15.12.1943
Efri deild: 66. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (3286)

180. mál, jarðræktarmál

Páll Hermannsson:

Það er víst alveg rétt, að það þarf ekki langar umr. um málið, en maður verður samt að láta uppi hugsanir sínar um mál, sem hann hefur áhuga á.

Ég skil þessa þáltill. á þann veg, að henni sé ætlað að koma í staðinn fyrir það, að vikið var frá frv. um breyt. á jarðræktarl. Ég skil það svo, þegar litið er á ástæðurnar hjá meiri hl. landbn. fyrir því, að frv. var vísað frá, að mest beri á þeirri ástæðu, að meiri hl. landbn. álíti, að það þurfi að fara fram gagngerð heildarathugun á býlum landsins yfirleitt, — athugun um það, hvað vinna eigi á hverjum stað, hvað borgi sig bezt þar og hvað rétt sé að vinna þar. Þessi athugun þurfi að fara fram, áður en gerðar séu breyt. á jarðræktarl. Ég get ekki séð, að þessi þáltill. greiði nokkuð fyrir. Ég sé ekki fyrirmæli um að láta fara fram þá rannsókn, sem menn telja, að þurfi. Það hefur verið bent á það, að til þessa mundi þurfa allmarga menn sérmenntaða á þessu sviði. Það var talað um 20 menn, a. m. k., 20 menn í þrjú ár. Og þessir 20 menn þyrftu undirbúning, áður en þeim væri falið starfið. Ekki sé ég í till. neitt um öflun þessa mannakosts. Fyrst þessi till. greiðir lítið úr þeim annmarka, sem mótstöðumenn jarðræktarl.breyt. töldu á frv., svo að ekki væri hægt að samþ. það eins og á stóð, sé ég ekki, að till. geri gagn.

Ég vil ekki fullyrða, að till. mundi tefja fyrir breyt. á l., þó að hún yrði samþ., en ég held hún geri lítið gagn og mun láta hana alveg afskiptalausa. Ég býst við, að það geri hvorki til né frá, hvað um hana verður.