02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í D-deild Alþingistíðinda. (3257)

100. mál, skipun mjólkurmála

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. Hafnf. flutti hér alllanga ræðu um þetta mál í fyrradag, og virtist mér framkoma hans og ræðuflutningur nokkuð einkennilegur þá. Hann þóttist vilja greiða fyrir, að umr. um þessa till. gæti orðið lokið sem fyrst, og var síðan með, að því er ég álít, óviðeigandi og ósæmilegar aðdróttanir til hæstv. forseta, að hann hefði tafið fyrir þessu máli. Og í ræðu sinni hlóð hann síðan dylgjum á dylgjur ofan og stóryrðum á stóryrði ofan á það fyrirtæki, sem till. ræðir um, og þvældi þannig um þetta mál a. m. k. hálfa klukkustund. Virtist hann gera það, sem hann gat, — um leið og hann sagði það vera sitt áhugamál, að umr. mætti ljúka sem fyrst, — til þess, að umr. yrðu enn meiri og færu víðar en þegar var orðið.

Það, sem hv. þm. Hafnf. m. a. taldi fram sérstaklega til stuðnings því, að skipa bæri slíka rannsóknarn., var það, að nauðsynlegt væri að rannsaka mjólkursöluna til setuliðsins á þessu hausti. Ég vil benda á, að í þessum umr. hafa fyrir löngu verið gefnar upplýsingar um, hvað mikil mjólk hafi verið seld til setuliðsins í haust, svo að þessi n. mundi ekki komast að neinni nýrri niðurstöðu um það, því að það er þegar að fullu upplýst af þeim, sem stjórna þessum málum.

Þá sagði hann og hefur haldið því fram áður, að áreiðanlega væri um lögbrot að ræða hjá stjórn samsölunnar að hafa selt mjólk til setuliðsins. Vitanlega nær það engri átt. Vil ég í því sambandi benda á, að sjálfur þessi hv. þm. leggur engan trúnað á sín eigin orð í þessu efni, því að ef hann og skoðanabræður hans hefðu litið svo á, að hér væri um lögbrot að ræða, þá hefðu þeir átt að snúa sér til viðkomandi yfirvalda með kæru á stj. samsölunnar fyrir að hafa brotið l. Þeir hafa ekki treyst sér til að fara þessa leið, og tel ég það ekki undarlegt, því að það sér hver maður, að slíkt eru staðlausar fullyrðingar. Það þarf ekki að efa, að þessir hv. þm. hefðu kært stjórn samsölunnar fyrir lögbrot, ef þeir hefðu getað, svo mikla stund hafa þeir lagt á að gera hvers konar árásir á þetta fyrirtæki og þá, sem stjórna því. En í stað þess hafa þeir tekið upp þann háttinn að halda langar ræður hér á þingi um, að stjórn samsölunnar hafi brotið l. með því að selja setuliðinu mjólk. Nú vita allir, að ekki hefur verið tekin upp skömmtun á þessari vöru, og sjá þá allir, hvílík fásinna er að halda fram, að það sé lögbrot af mjólkursölun. að selja setuliðsmönnum mjólk, því að ég veit ekki til, að neinar hömlur séu á því, að setuliðsmenn kaupi hér í búðum vörur, aðrar en þær, sem háðar eru skömmtun. Þeir hafa getað gengið í búðir og keypt allar aðrar vörur, enda væri það hvort tveggja í senn óframkvæmanlegt og mjög óviðeigandi af mjólkursölustj. að neita setuliðsmönnum um mjólk í búðunum, enda ómögulegt, þar sem engin skömmtun var, að koma í veg fyrir slík kaup, því að þeim hefði verið auðvelt að fá aðra til að kaupa mjólkina fyrir sig, ef þeim hefði sjálfum verið neitað um hana.

Hv. þm. treysti sér ekki til að hrekja neitt, sem ég hef haldið fram í ræðu minni um þær athuganir á þessu máli, sem fram hafa farið að undanförnu af þeim sex n., sem hafa rannsakað ýmisleg atriði þessa máls. Hann sagði oft í ræðu sinni eitthvað á þessa leið: Kannske eitthvað sé um þetta í áliti hinna sex n.? Þetta margendurtók hann. Sýndi hann þar það, sem vitað var áður, að hvorki hann né aðrir, sem mælt hafa fastast með þessari rannsókn, hafa nennt að kynna sér þessi nál., sem fyrir liggja. Ætti að kjósa eina nýja n. nú, sýnist mér, að helzta verkefni hennar yrði að rannsaka þessi nál., sem fyrir liggja, ef það gæti orðið til þess, að þessir menn fengjust loksins til að kynna sér það, sem í þeim stendur.

Hv. þm. hélt enn fram dylgjum sínum um, að hér væri eitthvað óhreint í pokahorninu. Hann segir, að n. með nægilegu valdi gæti komizt inn fyrir dyrastafinn hjá samsölustj., þar sé margt á huldu um kostnað, lauslega gefnar töluskýringar og annað slíkt. Það er sami söngurinn og áður, dylgjur um, að þarna sé eitthvað óheilbrigt og óhreint, en varazt að nefna nokkuð ákveðið. Það er þessi venjulega undirróðursstarfsemi að reyna að koma inn hjá almenningi grun um, að eitthvað óhreint sé á seyði, hlaða dylgjum á dylgjur ofan, en gæta þess að nefna ekkert ákveðið.

