15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3280)

180. mál, jarðræktarmál

Hermann Jónasson:

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi till. geti orðið til að tefja fyrir málinu. Það er beinlínis tekið fram, að það á að rannsaka æði mörg atriði. Í 2. tölulið er gert ráð fyrir, að athugað verði, hve stórvirkar skurðgröfur eru. En það er þegar vitað, hve stórvirkar þær eru, og þarf því ekki að tefja málið á þeim rannsóknum. Það virðist eiga að bíða með öflun tækja til bænda, þar til þeirri rannsókn er lokið. Nú eru það tíu bændur fyrir einn, sem spyrja eftir hverri vél, sem flutt er til landsins. Það er fyrst eftir, að sú rannsókn, sem talað er um í frv., hefur farið fram, að styrkurinn á að koma. Niðurstöður rannsóknanna á að leggja fyrir Alþ., og eru þær rannsóknir æði margbrotnar. Ætla ég, að nokkur bið verði á, að þeim verði lokið, en á meðan á málið að bíða. Um margar þær rannsóknir sem talað er um í till., hefði Búnaðarfélag Íslands getað gefið upplýsingar, því að það hefur látið framkvæma þær margar. Ef Búnaðarfélagið hefur rannsóknirnar með höndum, munu þær verða unnar eftir hendinni. Held ég því, að þessi till. sé aðeins til að tefja málið.