25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (3232)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sigfús Sigurhjartarson:

Ég skal ekki mæla lengi. Það er búið að ræða þetta mál svo oft á þ., — a. m. k. tólf sinnum í þessari hv. d., og þótt margt hafi verið sagt, sem ástæða væri til að bera til baka, þá hygg ég það mundi varla borga sig að eyða tíma til þess. Út af brtt. hv. þm. Snæf. þá virðist mér hún eiga rétt á sér. Það er full ástæða til að athuga hana. Hitt er annað mál, að hún getur ekki komið í staðinn fyrir þá till., sem ég er 1. flm. að. Ég hygg, að það, sem þar er lagt til, megi framkvæma án frekari rannsóknar. Ég geri ráð fyrir, að þessi þál. fari til sömu n. og frv. og þar verði komizt að niðurstöðu um það, hvað er þegar upplýst og hvað þurfi rannsóknar með og hvað sé hægt að gera. Vænti ég þess, að n. komizt að þeirri niðurstöðu, að samþykkt frv. sé bezta leiðin. Ég segi fyrir mig og minn meðflm., að við munum fylgja till. hv. þm., en ekki þannig, að hún komi í staðinn fyrir frv., en heldur sem viðbót við það.