30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

100. mál, skipun mjólkurmála

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það lítur út fyrir, að það ætli að fara í dag eins og marga daga áður, þegar ræða hefur átt þetta mál, að það er ekki eftir skilinn nema hálftími til 3/4 til að ræða það. Ég kemst ekki hjá því að lýsa óánægju minni út af því, hvernig þessu máli — og öðrum málum — hefur þannig verið gert lágt undir höfði. Ég minnist þess, að skylt mál, sem hv. 8. þm. Reykv. er 1. flm. að, frv. til l. um sölu mjólkur og rjóma, var teygt við 1. umr. í einn mánuð, ekki svo mjög vegna þess, að umr. væru langar, heldur vegna þess, hversu það var á dagskrá tekið — eða ekki tekið. Þetta mun stafa af því, að hæstv. forseti er þess ekki fýsandi, að mál þessi fái hraða afgreiðslu. Sá háttur á ekki að vera á, að mál séu látin sæta meðferð eftir því, hvort þau eru að skapi hæstv. forseta eða ekki. Ég segi þetta, því fremur, sem ég í landbn. lýsti yfir því, að afstaða mín til þess máls, sem hv. 8. þm. Reykv. og aðrir flytja, fari mjög eftir því, hvaða afgreiðslu þessi þáltill. fengi. Það bíður nú, en þessi mál binda hvort annað, enda er það álit sumra þm., að hægt sé að komast hjá ályktunum um þau, því að það getur ekki hjá því farið, að þingið gangi fram hjá þeirra auglýsta vilja.

Ég gat ekki látið vera að minnast á þetta. Það verður ekki hjá því komizt að taka eftir þeirri meðferð, sem þessi mál hafa fengið hjá hæstv. forseta. En ég vil sízt verða til þess að tefja málið og skal því mjög takmarka það, sem ég vildi segja.

Þeir, sem síðast töluðu, hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. N.-M., lögðu á það höfuðáherzlu, að rannsókn væri óþörf. Þeir vildu telja, að sú rannsókn, sem hér er ráðgerð, hefði áður verið framkvæmd að mestu og því óþarfi að „endurtaka sama leikinn“, eins og hv. þm. V.-Húnv. sagði. Hann sagði, að hér hefði að vísu orðið lítils háttar skortur á mjólk, en ekki meiri en annars staðar og mestur í blöðunum. Út af þessu hefði orðið úlfaþytur, sem svo hefði orðið til þess, að menn fóru að safna mjólk, — mér skildist, að þessi „mjólkursöfnun“ hefði svo verið ein aðalorsökin til mjólkurskortsins. — Þetta voru aðalrök þessa hv. þm. Ég veit það hefur stungið hv. þm. illa, að það eru í l. um sölu mjólkur og rjóma ákvæði um það, að samsalan skuli á hverjum tíma sjá Reykjavík og Hafnarfirði fyrir nægri mjólk, — innan þeirra takmarka, sem viðráðanleg eru.

Nú er það upplýst, að mjög verulegur hluti af þessu mjólkurmagni, sem til var, var tekinn og látinn til annarra aðila, án þess að um það væri samið. Þetta tel ég, að sé skýlaust lagabrot, og þetta á að rannsaka og hefur aldrei verið rannsakað af neinni af þessum sex n., sem hv. þm. talaði um. Það er þess vegna tilgangslaust af honum að vísa til niðurstöðu þeirra n., sem áður hafa starfað að rannsókn nýmjólkurmála, því að þetta hefur ekki komið fyrir fyrr. En þessu vilja þeir ekki láta koma nálægt.

Hv. þm. Mýr. hefur svo vendilega hugsað um þetta atriði, að hann hefur tekið það út úr tillgr., — sem sagt, þetta eina atriði, sem má ekki rannsaka, er — lögbrot. Það er í till. hv. þm. Snæf., að rannsaka skuli sölu á mjólk til setuliðsins, en þetta hefur hv. þm. Mýr. tekið út úr till., svo að ekki verði um það deilt.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði í sinni ræðu síðast, að hann bæri kvíðboga fyrir því, hvernig færi um mjólkursölu næsta haust, því að nú væri slátrað svo mörgum nautgripum á mjólkursvæðinu vegna fóðurskorts. mundi þetta ekki vera efni til rannsóknar? Eða mun það í nál. einhverra þeirra sex n., sem hv. þm. V.-Húnv. talaði um? Það þarf að taka til athugunar lögbrotið í haust og horfurnar fyrir næsta haust. Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þá athugun, sem nauðsynlegt er, að gerð sé á mjólkurmagninu, og þær ráðstafanir, sem þarf að gera til að bæta úr því, og að rannsaka til hlítar lögbrotið s. l. haust.

Það hefur komið fram, að mjólkurgæðin eru ekki eins mikil og þörf er á. Það hefur og verið frá því skýrt, að mjólkurstöðin nái ekki að afkasta eins miklu og hún þyrfti að gera, vegna þess, hve mikið mjólkurmagn hún tekur til meðferðar. En það hefur láðst að geta um tvennt. Í fyrsta lagi, hvers vegna ný mjólkurstöð var ekki reist fyrr en nú, þegar allt er orðið eins dýrt og það getur orðið, og í öðru lagi, hvers vegna mjólkurbú hér á næstu grösum eru látin standa ónotuð á sama tíma sem mjólkurstöðin er svo ofhlaðin, sem raun ber vitni.

