15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3281)

180. mál, jarðræktarmál

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vildi aðeins gera grein fyrir atkvæði mínu. Það virðast vera nokkur kennimerki þess, að till. þessi geti frekar orðið til að tefja framkvæmdir í jarðræktarmálum landsins en til að flýta þeim. Þeir, sem flytja hana, hafa sagt, hve mikið þeir vilji hraða jarðræktarframkvæmdum. Það stendur í nál. Það er 10 ára áætlun. Þeir lýsa yfir, að nóg sé komið til 10 ára. Ég býst ekki við, að hugur fylgi máli með þessari till. Það liggur í höndum Búnaðarfélagsins að gera þessar rannsóknir, og er nokkuð seint að byrja á þeim, þegar 10 ár eru liðin hér frá. Ég geri ráð fyrir, að frv. um jarðræktarmál verði samþ. hér á næsta ári, og er þá ekki betur komið að hafa samþ. þessa þáltill., sem er hemill á framkvæmdirnar. Við höfum líka næg reynsluáhöld. — Áherzla er lögð hér á þurrkun jarðvegs. En þegar eru komnar 2 til 3 skurðgröfur, og held ég, að við séum engu bættari, þótt þáltill., sem verkar sem hemill á jarðræktarframkvæmdir, verði samþ. hér. Hún mundi aðeins tefja framkvæmdirnar.

Það er nauðsynlegt að framkvæma málið á þennan hátt, og getur Búnaðarfélag Íslands, a. m. k. að fengnum till. búnaðarþings, framkvæmt það svona fyrst um sinn.