Eins og tekið hefur verið fram fyrir löngu, þá er verzlunarkostnaður samsölunnar hlutfallslega minni en hjá nokkru öðru fyrirtæki, sem verzlar með nauðsynjavöru. Það sýnir bezt, að þetta mál er ekki fram borið af umhyggju fyrir almenningi í bæjunum, að hv. þm. Hafnf. hefur t. d. aldrei flutt till. um að athuga verzlunarkostnað hjá öðrum fyrirtækjum og reyna að koma þar fram lagfæringum eða lækkunum, ef þörf kynni að vera á. Þó er honum fullkunnugt eins og öðrum, að t. d. hér í bæ eru tugir og sjálfsagt hundruð heildsala og umboðssala, sem hafa rakað saman miklu fé, þó að þeir hafi ekki lagt nema mjög lítið í kostnað. Margir þeirra hafa aðeins eina skrifstofukytru til umráða fyrir rekstur sinn, en græða stórfé á að flytja inn og verzla með ýmsar nauðsynjavörur. Þarna finnst hv. þm. Hafnf. og hans fylgjurum ekkert athugavert, þarna þurfi ekkert að gera, þó að slík fyrirtæki taki margfaldan verzlunarkostnað á við það, sem samsalan gerir, þarna sé allt í bezta lagi og engin þörf fyrir almenning, að neitt sé gert eða athugað nema hjá því fyrirtæki, sem hefur langminnstan verzlunarkostnað.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að ekki muni vera mikið að græða á að lesa álit hinna sex n. Hann getur ekkert um það sagt, meðan hann hefur ekki kynnt sér þessi nál. En ég vil spyrja: Hvaða trygging er fyrir því, þó að við skipum sjöundu n., að þessir menn nenni að kynna sér álit hennar frekar en hin fyrri? Ég sé ekki neina minnstu tryggingu fyrir því. Það er líklegt, þótt bætt verði við sjöundu n., að haldið verði áfram sömu aðferðum, sömu vinnubrögðum og áður af þessum mönnum í stað þess að athuga það, sem þessar n. hafa sagt, eftir að hafa rannsakað málið, og þær till., sem þar eru gerðar, halda áfram að dylgja um, að hér sé eitthvað öðruvísi en það á að vera, og heimta rannsókn á rannsókn ofan. Ég sé engar líkur til. þótt sjöundu n. verði bætt við, að friður fáist í þessum málum fyrir þessum ofsóknum eða þær leggist niður.

Annars kom ekkert nýtt fram í ræðu hv. þm. A.-Húnv. og engar röksemdir. Hann finnur, að hann hefur illt mál að flytja, og grípur því til að nota ósæmilegt orðbragð um andstæðinga sína, þegar hann sér, að hann getur engar röksemdir flutt máli sínu eða framkomu til stuðnings. Hann hefur látið hafa sig til þess að leggjast á sveif með óvildarmönnum bændastéttarinnar, sem halda uppi þrálátum ofsóknum gegn fyrirtækjum bænda. Hann hefur gerzt liðsmaður þeirra manna, sem þannig haga sér, og vill nú setja pólitíska rannsóknarn. á þetta fyrirtæki bænda. Hann segir: Þetta mál er flutt af einum flokksmanni mínum, og þetta er því mál flokks míns. — Ég hef áður gert grein fyrir, af hvaða rótum þessi till. er runnin, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka mikið af því, sem ég áður sagði. Þegar sósíalistar og Alþýðuflokksmenn höfðu byrjað að þyrla upp moldviðri hér í bænum og í blöðum eins og oft áður um þetta fyrirtæki og flytja um það frv. og till. hér á þingi, koma kosningasmalar Sjálfstfl. og segja: Þetta dugir ekki, að þessir menn séu látnir einir um málið, þá ná þeir kjósendunum á sitt band. Þið verðið að taka undir og gala líka, blessaðir, og hafa a. m. k. eins hátt og hinir. — Og þegar svo þessir menn fara að láta málið til sín taka, þá er manndómurinn ekki það mikill, að þeir reyni að leiðrétta það, sem rangt er, og halda fram því, sem rétt er, í blöðum og á þingi, að það sé búið að kjósa sex n. á síðustu sjö til átta árum til að rannsaka þessi mál og því sé ekki líklegt, að neitt nýtt upplýsist, þó að einn. komi enn. Það er ekki reynt að slá niður þennan ósæmilega áróður, heldur er tekið undir fullum hálsi í sama dúr.

Ég benti á það áðan, hvað mér fyndist það ósæmilegt, að hv. þm. A.-Húnv., sem er fulltrúi fyrir bændakjördæmi, skyldi ljá lið sitt þessum og þvílíkum aðförum. Hann er líka sennilega farinn að finna, að hann hefur hér laust undir fæti, og þess vegna grípur hann til málflutnings eins og ég gat um. Sama er að segja um hv. 7. þm. Reykv., sem finnur nú, þrátt fyrir það að hann sé tungulipur, að hann getur ekki rætt um þetta mál á þann veg, að það sé félögum hans eða málstað til framdráttar, og þess vegna flytur hann mál sitt á þann veg, sem hann gerði áðan, sneiddi alveg hjá því máli, sem á dagskrá er, en tók upp í þess stað persónulegan skæting um andstæðinga sína.