15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í D-deild Alþingistíðinda. (3284)

180. mál, jarðræktarmál

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er óþarfi fyrir mig að deila mikið um þetta við minn góða vin, 2. þm. Árn. Hann var í reistara lagi, fór fram með fullum seglum og krafti miklum í þessu máli, og er ekkert við því að segja. Ég bið velvirðingar á því, þó að mér detti í hug hugtakið: Hér siglum vér skipin, sögðu kögglarnir. — Ég ætla ekki að segja mikið um það, en held, að það sé heldur skárra að hafa þrúgur á fótum en hlaupa berfættur út í urðir og holt. Ég get hugsað mér, að þm. geti orðið sárfættur, þegar hann er búinn að ganga lengi á þessum vegi, og óski sér, að hann hefði fengið sér svipaðar þrúgur og ég. Hitt segi ég, — og ætla ég ekki að kasta kögglum til míns ágæta samdm., að við erum engu nær, ef við bíðum eftir að athuga hvern hlut. Við þurfum að vera tilbúnir strax í vor og kaupa vélar og verkfæri og flytja inn. Við þurfum að geta hafizt handa um framkvæmdir allar, en ekki að bíða eftir, að þessu sé frestað í ein þrjú ár, og bíða svo eftir þessari tíu ára framkvæmd, sem nú er talið af flm., að sé svo glöggt í bráðabirgðaákvæði jarðræktarl.

Ég hef nú talað nægilega um tíu ára áætlunina og held, að þeir geti gjarnan, ef þeim sýnist, farið að ganga til atkv. um þetta mál, en þykist nú vera búinn að gera grein fyrir mínu atkv. og greiði atkv. móti þáltill.