26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

18. mál, ríkisreikningur 1940

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hefði búizt við, að fjhn. hefði gert víðtækari till. en fram kemur í nál. Að vísu eru ekki nema tvær till., sem yfirskoðunarmenn leggja til, að séu til aðgerða Alþ. Hv. frsm. drap lauslega á aðra aths., en hin er sú 7., sem við 2 nm. lögðum til, að vísað væri til aðgerða Alþ. Ég hafði búizt við, að fjhn. hefði eitthvað gert frekara en fram kemur í nál., en 7. aths. er um hin margumtöluðu skotvopn lögreglunnar, og hefur því máli oft verið hreyft hér, m. a. á þessu þ., í umr. um annað mál. Við töldum rétt að gera okkar aths. um kaup á skotvopnum fyrir upphæð, sem nam rúmum 19 þús. kr. Ríkisstj. svaraði þessu með því að vísa til bréfs, sem lá fyrir endurskoðendum, en okkur tveim nm. fannst það ákaflega ófullkomið svar. Efni bréfsins er það, að hér sé ekki um að ræða annað eða meira en áður hafi tíðkazt, og er undirritað af lögreglustjóra. Það, sem fyrir okkur vakir, er, eins og sjá má í till. okkar, og ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa hér upp:

„Svarið upplýsir ekki til fulls það, sem aths. fjallar um, enda óljós lagaákvæði um það, hvernig lögreglan eigi að vera útbúin, og er málinu því vísað til aðgerða Alþ. Einn yfirskoðunarmanna (JörB) telur svarið ekki fullnægjandi, en telur, að eftir atvikum megi við svo búið standa.“

Aðalástæðan fyrir því, að hv. þm. A.-Húnv. og ég höfum gert þessa aths., er spurningin um það, hvaða heimild ríkisstj. eða í þessu tilfelli dómsmrh. hefur haft til þess að verja fé í þessu skyni. Ég skal játa það, að við erum ekki löglærðir menn, en höfum reynt að spyrjast fyrir um, með hvaða heimild dómsmrh. gæti leyft sér upp á eigin spýtur að fyrirskipa, í þessu tilfelli lögreglustjóranum í Reykjavík, að gera kaup á vopnum. Ég vil því, áður en ég rek málið nánar, beina því til ríkisstj., að hún upplýsi, ef henni þykir svo við eiga, við 3. umr. málsins, hvar þá lagaheimild sé að finna, sem ráðh., er með dómsmál fer á hverjum tíma, geti stuðzt við til að gera slíkt upp á eindæmi. Nú skal ég taka fram, að á reikningum annarra bæja hefur hvergi komið í ljós, að lögreglustjórar hafi leyft sér að afla slíkra tækja, eins og lögreglustj. í Reykjav. virðist hafa gert. Ég skal geta þess nú þegar, að við höfum ekki séð þessi vopn og vitum því ekki með vissu, hvernig þau eru, en almannarómur segir, að hér sé um nýtízku vopn að ræða og jafnvel hríðskotabyssur. Nú get ég ekki látið hjá líða að minnast á þá nýjustu löggjöf um þetta efni, sem er frá 1939, um lögreglumenn, og er þá sérstaklega átt við lögreglumenn í Reykjavík. Eins og kunnugt er, átti ég þá sæti á Alþ. og fjallaði nokkuð um meðferð þessa máls á sínum tíma. Frv. um breyt. á l., en 1. voru frá 1933, var borið fram af þáverandi dómsmrh. og fjallar um nokkuð annað en það, sem hér um ræðir. Í allshn., sem hafði málið til meðferðar og ég átti sæti í, kom það í raun og veru ekki til umr., að lögreglan skyldi vopnum búin. Ég minnist þess ekki, hvorki í ræðu frsm. fyrir málinu, að slík hugsun lægi á bak við það, og alls ekki var minnzt á það af hálfu ráðh. né annarra þeirra, er til máls tóku í d. Í Ed. datt heldur engum í hug, að í orðalaginu gæti falizt, að um fullkomna vopnun lögreglunnar væri að ræða.

Reyndar er kunnugt, að heimild er að finna í l. frá þeim tíma um lögreglumenn, sem er á þessa lund, með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt að efna til námskeiðs í Reykjavík fyrir lögreglumenn. Hann ákveður og, hver skuli vera einkenni og útbúnaður lögreglumanna.“

Ég hygg, að það hafi ekki verið með — vilja né vitund þm. þá, að í þessu ætti að felast vopnabúnaður, en reynslan hefur orðið önnur. Mér er ekki kunnugt um, hve stórri upphæð hefur verið varið í þessu skyni fyrir árið 1940, að minnsta kosti er ekki hægt að sjá það á landsreikningunum, en á því ári var farið að vopna lögregluna. Það, sem því fyrir okkur yfirskoðunarmönnum vakir, er að komast að raun um, hvaða heimild ráðherra hefur til þess að gera slíkt. Er sú heimild til í lögum? Við lítum svo á, að ef grípa eigi til slíkra athafna, verði Alþ. að gera sérstök l. um þessi efni, sem heimili ráðh., sem með völd fer á hverjum tíma, að afla þeirra vopna, er nauðsyn krefur. Þess vegna höfum við borið fram þessa fyrirspurn, því að við álítum, að Alþ. viti, hvað rétt er að gera í þessum efnum.

Eins og kunnugt er, hefur sá orðrómur gengið manna á meðal, að meiri innkaup hafi verið gerð árið 1941 í þessu skyni. Það liggur ekki fyrir, hve miklu hefur verið varið þetta ár í þessu skyni, og virðist hafa verið gætt meiri varfærni í að láta það ekki koma fram en fyrir árið 1940. Ég hygg, að hér sé um mál að ræða, sem kann að hafa dýpri verkanir en margur hyggur. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar, að það sé ekki tilefni til þess að hafa hér á landi vopnumi búið lið, þar sem við höfum lýst yfir ævarandi hlutleysi. Ég álít enga nauðsyn á því að hafa hér vopnum búið lið gegn íslenzkum ríkisborgurum. Lögreglan í Reykjavík er svo mannsterk, að þegar hún er kölluð til þess að skakka leikinn, er vanalega um ölvun að ræða, og er í þeim tilfellum engin nauðsyn á að beita vopnum.

En hjá mér er nokkur uggur um það, að ef þetta fær að halda áfram óátalið, þá er það að mínu áliti hættulegt að gefa einum ráðh. vald til þess að fyrirskipa lögreglu með alvæpni að ganga til verks, þegar honum þykir henta. Og það er af þeirri ástæðu, sem ég hreyfi þessu máli, að ég álít, að Alþ. eigi að taka á þessu máli með festu og gera sér ljóst, að verið er að vopna lögregluna. Um þetta á ekki að vera neitt pukur, heldur á þjóðin að gera það upp við sjálfa sig, hvort hún vill leyfa þetta eða ekki. Ef til vill gefst tækifæri til, ef svar fæst af hálfu hinna opinberu manna í stjórninni, sem lögfróðir eru, að rökræða um hvort nokkur heimild sé til í l. um þetta og hvernig með slík mál eigi að fara.

Ég hef nú lýst skoðun okkar tveggja, sem höfum haft með höndum yfirskoðun landsreikningsins, og okkur fannst þetta vera atriði, sem full ástæða væri til að athuga, hvort ætti að láta viðgangast. Ég vænti því þess, að Alþ. geri sér ljóst af þessum aths. okkar, hvort þetta eigi að leyfa með lögum eða taka af með öllu.