02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

100. mál, skipun mjólkurmála

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þessum umr. hefur lengi verið haldið áfram undanfarna daga, og ekki færri en fjórir hv. þm. Framsfl. hafa hellt úr skálum reiði sinnar yfir þessa till. Þeir hafa talað af miklum fjálgleik um óþarfa áreitni við bændur og annað þess háttar. Ég skal þó ekki fara langt út í þetta nú, einkum vegna þess, að ýmsir þeir, sem ég þurfti helzt að svara, eru ekki hér viðstaddir. En ég get þó ekki látið hjá líða að minnast nokkuð á fáein atriði, sem komu fram hjá þessum hv. þm. og eru fjarri öllum sannleika.

Hv. 2. þm. N.-M. gekk einna lengst í þessum blekkingum. Hann var m. a. að taka upp úr ræðu minni og ræðu hv. þm. Snæf. atriði, sem við höfum aldrei sagt, og lagði svo út af því. Hann hafði það eftir okkur, að það væri ekki ætlazt til þess, að rannsóknin næði inn á heimili bænda, en það höfum við aldrei sagt, heldur að það kæmi aldrei til greina, að rannsóknin næði til annarra en þeirra stofnana, sem vinna að því að hreinsa og selja vöruna. Það er þýðingarlaust fyrir þennan hv. þm. eða aðra að halda því hér fram frammi fyrir okkur, að við höfum sagt eitt og annað, sem við höfum aldrei sagt, en það má geta nærri, hvernig málflutning þessir menn nota, er þeir tala við menn úti á landi, þegar þeir fara með svona ósannindi frammi fyrir þeim, sem þeir vita, að geta rekið þau ofan í þá aftur.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði sagt, að það væri hægt að fá svo og svo mikið af mótmælum og undirskriftum undir skjöl, ef það væri beðið um þau. Þetta er slúður eitt hjá hv. þm. Það, sem ég sagði, var, að það væri bersýnilegt, að mikið af þessum mótmælum væri pantað. Og ég er viss um, að það eru ekki sízt pöntuð þau mótmæli, sem koma úr kjördæmi þessa hv. þm., því að hvað ætli fólk austur á Vopnafirði eða þar um slóðir færi að skipta sér af mjólkursölumálunum hér í Reykjavík, nema það sé sérstaklega beðið um það? Það er allt öðru máli að gegna um þá, sem búa hér á verðlagssvæðinu, því að þar er um aðila með einkaleyfisaðstöðu að ræða, sem kunna að hafa verið hræddir með því, að hér ætti að rýra hagsmuni þeirra. Um það er ekki hægt að segja að svo stöddu, en það fer eftir niðurstöðum þeirrar n., sem verður kosin samkvæmt þessari þál.

Þessi hv. þm. var einnig að tala um það, að rótin til þessara ummæla, sem hann hafði eftir mér, um það, hve auðvelt væri að fá pöntuð mótmæli og annað slíkt, lægi í því, að ég væri þessu svo vanur úr mínu héraði. En þetta er alveg öfugt. Það mundi ekki þýða að reyna slíkt við Húnvetninga, og jafnvel þótt þessi hv. þm. eða aðrir úr Framsfl. sendu slíkar pantanir til flokksmanna sinna þar, þá er ekki víst, að þeir vildu verða við slíkri áskorun, þótt þeir séu annars vikaliðugir.

Varðandi tal hv. 2. þm. N.-M. um, að ekki væri þörf athugunar á mjólkursamsölunni, vegna þess að mjólkurfræðingur Flóabúsins hefði gert mjólkurprufur á öllum mönnum þar eystra, verð ég að líta svo á, að honum hafi orðið mismæli.

Þá endurtók þessi hv. þm., að till. hv. þm. Snæf. væri ekki fram komin til leiðréttingar í mjólkurmálinu, heldur til þess að ófrægja bændur, gera óleik og valda vandræðum. Það er furðulegt, að hann skuli kasta slíku að heiðarlegum mönnum, þessi ógæfusami maður, sem hefur með blaðri sínu valdið bændum meira tjóni en nokkur annar maður, og það er til skammar, að hann skuli vera liðinn í nokkru opinberu starfi, sem snertir landbúnaðinn.

Það er ekki nauðsynlegt að fara mörgum orðum um ræðu hv. þm. Mýr. Hann hélt því fram, að hægt væri að laga allar misfellur, sem kynnu að vera á mjólkursamsölunni, án þeirra aðgerða, sem farið er fram á í till. hv. þm. Snæf., og að hægt væri að fá þær upplýsingar, sem þörf væri á, í nál. þeirra sex n., sem unnið hafa að þessum málum undanfarið. Ég held nú, að ekki sé mikið að græða á þeim nál., eins og fram kom í ræðu hv. þm. Hafnf.

Varðandi tal hv. 2. þm. N.-M. um, að ég hefði látið ginna mig sem þurs af sósíalistum, sem kom og fram í ræðu hv. þm. V.-Sk., verð ég að segja, að þetta er að hafa endaskipti á réttu og röngu. Frv. er flutt af okkar mönnum og í samráði við marga okkar. Þeir (sósíalistar) skrifuðu aðeins undir nál. í landbn. og eru fylgjandi máli, sem minn flokksmaður hefur flutt, og þeir styðja okkur í því.

Það var auðheyrt á tali hv. þm. Mýr. um skipun væntanlegrar n., að hann vildi að hún yrði skipuð samkv. till. hans eða brtt. hv. 2. þm. Skagf. Er auðséð á þessu, að þeir framsóknarmenn eru reiðubúnir að samþ. brtt. við aðalfrv., en ætla svo að fella það á eftir, af því að þeir sjá ekki ástæðu til að samþ. neitt um lagfæringu á mjólkurmálunum.

Varðandi tal þessa hv. þm. um skipun óstarfhæfrar n., ef hún yrði skipuð þm. einum, vil ég taka það fram, að ég hef svarað því áður og þykir líklegt, að hún verði skipuð sömu mönnum, hver sem kysi þá.

Ég skal ekki fara út í ræðu hv. þm. V.-Sk., af því að hann er ekki við, en hún var full af skammaklausum, einkum um hv. þm. Snæf. Við erum svo vanir að heyra þess konar ræður, að við kippum okkur ekki upp við það. Þar voru atriði mér óviðkomandi, getsakir og illyrði, er snertu deilur milli flokka okkar, en það þýðir ekki að blanda þeim hér inn í umr., þar sem hann er ekki viðstaddur.

Þær löngu ræður, sem hér hafa verið fluttar, eru gerðar til þess að valda málþófi og draga mál þetta á langinn, svo að þeir hafi betri tíma til að dreifa út um landsbyggðina ósönnum frásögnum og getsökum um meðferð málsins. Ég geri ráð fyrir, að þegar menn athuga málið, sjái menn, að þessi till. er ekki flutt í öðrum tilgangi en þeim að fá leiðréttingu í mjólkurmálunum og hefur mikla þýðingu, bæði fyrir alla neytendur og landsfólkið í heild.

Skal ég láta þetta nægja og ekki blanda mér inn í umræðurnar um þessa till., nema sérstakt tilefni gefist.