hafa augun opin fyrir þessu, fyrst hann er svo ákafur í rannsókn á vörum bænda. Hvers vegna spyr hann ekki um, af hverju það stafi, að nú er mikill skortur á annarri nauðsynjavöru, sem bændur framleiða, kartöflum? Það er ekki spurt um það, af því að það veit hvert mannsbarn, að í haust varð stórkostlegur uppskerubrestur vegna hins slæma árferðis víðs vegar um land. Það er eins með mjólkina. Enginn, sem hefur augun opin, þarf að spyrja, hvernig þeim málum sé háttað. Það er því vitað mál, að þeir, sem bera fram slíka till. sem þessa, eru að gera fyrirtæki og félagssamtök bænda tortryggileg.

Ég hef séð það í heilbrigðisskýrslum frá 1940, að þar segir landlæknir, að leyft hafi verið að koma upp veitingum á 37 nýjum stöðum, og voru þessi leyfi veitt einkum vegna þess, að nefndin vildi ekki standa í vegi fyrir, að sem flestir gætu hagnazt af setuliðinu, og því ekki verið gerðar strangar kröfur til þessara veitingastaða. Eru þessar Bretasjoppur svo nauðsynlegar, að stofna eigi heilsu bæjarbúa og annarra í hættu, til þess að einhver geti grætt á setuliðinu? Er þetta leyft af sömu mönnum og þeim, sem vilja láta rannsaka sérstaklega, að ekki sé óhreinlega farið með mjólkurvörur, þar sem nú er haft mjög strangt eftirlit með búðunum? Ein greindasta og bezta húsmóðir hér í bæ, skrifaði fyrir nokkrum dögum í blað, að hún viðurkenndi, að fjölmargar af mjólkurbúðunum væru til fyrirmyndar um hreinlæti miðað við annað heilbrigðisástand í bænum. Hefur þessi hv. þm. veitt þessu athygli? Ég hygg, að svo að segja á hvaða sviði, sem gripið er, þá sé eftirlitið mun minna, óhreinlæti mun meira og dreifingarkostnaður mun meiri en á þessu sviði, sem alltaf er verið að ráðast á af fullkomnum illvilja. Þess vegna flyt ég brtt. við þessa till. á þá leið, að þetta skuli vera athugað almennt um nauðsynjavörur, ef þm. hafa trú á því, að þeir með nokkurra daga rannsókn geti gert nokkuð gagn í heilbrigðismálum og til lagfæringar á meðferð á nauðsynjavörum bæjarbúa og að þeir hafi sérstaka þekkingu til slíks. Ég segi fyrir mig, að ég hef ekki minnstu trú á því, og ég mun greiða atkv. móti till., eins þó að þessi brtt. mín verði samþ. Ég ber hana fram til að prófa hv. flm. og fleiri, til að prófa, hvort á bak við þessa till. liggur áhugi á velferð bæjarbúa og framleiðenda eða hvort það er hitt, sem mig óneitanlega grunar, að hér sé á ferðinni ný ofsókn á þetta fyrirtæki. Brtt. mín er eingöngu sett fram til að prófa þetta, því að ég játa fullkomlega, að ég hef ekki minnstu trú á, að fimm þm. geti á nokkrum dögum grafið upp og komizt fyrir rætur þeirra meinsemda, sem eru á dreifingu á ýmsum vörum. Ef menn hafa áhuga á að gera hér breyt. til batnaðar og vilja skipa n., sem gæti komið á umbótum fyrir framleiðendur og neytendur, ætti að skipa n, sérfróðra manna, sem hefðu sérstaka aðstöðu til að bæta úr í þessu eini fyrir bæjarbúa frá því herfilega ástandi, sem óneitanlega er um að heita má allar vörur að undantekinni mjólkinni, eins og ein húsmóðir bæjarins hefur látið um mælt í blaði nú fyrir fáum dögum og sýnir ljóslega, hvernig ástandið er.

