25.11.1943
Neðri deild: 54. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3242)

100. mál, skipun mjólkurmála

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það, sem gaf mér tilefni til þess að biðja um orðið, voru þau ummæli hv. frsm. meiri hl., hv. þm. A.-Húnv. (JPálm), í gær í þessu máli, að það væri alls ekki ætlazt til þess, að þessi rannsókn leiddi til rannsóknar á bændur, það væri fjarstæða. Nú skulum við athuga, á hverju þetta er byggt hjá honum. Þetta hefur að vísu komið fram áður hér á Alþ., en það hefur þá komið fram frá mönnum, sem vissu ekki neitt og skildu ekki í neinu, sem við kemur mjólk, og þess vegna tók það enginn alvarlega eða skipti sér neitt af því, sem þeir sögðu. Nú er þetta sagt af manni, sem er bóndi og ætti þess vegna að vita, hvað hann segir um þessi mál.

Það fyrsta, sem þessi n. á að rannsaka eftir till. meiri og minni hl. n., er það, að hve miklu leyti séu réttlátar umkvartanir neytenda í Reykjavík og Hafnarfirði um gallaða og skemmda mjólk. Nú liggur það fyrir, að öll þau ár, sem mjólkursamsalan hefur starfað, hefur verið hafður maður til þess að dæma um það, hvernig mjólkin væri frá hverjum einstökum, er mjólk sendi. Ef við lítum yfir árið 1940, kemur það út, að bændur í Mela- og Leirársveit hafa haft í 1. fl. 36,51%, en í 4. fl. 3,58%. Bændur í Hrunamannahreppi hafa haft í 1. fl. 90,45%, en í 4. fl. 0,37%. Þessa skýrslu þarf n. að sjá, en það er ekki nóg að vita þetta, því að nú vill hún fara að rannsaka þetta nánar. Hún þarf að vita, í hverju þessi mikli mismunur liggur. Hún þarf þá að fara inn á heimilin og ganga úr skugga um það, af hverju þetta stafi, og gera till. til úrbóta. En hvort halda menn nú, að 5 þm. eigi hægara með að gera þetta eða sá maður, sem mjólkurbúin hafa sem fastan starfsmann til þess að gera „prufu“ á mjólkinni vikulega og rannsaka, hverju sé áfátt? Halda menn, að þm. geti farið að rannsaka það, hvernig standi á því, að ekki komi meiri mjólk frá þessu og þessu heimili, hvort þar hafi drepizt kýr eða látið kálfi eða annað þess háttar? En hvað sem því líður, er það ljós, að þessi rannsókn yrði ekki gerð nema á heimilunum. Þar er hægt að finna ástæður fyrir því, að mjólkurmagnið minnki, og mikið mjólkurmagn frá mörgum heimilum kemur fram sem minna sent til búsins. Það er, held ég, ekki neinn maður, sem lætur sér detta í hug, að blandað sé óhreinindum í mjólkina, eftir að hún er komin til mjólkurstöðvarinnar. Ef um slíkt væri að ræða, þá ætti það helzt að eiga sér stað á heimilunum sjálfum. Þess vegna eru þau ummæli, sem hv. þm. A.-Húnv. viðhafði hér í gær, sögð gegn betri vitund. Hitt er svo annað mál, þó að flm. till. viti þetta ekki, það dettur engum í hug að gera kröfu til þess, að hann hafi hugmynd um það. Þess vegna svarar enginn staðleysum hans. En að hv. þm. A.-Húnv. skuli álíta, að hægt sé að laga þetta án þess að hugsa um heimilin, það er undarlegur hlutur.

Svo skiptir aftur hlutverkum milli flm. og frsm. Flm. till. skilur aftur vel, hvað hann meinar með rannsókn eftir 34. gr. stjskr. Hann vill fá þetta rannsakað, og það á að vera meira en venjuleg sakamálsrannsókn, það á að vera gert af nefnd, sem hefur það víðtækasta rannsóknarvald, sem hægt er að fá hér á landi. Hann vill bændum vel, en í fávizku sinni heldur hann þetta venjulega rannsókn, sem ekkert sérstakt sé við að segja. Þess vegna hoppar hann inn á það, að þessi rannsókn sé gerð. Að þessu leyti veit hann ekki, hvað hann er að gera, en í hinu tilfellinu, því hvað rannsaka skal og hvar og hvernig það verður gert, skilur flm. ekki, hvað hann er að gera, svo að þarna skiptir alveg hlutverkum. Þegar um þessa rannsókn er rætt, þá langar mig til þess að fá upplýsingar um það hjá 1. flm. till. og form. meiri hl., hvað þeir hafi eiginlega kynnt sér af niðurstöðum þeirra sex n. eða sjö, sem ríkisstj. hefur skipað til að rannsaka mjólkurmál. Mig langar til að fá hjá þeim upplýsingar um það, hvað af þeim till., sem þær hafa gert hver um sig, hafi ekki verið framkvæmdar og hverjar till. eru, því að þeir hljóta að hafa kynnt sér vel þessi mál og störf þessara sex nefnda og hvaða till. þær hafa gert hver um sig og hvernig við þeim snúizt. Vilja þeir ekki segja mér, í hverju er áfátt um að framkvæma þær till., sem þessar n. hafa gert, því að flm. till. hefur auðvitað kynnt sér, hvað búið er að rannsaka af þessu, áður en hann fór af stað með hana? Eitt af því, sem rannsaka á, er það, hvað mikið mjólkurmagn á síðustu árum hefur farið til neyzlu og hvað mikið til vinnslu. Sú n., sem skipuð var 1940, hefur lagt fram opinberar skýrslur um þetta, en ég dreg í efa, að 1. flm. hafi kynnt sér þetta. Hvað hefur hann kynnt sér af fyrri skýrslum? Hvaða till. hafa ekki verið framkvæmdar, sem þessar n. hafa gert. Vafalaust hefur líka landbn. kynnt sér þetta og fengið skýrslur frá þeim n., sem hafa starfað og athugað, að hve miklu leyti búið er að rannsaka þetta. Það er nefnilega búið að framkvæma mest af því, sem hér er talað um. En ég hefði gaman af að vita, hvað mikið hefur hér verið gert vitandi vits og hvað mikið hefur verið gert af fáfræði, því að ég kalla það fáfræði að hafa ekki kynnt sér neitt af því, sem undanfarið hefur verið gert. Ég lít þannig á, að þessar ar n. sé engin þörf. Ég viðurkenni fúslega, að það séu nokkur atriði í mjólkurskipulaginu, sem ég tel, að standi enn til bóta, en það atriði, sem stendur helzt til bóta, er ekki minnzt á einu orði í till., enda er flestum ljóst, að það verður að athuga, en tillögumenn hafa það ekki með í till. sinni. Ég held, ef n. á að skipa, að þá sé sanni nær, að hún sé skipuð eftir till. hv. þm. Mýr. heldur en eftir till. flm. En sem sagt, ég tel ekki þörf á því. Forráðamönnum mjólkurmálanna, þeim er það ljóst, að allt skipulag þarf að fylgjast með þróun tímans og standa þannig til bóta. En auk þess eru enn einstök atriði, sem þessi n. nær ekki til og lagfæringar þurfa. Ég mun við atkvgr. sýna mína aðstöðu til þessa máls, en sem sagt, ég tel þessa n. algerlega óþarfa.