30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

100. mál, skipun mjólkurmála

Frsm. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Hv. þm. Hafnf., sem nú settist, ræddi mikið um þörf ýmissa rannsókna í mjólkurmálinu. Ég hafði skýrt frá því, að ýmsar rannsóknir hefðu verið gerðar á undanförnum árum í þessu efni, en þm. virtist ekkert hafa með niðurstöður þeirra rannsókna að gera. En ég held, að ef hann kynnti sér þær, gæti hann fengið upplýsingar um margt, sem hann spyr nú um. Hann hangir í einu atriði mjólkurl., sem fjallar um það, að mjólkursamsölunni sé skylt að sjá neytendum á þessu svæði fyrir nægri mjólk. Þetta atriði á vitanlega að skilja svo, að mjólkursölun. eigi að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til að útvega næga mjólk, og þó að mjólkurskortur hafi verið hér að undanförnu, hafa ekki heyrzt raddir um, að þar væri um brot á mjólkurl. að ræða.

Ég vil segja það, að þær upplýsingar, sem hv. þm. Hafnf. óskar eftir að fá í þessum málum eftir þeirri leið, sem ætlazt er til í till. hv. þm. Snæf., nást betur á friðsamlegri hátt. En ef sett er slík rannsókn á bændur og stofnanir þeirra, er einskis samkomulags að vænta.

Hann talaði um þá, sem lifðu á ósamkomulagi í þessum málum, og beindi því til hv. 2. þm. N.-M. Það er vægast sagt grálega mælt. Ég hef aldrei orðið var við, að hv. þm. N.-M. hafi viljað koma af stað illyndum, heldur hafa ýmsir úr hópi neytenda viljað það og þar á meðal þeir, sem borið hafa fram þessa till. hér í þinginu. Hv. þm. Hafnf. hefur prýtt þann hóp, en virðist nú kominn á annað mál, og vil ég taka undir það með honum, að þeir, sem viðhalda þessum ófriði, ættu að skammast sín.

Hv. þm. Skagf. hélt því fram, að ég hefði viðurkennt, að full þörf væri rannsóknar í þessu máli. Ég hélt því fram, að af því að búið væri að rannsaka margt í málinu, væri frekari rannsóknar ekki þörf.

Eðlilegasti grundvöllurinn, sem byggt er á og byggt hefur verið á í þessum málum, er sá, að menn fái bætt úr ágöllunum stig af stigi, eftir því sem bætt tæki leyfa.

Ég flutti brtt. mína af því, að ég vildi koma frv. í það horf, að nokkrar líkur væru til þess, að það kæmi að nokkru gagni, en yrði ekki til hins gagnstæða. Hv. þm. Snæf. fann till. minni það til foráttu, að hún miðaði að því að tryggja pólitísk yfirráð mín og flokks míns í þessum málum. Þessi hv. þm. er búinn að binda sig fastan við, að till. mín sé pólitísk, en hver maður getur séð, að það, sem fyrir mér vakir, eru engin pólitísk yfirráð, og til þess að undirstrika það hef ég boðið þm. upp á það, að fyrsti maðurinn, sem kosinn yrði samkvæmt minni till., yrði hv. þm. Ak., til þess að tryggja það, að maður með sérþekkingu hefði málið með höndum. Þótt mjólkurfræðingurinn yrði ef til vill framsóknarmaður, mundi það ekki tryggja flokknum nein yfirráð í n.

Hv. þm. A.-Húnv. var með ávítur í minn garð fyrir þá meðferð, sem málið hefði sætt, og tók það til dæmis, að liðið hefðu 22 dagar, þar til hægt hefði verið að taka málið fyrir, vegna þess, hversu brtt. mín kom seint fram. En ég vil taka það fram, að svo hart var að mér gengið, að ég fékk aðeins frest um eins fundar bil til að athuga þær till., sem ég vildi bera fram. Ég vildi og bíða eftir hv. 2. þm. Skagf. Ég var að gera mér grein fyrir því, að hann væri að reyna að koma vitinu fyrir flokksmenn sína í málinu.

