25.10.1943
Neðri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

100. mál, skipun mjólkurmála

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Ég sé enga ástæðu til að fara út í langar umr. við hv. þm. V.-Sk. Það, sem hann sagði, var aðallega sprottið af misskilningi hans á till. og tilgangi hennar. Hann sagði, að spurningarnar í till. væru fádæma barnalegar. Samt hefur hann lagt fram brtt. með sömu spurningunum um enn fleiri mál. Hann talar um till. mína sem ofsókn, en sjálfur kemur hann með sams konar till. og ekki bara um rannsókn um framleiðslu og dreifingu mjólkur, heldur allrar neyzluvöru yfirleitt.

Það eru örfá atriði, sem ég verð samt sem áður að nefna. Hann afsakar dráttinn á því að stækka mjólkurstöðina með því, að bæjarráð hafi neitað að veita lóðir undir hana, en hann varð vegna þess, að mjólkursölun. sjálf var flöktandi og gat aldrei ráðið það við sig, hvar stöðin ætti að standa. Þessi málafærsla hans er því gersamlega ósönn.

Ég gat þess í ræðu minni, að ég legði ekki trúnað á, að öll mjólkin, sem seld vær í til setuliðsins, færi til sjúkra manna. Síðan hefur hann sagt, að ekki fari nema einn bíll til sjúkrahúsanna. Annað er nú búið að stöðva. M. ö. o., það, sem hann hefur haldið fram, að setuliðið mundi hætta að kaupa mjólk, ef dregið væri úr mjólkursölunni til þess um stundarsakir, hafa nú reynzt hugarsmíðar einar. Þetta stafar sjálfsagt af því, að hv. þm. hafði ekki lagt á sig að kynna sér vilja setuliðsins. Hann hefur því löðrungað sjálfan sig á hinn eftirminnilegasta hátt.

Hv. þm. heldur því fram, að mjólkursamsalan sé bezt rekna fyrirtækið á Íslandi og mjólkurbúðirnar til fyrirmyndar. En ef þetta er satt, hvers vegna er þá þessi hv. þm. óvinsælasti verzlunarstjóri í heimi? Að því er mjólkurbúðirnar snertir, þá skal ég skjóta máli mínu til Sigurðar Péturssonar gerlafræðings, sem hv. þm. er alltaf að skjóta sér á bak við. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Það er enn fremur hagsmunamál neytenda, að mjólkurbúðirnar í Reykjavík séu svo úr garði gerðar, að hægt sé að geyma í þeim mjólk og rjóma yfir daginn. Hver maður getur daglega gengið úr skugga um, að búðirnar eru of heitar og viðunanlegur kæliútbúnaður ekki fyrir hendi“.

Hv. þm. svarar ekki ýmsum spurningum, sem ég beindi til hans, enda kannske ástæðulaust. Er mjólk, sem er flokkuð austur frá, flokkuð aftur hér? Ég held, að öllum þm. sé ljóst, að það er full þörf rannsóknar á mjólkurmálunum. Og þótt hann lofi fyrirtækið, þá finna menn daglega, hvað margir gallar eru á því. Það þýðir ekkert að berja sér á brjóst og segja, að mjólkursamsalan sé bezt rekna fyrirtækið í heimi, og ef eitthvað fer aflaga, þá að skella allri skuldinni á stríðið. Hann getur ekki afsakað sig með því. Ég er sannfærður um, að ef nokkur fyrirhyggja eða dugnaður hefði verið fyrir hendi, þá hefði verið hægt að auka stöðina fyrir stríð. Hann segir, að það fáist ekki viðunandi flöskulok. En það er hægðarleikur að fá þau. Ég hef hugboð um, að borizt hafi tilboð um flöskulok, sem voru fullboðleg.

Þá held ég það sé einsdæmi, að þm. flytji till., sem hann lýsir svo yfir, að hann sé ekki sjálfur fylgjandi. Hann segist ætla að prófa mig með henni. Ég er ekki að koma á þing til að ganga undir próf hjá hv. þm. V.-Sk. En honum verður erfiðara að sannfæra bændur um, að till. mín sé ofsókn, þegar hann sjálfur kemur með sams konar till. og það yfirgripsmeiri. Ætli honum finnist hann ekki vera kominn í sjálfheldu?