16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Einar Olgeirsson:

Ég hafði búizt við, að fleiri aðstandendur þessarar till. mundu gera grein fyrir sínu máli. Það var samþ. á þ. till. í fyrra, sem var lítt athuguð og fór ekki til n., og þeir, sem hana fluttu, höfðu gert sér svo litla grein fyrir afleiðingunum, að þeir hafa sjálfir síðan verið að rífast út af því, hvað kostnaðurinn hefði orðið mikill, þegar það uppgötvaðist, að hann var 15 millj. Ég veit ekki, hvort þessir flm. hafa gert sér grein fyrir því, hvað af mundi hljótast, ef verðið væri ekki borgað niður. Mig langar til að spyrja ríkisstj., hvað vísitalan mundi hækka, ef sex manna álitið væri látið koma til framkvæmda, en verðið ekki keypt niður? Ég hef heyrt því fleygt, að það yrðu 7 stig, og samkv. upplýsingum, sem nú liggja fyrir um, hvað það mundi þýða, ef ríkisstj. vildi verja nokkrum millj. til að lækka tolla, mundi með því fást mun meiri lækkun á vísitölunni og þar með dýrtíðinni. Það mætti nú búast við, að þessir menn vissu það. Þeir þykjast vera á móti því að þurfa að beita þessum aðferðum, en af hverju fást þeir ekki til að athuga, hvað kosta mundi að hafa aðrar aðferðir? Hér voru nýlega lagðir fram útreikningar, sem hagstofan hafði gert samkv. ósk þingsins, og mér fannst þeir gefa tilefni til, að þ. athugaði sinn gang. Ég var að reikna út, hvernig útkoman mundi verða, ef útreikningur sex manna n. hefði verið lagður til grundvallar í fyrra við ákvörðun á kjötverðinu, og mér finnst muna 10 millj. á útsöluverði, sem kjötframleiðslan í fyrra var seld of hátt. Þegar á það er litið, að landsfólkið og ríkissjóður er skattlagt á þennan hátt, er ekki ástæða til annars en að þ. athugi sinn gang, þegar á að halda áfram verðpólitík, sem meiri hl. þ. fyrirverður sig fyrir eftir á. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. eða hv. .flm. þessarar till. ætti að gera nokkra grein fyrir því, hvað þeir álíta, að útgjöld í sambandi við þessa þáltill. mundi nema miklu og hvað við liggur, ef hún verður ekki samþ., og hvort þeir hafa athugað aðrar leiðir til þess að lækka dýrtíðina, því að það verður að gera ráð fyrir því, að það sé tilgangurinn að lækka dýrtíðina, en ekki bara að fá fé til þess að láta einstök fyrirtæki í landinu fá það til umráða. Sú ráðsmennska, sem hefur verið á þessum málum, hefur orðið þjóðinni það dýr, að ætla mætti, að menn hefðu eitthvað lært af þessari dýrkeyptu reynslu, og væri því eðlilegt, að tekið væri tillit til hennar, þegar verið er að ræða þáltill. eins og þessa, sem hér liggur fyrir.

Ef það er hins vegar svo, að meiri hl. Alþ. hafi komið sér saman um, að það skuli veittur svo og svo margar millj. kr. úr ríkissjóði í uppbætur og niðurborganir, þá eru allar rökræður til lítils, enda hefur ekkert komið fram af rökum fyrir því, að þetta verði til þess að lækka dýrtíðina, og ekki einu sinni, að það lækki vísitöluna. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh., hvað það muni auka dýrtíðina mikið, ef kjötverðið verður látið hækka, svo að það verði í samræmi við útreikninga sex manna n., og þá gætum við farið að reikna út, hvort þetta er ekki sú óréttlátasta og sú „ópraktiskasta“ niðurborgun á dýrtíðinni, sem hægt er að hugsa sér.