Þá talaði þm. um það, hve mikill munur væri á till. hv. þm. Snæf. og till. minni hl. Ég skal ekki segja, hvort munurinn í því falli yrði sá, að það yrðu allt aðrir menn í n. hvorri fyrir sig, en munurinn liggur í því, hvernig þær yrðu skipaðar. N. eins og sú, sem ræðir um í till. hv. þm. Snæf., skipuð eins og þar er ætlazt til og samkvæmt 34. gr. stjskr., mundi aldrei verða tekin nema sem fjandskapur af hálfu þingsins í garð þeirra manna, sem eiga að sæta rannsókninni. Það er sitt hvað, hvort hv. þm. A.-Húnv. kemur til mín sem vinur og samstarfsmaður í málinu eða hann kemur með byssu með spenntum gikk, og er hvort tveggja þó sami maðurinn. Satt að segja veit ég ekki, hvaða umboð þessi maður hefur til þess að segja, hvernig þessi n. verði skipuð. Það getur skeð, að hann sé svo kunnugur í flokkunum, að hann viti, hvaða menn yrðu í fimm manna n. og hverjir í sex manna n., en ég get sagt honum það, að af hálfu Framsfl. verður enginn maður í fimm manna n., svo að hann getur sjálfur búið um sig í því sæti. Vitaskuld er allt annað um þá n., sem skipuð yrði samkv. till. 2. þm. Skagf. (JS).

Þá er annað atriði, sem ég kann ekki við hjá hv. þm. A.-Húnv., þó að það komi ekki þessu máli við. Það er, þegar hann er að tala um till. frá bændum, en hann segist ekki taka minnsta tillit til þessara tillagna. Ég held, að ég gæti búizt við þessu frá ýmsum, en ekki frá þessum þm., sem er frá bændakjördæmi, og held, að ég verði að segja, að úr því svo fer um hin grænu tré, hvernig mun þá um þau hin visnu?

Ég skal ekki vera langorður, en má þó ekki gleyma garminum honum Katli, 6. þm. Reykv. (SK). Hann fann ástæðu til þess að láta ljós sitt skína og helti úr sér yfir þá, sem væru á móti þessu. Það var satt að segja broslegt, þegar þessi þm. var að tala um þvergirðing og lundvonzku meðal okkar framsóknarmanna í þessu máli, hann sem sjálfur er þvergirðingurinn og lundvonzkan uppmáluð. Ég veit satt að segja ekki, hver er kunnari að magaveikislegri geðvonzku en þessi þm., og varð ég ekki var við., að skapið í honum batnaði mikið, meðan hann lifði á Korpúlfsstaðamjólk.

Það, sem hann sagði um málið sjálft, er tæpast svaravert. Hann sagðist vera á móti till. minni og till. 2. þm. Skagf. Mig undrar það ekki, því að það hefur sjaldan brugðizt með þennan þm., að hann hefur fylgt þeirri till., sem verst gengdi í hverju máli.

Það var annað atriði, sem hann kom inn á í þessu máli, sem ég get ekki látið vera að minnast á. Það virtist koma heldur við magann í honum, þegar hann fór að tala um úldna kjötið. Hann sagði, að það væri ljótt að skemma mat, og það er hverju orði sannara. En þetta kjöt hefur verið ómeti í tvenns konar skilningi. Það var óæti, en líka pólitískt ómeti. Ég veit ekki, hvort þessi þm. hefur lifað á því, þó að hann hafi útlit til þess, en hann hefur lifað á því pólitískt, og verði honum að góðu. Í sambandi við þetta tal hans um, að það sé ljótt að skemma mat, vil ég benda honum á það, að ekki er langt síðan síld og fiskur hefur skemmzt. Hann minntist ekki á það, hvað það væri ljótt að skemma fiskmeti og saltsíld, og ég veit ekki til, að hann hafi farið niður á síldarplön til að gráta yfir saltsíldinni, og ég veit ekki heldur til, að hann hafi haldið sams konar ræðu yfir fiskflökunum í Keflavík og hann hefur haldið yfir kjötinu. En þegar slíkt kemur fyrir með kjöt, sem búið er að selja og ýmsir embættismenn hafa fjallað um, þar á meðal þm. Ak. (SEH), leyfir hann sér að dylgja um, að þetta kjöt hafi af Sambandinu og kaupfélögunum verið skemmt að yfirlögðu ráði til þess að koma í veg fyrir, að meðborgarar okkar innan lands og utan gætu lagt sér það til munns. Ég vil nú segja það, að slíkur málflutningur getur ekki verið sprottinn af öðru en fullkomnu pólitísku einsýni eða blindu eða framúrskarandi óheiðarleik í málfærslu. Svo klykkti hann út með því að segja það í skjóli þinghelginnar, að kaupfélögin hefðu eyðilagt mat í tonnatali og í sama tilgangi. Ég vil nú skora á hann að endurtaka þetta utan þingsins og geta þess, hvaða matur og hvaða stofnanir þetta eru, svo að hann geti sannað það fyrir dómstólunum og fengið eina rannsóknina enn, sem hann virðist þrá svo mjög.