02.12.1943
Neðri deild: 57. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

100. mál, skipun mjólkurmála

Sigurður Kristjánsson:

Út af því, sem hv. þm. Mýr. sagði, að hann furðaði sig á því, að ég skyldi ekki gera að umræðuefni ónýtingu matvæla, sem teljast til sjávarafurða, þá vil ég segja, að hér er ekki um svipað fyrirbrigði að ræða og eyðileggingu landbúnaðarafurða, því að vitað er, að ekki er markaður hér í landi fyrir allar þær sjávarafurðir, sem ganga af því, sem hægt er að koma á markað í útlöndum. Í öðru lagi hefur fiskur oft skemmzt fyrir ófullkomin flutningatæki, en sérstaklega af því, að skip hafa verið neydd til að bíða eftir skipalestum og varan hefur skemmzt í ferðum. Það er ekki hægt við þetta að ráða.

Viðvíkjandi því, að hér sé kastað fiski úr frystihúsunum, er það að segja, að þó að hér séu frystihús í stórum stíl, þá eru möguleikar til að geyma fiskinn frystan mjög takmarkaðir. Og sums staðar er orka til frystingar mjög takmörkuð. Útgerðarmenn eru háðir þessum skilyrðum. En þó að þeir vildu rýma húsin og selja fiskinn, þá er ekki markaður fyrir hann hér innan lands. Þessar aths. hv. þm. Mýr. eru auðvitað byggðar á ókunnugleika hans á kringumstæðunum, sem fiskframleiðendur eiga við að búa, en fyrst hann skortir kunnugleikann, þá á hann ekki alltaf að vera að klifa á þessu.

Ég sagði áðan, að sambönd bænda hefðu kastað matvælum í mörg ár, og hér er um þau matvæli að ræða, sem neytendur eru til fyrir. En þegar lækkað var verð á smjöri og eggjum, þá hurfu þessar vörur af markaðinum samstundis. Það vitum við neytendurnir. Og það er skoðun okkar, að þær séu seldar á svörtum markaði. Það er gert. En þeirri skuld hef ég aldrei skellt á bændur almennt.

Hitt er gífuryrði, að ég sé bændaníðingur. Og ég vil láta undrun mína í ljós yfir því, hve þessi hv. þingeyða leyfir sér að viðhafa mikil gífuryrði um aðra.