Hv. flm. var að tala um, að það ætti að rannsaka deilurnar. Já, það mætti sjálfsagt lengi elta ólarnar við að rannsaka allar deilur, sem sprottið hafa vegna þessa máls og enn þá virðast vera í fullum gangi og ekkert lát á. Ég hygg, að allir menn séu hæfari til að dæma um deilur í þessu efni en þm., hver fyrir sinn flokk. Ætli þessar deilur eigi ekki að miklu leyti rætur sínar að rekja til sumra af þessum hv. þm.? Og ef ætti að láta þá rannsaka sínar eigin deilur, þá yrði það vitanlega aðeins til að halda þeim við og vekja nýjar upp. Mér virðist það.

Þá segir hann, að kvartanir hafi komið um lélega vöru. Það er rétt. En hvað hefur það komið fyrir á mörgum sviðum? Þar, sem ég var að borða rétt áðan, var einn maður að neyta öls úr ölflösku. Upp úr henni kom stór ryðgaður nagli. Hvað hefði verið sagt, ef hann hefði nú komið upp úr mjólkurflösku? Hvað hefði verið lengi talað um það í blöðunum? Mér er sem ég heyri tóninn í þeim blöðum, sem sífellt hafa verið að vekja deilur út af mjólkinni. Það hefði verið talað um það í nokkurn tíma, að hér væri verið að gera morðtilraun á bæjarbúum. Mér er sem ég heyri tóninn, ef slíkt sem þetta hefði komið fyrir í mjólkurstöðinni. Vitanlega geta komið fyrir einstök óhöpp, þótt ströngustu varfærni og nákvæmni sé gætt, en ef þjóta ætti til og heimta rannsókn í hvert skipti, sem slíkt kæmi einhvers staðar fyrir, þá veit ég ekki, hvar það endaði.

Hv. flm. var að tala um, að í skýrslu stjórnar samsölunnar væri ekki sagður nema hálfur sannleikur, þar sem sagt væri, að sérstakur gerlafræðingur hefði eftirlit með stöðinni. Síðan sagði hann, að þessi gerlafræðingur lýsti yfir, að hann hefði vald til að endursenda og láta ekki dreifa rjóma og skyri, en gagnvart mjólkinni hefði hann ekki nema umsagnarrétt. Mér sýnist þetta vera allstrangt eftirlit. Ég hygg, að það sé hvergi á landinu og óvíða í heiminum annað eins eftirlit af hálfu framleiðenda og er á mjólkurstöðinni í Reykjavík, og til viðbótar við það hefur setuliðið eftirlit með stöðinni tvisvar á dag og hefur miklu nákvæmari tæki en stöðin sjálf hefur getað fengið, eins og hann getur sannfært sig um, ef hann spyr um það. Það liggur fyrir yfirlýsing frá þeim um það, að þeim þyki mjólkin góð. Yfirmaður segir: Ef við teldum, að mjólkin væri skemmd eða gölluð, dytti okkur ekki í hug að kaupa einn dropa. — Það var notað til árása í sumar, að mjólkin væri svo vond og gölluð, að setuliðið neitaði að kaupa hana, en nú í haust, þegar Reykjavík fær 23 þúsund lítra á dag, sem er óvanalega mikil neyzla á þessum tíma, þá er allt í uppnámi yfir því, að setuliðið skuli kaupa mjólk. Þannig eru þessar aðfinnslur langflestar. Hitt er vitanlegt, að óhöpp geta komið fyrir í framleiðslu og meðferð mjólkurinnar eins og með alla vöru, hversu mikið sem reynt er að vanda sig. En það er ekki hálfur, heldur fullur sannleikur, að engin mjólkurstöð, sem ég þekki til, hefur fullkomnara eftirlit en stöðin hér, og ég skora á hv. flm. að koma með einhverja stöð, sem hann þekkir, sem sterkara eftirlit er með en stöðinni í Reykjavík. Hitt er annað mál, að það þarf að byggja nýja stöð, því að þessi er orðin allt of lítil, og ég fullyrði, að það, hversu vel hefur tekizt þar að halda uppi vöruvöndun, er því að þakka, hversu framúrskarandi áhugasamt og duglegt starfsfólkið er, sem þar vinnur.

