15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í D-deild Alþingistíðinda. (3282)

180. mál, jarðræktarmál

Flm. (Eiríkur Einarsson) :

Ég hélt satt að segja, að engin umr. yrði um þessa till. Ég skil, hvað þessu veldur hjá hv. þm. Str. (HermJ). Hann er mikill málafylgjumaður, og úr því að nýlega hefur farið svo um frv. hans, er það mannlegur breyzkleiki, að honum hafi hlaupið kapp í kinn, enda hélt hann því fram, að ef nokkur till. yrði samþ. til hvatningar, gæti það orðið til þess að tefja málið sjálft. Þetta er nægilegt svar gagnvart honum, að þó að það sé samþ. till. til hvatningar um að leita fyrir sér um, hvað stórar og margar skurðgröfur þurfi til þess að hefja jarðræktarstarfsemi hér á Íslandi, sé það til að tefja Búnaðarfélag Íslands. Láta nokkrir menn með óbrjálaða skynsemi sér detta þetta í hug? Ég skil sem sagt flm. — af því kappi, sem hefur hlaupið í þá í þessu efni, en ég skil ekki þennan aumingjaskap hjá hv. þm. Dal. (ÞÞ), að hann hjassast á eftir með þrúgur á fótum og segir: Ég verð að stíga þessi spor. — Það er svo heimskulegt, að ég vorkenni honum. Ályktunin liggur fyrir, og þýðir ekki að tala um það. Hún mun verða einn nauðsynlegur þáttur í jarðræktinni á Íslandi, og skyldi enginn láta sér detta í hug, að það komi afturkippur í jarðræktarstarfsemina, þótt samþ. sé hvatning um auknar framkvæmdir. Það er fjarstæða. Og samkvæmt þeirri vitneskju, sem ég hef, eru það einmitt þessir hlutir, sem vantar úti á landi. Bændurnir horfa ár eftir ár á mýrarnar sínar óframræstar, en þá vantar tengiliðinn til þess að gera þær að nothæfu landi. Hv. þm. Dal. sagði: Það eru til 2–3 skurðgröfur. — En hann veit vel, að þær mættu vera fleiri. Það þarf fleiri skurðgröfur í þetta. Það þarf að rannsaka, hvernig bændur vilja hafa eignarráðin yfir þeim. Það er einnig ástæða til að athuga það.

Ég ætla að segja það, að þótt hv. þm. Str. og aðrir þm. verði til þess að flytja hér frv. eitthvað líkt því, sem afgreitt var með rökstuddu dagskránni, skal ég aldrei verða sá maður, að vera á móti því, — ef ég get verið með efni þess, — af því að svo og svo hefur farið um annað frv., sem ég hafi borið fram. Það má ekki blanda þörfum almennings saman við þarfir einstakra þm. til þess að sýna kergju á Alþingi.