Væri ekki ástæða til að athuga, hvers vegna þessi tæki eru látin standa ónotuð? Þetta stendur ef til vill í nál. sex manna n., sem þm. hafa verið að vitna í.

Ég held, að mjög æskilegt hefði verið að athuga samvinnu búanna, því að mér skilst, að hún sé ekki eins góð og vera ætti.

Vitaskuld er ýmislegt í sambandi við gæði mjólkurinnar, sem til greina kemur að athuga í sambandi við flutninga og aðra meðferð frá fyrstu hendi. Þetta er túlkað þannig, að við flm. viljum fara heim til bændanna og athuga, hvernig þeir framleiða vöru sína. Ef til vill væri ástæða til að gera þetta, en það hefur verið gert. En hvers vegna kemur þá svo mikið í 4. flokk sem hv. 2. þm. N.M. lýsti yfir? Við þessu þarf að gera einhverjar ráðstafanir, og held ég, að ekki væri það til skaða, að það væri rætt frekar, þótt þessi hlið málsins hafi verið athuguð áður.

Um verðlag mjólkurinnar er margt á huldu, þótt hv. þm. V.-Sk. hneykslist á því, að á slíkt sé minnzt. Ég efast um, að þær sex n., sem um mál þessi hafa fjallað, hafi rannsakað verðlagshliðina til hlítar. En það er áreiðanlega ástæða til þess að skoða inn fyrir dyrastafinn hjá mjólkursölun., og það er fullkomin ástæða til að skipa til þess n., sem hefur eitthvert vald og þarf ekki að fara bónarveginn til að fá upplýsingar. Það hefur ekki verið rannsakað, hvort álagningin er ekki meiri en góðu hófi gegnir, og lítið hefur upplýstst um vinnslu og flokkun mjólkurinnar og um tölur þær, sem bændur fá heim og eru nálega helmingi lægri en söluverð mjólkurinnar er hér. Reynt hefur verið að færa sönnur á, að orsakirnar séu flutningserfiðleikar, en ég álít, að þeirra sé víðar að leita. Þá þarf að athuga, hvers vegna lög, sem sett hafa verið um þessi efni, hafa ekki verið notuð.

Mjólkurfræðingur samlagsins hefur kvartað yfir því, að framleiðsluvörum væri ýmist hent eða sendar heim til bænda í lítilli þökk þeirra. Allt þetta er þörf á að rannsaka ofan í kjölinn.

Ég vil nú leyfa mér að gera samanburð á till. hv. þm. Snæf. og till. minni hl. landbn. Þar er mikill munur á. Það er ástæða til að kynna sér muninn á þeim, því að á því veltur allt, hvor tillagan verður samþykkt. Ég tel till. hv. þm. Snæf. líklega til að bera árangur, en till. minni hl. er með sama sniði og aðrar till., sem fram hafa komið í þessu máli áður, þannig að n. skipuð samkvæmt henni þurfi að fara bónarveginn í leit eftir upplýsingum. Hjá minni hl. eru allar till. gerðar kraftminni.

Samkvæmt till. hv. þm. Snæf. á að skipa n., sem hefur vald, en samkvæmt till. minni hl., sem sé valdalaus. Þetta skiptir öllu máli, og mætti búast við litlum árangri af starfi hinnar síðarnefndu n.

Samkv. till. hv. þm. Snæf. væri hægt að komast að kjarna málsins, en kringum hann hefur alltaf verið farið.

Ég skal gera mitt — þrátt fyrir allt —, til þess að málið nái fram að ganga.

Ég ætla að lokum að fara nokkrum orðum um hinn fádæma málflutning hv. 2. þm. N.-M. Hann sagði, að við flm. gerðum allt, sem við gætum, til þess að leggja stein í götu mjólkurframleiðenda. Mig furðar stórkostlega á því, að þm. skuli leyfa sér að viðhafa slík orð, og var allt, sem þm. sagði um þetta, helber ósannindi. Ég hef verið með í því að koma mjólkurl. á. en verið svikinn um framkvæmd þeirra og vil breyta þeim til batnaðar. Því fer mjög fjarri, að ég vilji troða skóinn ofan af bændum, og ættu þeir, sem lifa á sundrung í þessum málum, að skammast sín fyrir að láta sér slík orð um munn fara. Þeir, sem þessum málum stjórna, hafa á síðustu árum gert óþarfa leik að því að leggja stein í götu þeirra, sem við sjóinn búa, og það svo, að þeir, sem stundað hafa þennan atvinnuveg þar, mjólkurframleiðslu, hafa margir hverjir orðið að leggja hann niður. Fyrir framkvæmd mjólkursölun. á mjólkurl. hafa margir, sem í kaupstöðum búa, orðið að farga kúm sínum. En ég veit ekki til, að það hafi verið gagnrýnt og þeir hafi viljað leggja stein í götu framleiðenda til landsins, enda er það ekki leið til heilbrigðs samkomulags. Það þarf að gæta hagsmuna beggja.

Vil ég að síðustu segja, að eðlilegra er, að þeir, sem ráða þessum málum, reyni að bæta úr misfellunum, en spyrni ekki sífellt við broddunum. Ég er ekki viss um, hve lengi neytendur þola þá meðferð, sem þeir nú sæta í þessum efnum. — Ég vil vænta þess, að þm. geti orðið ásáttir um að samþ. till. hv. þm. Snæf., en gjaldi varhuga við samþ. till. minni hl. beggja. Þær draga úr þeim árangri, sem til var ætlazt af flm. upphaflegu tillögunnar.