Þá bar hv. flm. fram ásakanir og sagði, að rannsókn þyrfti að fara fram á hendur stjórn samsölunnar fyrir það, að svo lengi hefði dregizt að koma upp þeirri nýju stöð, sem nú væri verið að undirbúa. Það er ekki verið að undirbúa hana. Byggingin er hér um bil komin upp. Það er verið að setja þakið á hana þessa dagana. Því verður lokið um næstu mánaðamót, og þá er eftir að fá vélarnar. Ég hygg, án þess að ég vilji þar áfella neinn, að ef þessi hv. þm. kynnti sér, hvernig á því standi, að stórbygging, sem kostar margar milljónir króna, hefur ekki komið örar upp, þá mundi hann komast að nokkru furðulegu. Hann mundi komast að því, að ef einhvern bæri að ásaka, þá væri það Reykjavíkurbær fyrir það, hve lengi hefur staðið á að fá lóð. Það getur vel verið, að full ástæða hafi verið fyrir því, hvað bæjaryfirvöldin voru lengi að ákveða stað fyrir þessa byggingu, og ég er ekki að ásaka þau í því efni, en ég segi bara það, að næstum því sama daginn og lóðin var fengin var ákveðið að hefjast handa um bygginguna, og stórvirkasta og fljótasta byggingarfélagið í bænum, Almenna byggingarfélagið, var fengið til að koma byggingunni upp, enda hefur verkið gengið mjög vel, síðan lóðin var fengin og ákveðin. Það var búið að fá aðra lóð, áður en stríðið skall á, en byggingarnefnd bannaði að nota hana. Sú lóð var hjá Fiskifélagshúsinu. Síðan stóð lengi í stímabraki með, hvar ætti að fá aðra lóð. Ég hygg, að þetta sé ekki sérstaklega áfellisvert fyrir bæjarstjórnina, því að það hefur ávallt tekið langan tíma að ákveða, hvar stórhýsi skuli reist, og ég er síður en svo að ásaka hana, en ef nokkuð hefur tafið, að stöðin kæmist upp, þá er það fyrst og fremst þetta.

Þá talaði hv. flm. um, að æskilegt væri að fá oftar skýrslu frá stjórn samsölunnar, svipaða þeirri, sem hún hefði nýlega látið frá sér fara. Vitanlega hefði stjórn samsölunnar sízt á móti því að gefa slíkar upplýsingar, eftir því sem unnt er, en ég skal játa, að það hefur oft reynzt mjög erfitt að fá slíkar skýringar birtar, þó að komið væri með þær, vegna þess að þetta hefur alltaf verið mjög pólitískt mál og þetta fyrirtæki verið mjög ofsótt bæði fyrr og síðar. Ef dagblöðin fást til að taka slíkar opinberar skýrslur, þá skal ég sjá um, að ekki standi á forstjóra samsölunnar og stjórn hennar að gefa þær skýrslur, en það hefur jafnan verið erfitt að koma þeim á framfæri vegna þess moldviðris af blekkingum, sem daglega hefur verið þyrlað upp út af þessu máli.

Hv. þm. var að tala um, að okkur í stjórn samsölunnar bæri ekki vel heim við þá yfirlýsingu, sem hæstv. atvmrh. gaf hér í d. um, að stjórn setuliðsins hefði lýst yfir, að hún vildi ekki kaupa nema afgangsmjólk, en hins vegar hefði stjórn samsölunnar lýst yfir, að þeir, sem hafa samið við búið, hafi fullkomlega látið þau orð falla, sem gefið hefðu tilefni til ótta, ef mjólkursala til þeirra yrði stöðvuð um tíma. Ég býst við, að það sé rétt hjá hæstv. ráðh., að slík yfirlýsing hafi komið frá stjórn setuliðsins, en menn, sem hafa annazt eftirlit og innkaup mjólkurinnar, hafa látið þau orð falla, sem yfirlýsing stjórnar samsölunnar ber með sér.

