16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í D-deild Alþingistíðinda. (3353)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. var að kalla á það, að fleiri flm. töluðu fyrir þessari till. en hv. 1. flm. Ég sé að vísu ekki ástæðu til þess að bæta miklu við það, sem hann tók fram, en ég man ekki betur en að hv. 2. þm. Reykv. og flokkur hans og sömuleiðis Alþfl. hafi samþ. þá heimild til þess að greiða niður verð á vörum innan lands, sem hér er farið fram á, að framlengd verði eða öllu heldur gerð ákveðnari en hún kann að vera nú. Þessi heimild var í dýrtíðarl., sem samþ. voru s. l. vor af öllum þingheimi. Þessi heimild er að vísu fyrir hendi enn, þar sem ekki er búið að samþ. frv. það, sem hefur legið fyrir Alþ., um að afnema hana eða binda hana því skilyrði, að Alþ. skuli samþ. greiðslurnar í hvert skipti. Hér er því ekki farið fram á annað en það, að þessi heimild, sem stendur í l., verði staðfest á ný, þar til þingið gerir á þessu aðra skipan. Verði áðurnefnt frv. ekki samþ., þá er ekki hægt að segja annað en að heimildin standi, og verður þá þessi þáltill. ekki annað en frekari árétting á því. En ef frv. verður samþ., þá má skoða þessa þáltill. sem nýja heimild í þessu efni, þar til Alþ. ákveður annað.

Það er öllum kunnugt, að Framsfl. hefur frá upphafi óskað eftir því, að reyndar yrðu aðrar leiðir til þess að stöðva hækkun dýrtíðarinnar, eftir því sem í okkar valdi stæði, en till. okkar hafa ekki verið samþ. Við álítum þó, að þetta sé betra en ekki neitt, og því höfum við tveir flokksmenn gerzt meðflm. að þessari till. Við teljum, að það mundi hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið og sérstaklega lamandi áhrif á atvinnuvegina, ef nýtt dýrtíðarflóð gengi nú yfir landið, sem mundi óhjákvæmilega verða, ef núverandi heimildir ríkisstj. til þess að greiða niður vísitöluna yrðu afnumdar. Okkur er það einnig ljóst, að fyrr eða síðar verður Alþ. að taka rösklegar á þessum málum en það hefur gert hingað til, en það sjá allir, að á þessu þingi verður það ekki gert. Þá er það spurningin, hvort takmarka á þær heimildir, sem ríkisstj. hefur haft, og hlaupa svo frá öllu saman eða þá að ganga svo frá málinu, að hægt verði að halda áfram að gera þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til þess að halda niðri dýrtíðinni, þar til öðruvísi verður ákveðið. Við erum ekki í vafa um, að hið síðara verði happadrýgra.

Hv. 2. þm. Reykv. spurði, hvað það mundi kosta að reyna aðrar leiðir. Hann beindi þeirri spurningu til ríkisstj., og ég mun ekki svara því. En hitt er víst, að ef aðrar leiðir verða reyndar, þá mun það hafa einhverja fórn í för með sér, annaðhvort fyrir alla þjóðina eða þá fyrir einstakar stéttir. En þótt allir vilji lækka dýrtíðina, þá er hugsunarhátturinn því miður sá, að allir vilja gera það á kostnað annarra, en ekki sinn. Sá skilningur, sem þarf að vera á þessu meðal þjóðarinnar, er bersýnilega ekki fyrir hendi, en hann verður að koma og kemur vafalaust. En á meðan hann vantar, þá verður að fara þá leið, sem nú er farin, og það eru peningar allrar þjóðarinnar, sem eru notaðir til þess. (SigfS: Hvað mikið kostar sú leið?) Það get ég ekki sagt með vissu, en ég geri ráð fyrir, að það muni ekki miklu fyrir árið 1944 frá árinu 1943, og ég held, að það hafi ekki verið svo þungur baggi, að ekki hafi verið hægt að rísa undir honum.

Ég skal svo ekki lengja mál mitt meira, en ég vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna við tveir framsóknarmenn höfum gerzt meðflm. að þessari þáltill.