Ég skal upplýsa það út af þeirri fyrirspurn, sem ég hef borið fram, hvort tryggt sé, að setuliðið muni auka mjólkurkaup sín á ný, þegar mjólkin eykst, að það hefur komið bréf frá stjórn setuliðsins, þar sem hún lofar að taka upp mjólkurkaup að nýju, þó að við séum til neyddir að minnka mjólkursölu til þeirra nú, og eftir það var öll mjólk tekin af setuliðinu nema það, sem það hafði allra brýnasta þörf fyrir, en það mun ekki nema meira en einum bílfarmi á dag. En þetta þorðum við ekki að gera, fyrr en það lá skriflegt fyrir, að setuliðið mundi taka upp mjólkurkaup að nýju, þegar framleiðslan yxi. Það má hver áfellast okkur fyrir það, sem vill, en ég hygg, að hver einasti maður hefði gert það sama í okkar sporum.

Hv. flm. var að tala um, að það virtist óþarflega mikið, sem hver fengi, þar sem einn hefði lýst yfir, að hann smakkaði mjólk daglega, og það var sá, sem hafði aðaleftirlitið með mjólkinni af hendi setuliðsins. Ég veit ekki, hvernig hann ætti að geta framkvæmt slíkt eftirlit, ef hann smakkaði ekki á mjólkinni daglega. Mér virðist, að hann verði að gera það, og það er langt seilzt til raka, þegar slíkt sem þetta er gert að mikilli ástæðu fyrir rannsókn í þessu máli. Það verð ég að segja, að það sýnir bezt, hver tilgangur till. er, að það þurfti að dulbúa rök, til þess að það kæmi ekki í ljós, hvað það er, sem hv. þm. Snæf. meinar með till.

Eftir því, sem ég þekki til, þá held ég, að bændum sé ekki verr við neitt en það, sem kemur fram í þessari till., — að það þurfi sérstaka n. til að rannsaka framleiðslu þeirra og þeir séu þannig settir á bekk með sakamönnum, sem Alþ. þurfi að hirta og taka til athugunar vegna framkomu þeirra gagnvart neytendum.

Ég veit ekki betur en að mjólkursamsalan sé fyrirtæki, sem rekið er af bændum sjálfum. Þeir hafa í stjórn hennar fulltrúa af öllu verðjöfnunarsvæðinu. — Hún er þess vegna í höndum þeirra, eins og l. mæla fyrir, enda eiga þeir sjálfir mest í húfi.

Þá sagði hv. flm., að við, — mér skildist hann eiga við stjórn samsölunnar, — kenndum neytendum um allt, sem aflaga færi. Ég man ekki til, að við höfum gert það, en hitt er annað mál, að ég er sannfærður um, að eitthvað er þeim að kenna, t. d. þegar komið er með óhrein ílát til að láta mjólkina í. Hver hugsar sér að geta haft góða mjólk í óhreinum ílátum? Þetta hefur átt sér stað.

Hitt er annað mál, og það ætti hv. þm. að vita, að langmestir erfiðleikarnir við að dreifa mjólkinni eru af óviðráðanlegum orsökum, — heimsstyrjöldinni. T. d. er ómögulegt að fá lok á flöskurnar, sem hægt er að gera sér að góðu og þess vegna ekki hægt að dreifa mjólkinni á flöskum eins og áður. Enn fremur er það af styrjaldarorsökum, að dregizt hefur að fá nýjar vélar til mjólkurhreinsunar frá öðrum löndum, því að allar okkar vélar eru frá löndum hér í álfu. Þetta eru ástæður, sem hver greindur og góðgjarn maður getur séð. Ég hygg, að ekki þurfi neina rannsóknarn. til þess að sjá þessa erfiðleika og það, sem af þeim stafar.

Ég þarf ekki meira að segja. Ég hef lagt fram þessa brtt. til að prófa einlægni hv. þm. Snæf. Ég hef reynt að orða till. þannig, að hún geti verið fyrir þá, sem langar til að bæta og þykjast vera að berjast fyrir hag neytenda í Rvík, með því að láta hana ná til þessara tveggja mála. En annars er ég henni mótfallinn, því að ég veit, að hún er gagnslaus eins og hin, nema til þess að vekja tortryggni og andúð.