16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3360)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Mér virðist, að ekki geti hjá því farið, að þetta þing, sem nú er að ljúka störfum, hljóti að fá heldur léleg eftirmæli. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er nú þegar búið að ráðstafa öllum tekjum ríkissjóðs og e. t. v. nokkrum milljónum betur, þar sem á fjárl. er áætluð um 10 millj. kr. upphæð til greiðslu á útfluttar landbúnaðarafurðir. En vel má gera ráð fyrir, að þessar uppbætur verði allt að 16 millj. kr., því að Alþ. er nú að kóróna þessa afgreiðslu fjárl. með því að gefa ríkisstj. heimild til að greiða fé úr ríkissjóði, sem ekki eru neinar líkur til, að verði til staðar, nema því aðeins, að hæstv. ríkisstj. fái nýja tekjuöflunarleið nú, um leið og Alþ. kemur saman, væntanlega 10. janúar n. k. Það virðist liggja eitthvað sérstakt við að afgreiða loforð um útborganir nú þegar, án þess að áður sé séð fyrir tekjum. Og ástæðan fyrir þessu mun vera hinn frægi 28 manna víxill, sem var undirskrifaður í upphafi þessa þings — illu heilli. Hingað til hefur Alþ. skoðað það skyldu sína að ákveða nokkuð jafnharðan, a.m.k. þegar um milljónauppbætur hefur verið að ræða, hvar taka ætti fé til uppbótanna. En þessi regla er algerlega brotin með þeirri afgreiðslu, sem Alþ. hyggst nú að hafa á þessum málum. Ef ekki er nú þegar búið að ganga frá því af þeim 28 þm., sem undirskrifuðu uppbótavíxilinn í byrjun þingsins, hvar taka á peninga til þess að inna bæði þessa greiðslu af hendi og fulla greiðslu uppbótanna, þá virðist vera lofað í ermina sína. Og ef hæstv. ríkisstj. veit ekki, hvar taka á það fé, sem nú á að fórna, þá er það undarleg ríkisstj., sem tekur við slíkum fyrirmælum.

Ég hef áður lýst því, hversu ríkisstj. hefur brugðizt öllum vonum um að leggja fram till. fyrir flokkana um varanlega lausn dýrtíðarmálanna. Og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. En sérstaklega viðvíkjandi hæstv. forsrh., sem er vanur sáttasemjari í vinnudeilum og slíku, þá hefðu margir þm. búizt við meira frá honum en enn hefur komið í ljós. En frá honum eða hæstv. ríkisstj. í heild kemur ekkert annað fram í dýrtíðarmálunum en bráðabirgðatill., sem liggja fyrir í dýrtíðarmálinu. Það voru bráðabirgðatill., sem samþ. voru á síðasta þingi um það að heimila ríkisstj. að borga niður dýrtíðina. Og enn eru sömu bráðabirgðatill. frammi. Þó er sá munur nú, að ekki sýnast nokkrir möguleikar fyrir ríkisstj. til þess að hafa fé til þessara ráðstafana nema með því að klípa af því fé, sem ætlað er til verklegra framkvæmda á næsta ári. — Það var einhvern tíma sögð sú saga, að maður hefði fallið í á og annar maður hefði staðið á bakkanum og horft á hinn, meðan hann var að sökkva, og sagt við hann: „Bíddu, meðan ég fer úr skónum“. Og mér finnst sem þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt til, að gerðar verði í dýrtíðarmálunum, séu eins konar bíddu-meðan-ég-fer-úr-skónum-ráðstafanir, þær séu eins og ráðstafanir manns, sem stendur á bakkanum og fer úr skónum meðan náungi hans er að drukkna í ánni.

Einn hv. þm., sem talað hefur fyrir þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, hv. 2. þm. S.-M., komst þannig að orði, að tekjuöflun, sem hefði átt að nota í þessu skyni, hefði verið stöðvuð af öðrum flokki en Framsfl. Ég vil nú minna þennan hv. þm. á það, að hæstv. ríkisstj. ætlaðist til þess, að aukin álagning á áfengis- og tóbakstoll yrði notuð í því skyni að borga niður verðlag á afurðum á innlendum markaði. En þeir hv. þm., sem undirskrifuðu 28 manna víxilinn í byrjun þessa þings, tóku sig til og gerðu till. um, að þessum tekjum yrði ekki varið til þess að borga niður dýrtíðina, eins og hæstv. ríkisstj. ætlaðist til, heldur beinlínis til þess að borga uppbætur á útfluttar afurðir. Enn hefur ekkert komið fram frá hæstv. ríkisstj. um það, hvort hún samþ. þessa ráðstöfun eða leggur blessun sína á það, að teknar séu 9 millj. kr. til að borga niður dýrtíðina. Nú er það svo, að sú tekjuöflun, sem hv. 2. þm. S.-M. minntist á, mun hafa verið hinn svo nefndi verðlagsskattur, sem frv. kom fram um í Ed., en hann var bráðabirgðaákvæði frá síðasta þ. og þá ekki rætt um framlengingu. Það var fyrir fram vitað, þegar þetta skattafrv. var lagt fram í Ed., að það mundi ekki ná samþykki þar, eins og þingflokkum er nú skipað, en hins vegar gat komið til mála, að það næði samþ. í Nd. En hví var það þá lagt fram í Ed., þar sem vitað var, að það yrði stöðvað? Ég ætla, að það hafi verið gert að yfirlögðu ráði, þannig að Framsfl. hafi ætlað að hafa þetta til að koma sér undan ámæli fyrir að taka upp óbeina skatta seinna. Hv. þm. S.-M. komst svo að orði, að þessi till. gæfi ríkisstj. leyfi til að greiða úr ríkissjóði, eftir því sem fé hrykki til, og það eftir að fjárl. eru orðin svo ásetin, að ekkert svigrúm er þar til þessara útgjalda, sem verið er að heimila ríkisstj. Hann komst líka svo að orði, að ef þessi till. yrði samþykkt, virtist það gleggra, hvað gera mætti, ef það er rétt, sem mikill þorri þm. telur, að engir peningar séu til í greiðslu á þessum uppbótum. Enn fremur segir hann, að hann og flokkur hans fylgi þessari till., þó að illa sé frá henni gengið. Ég álít, að þetta séu rétt eftirmæli meiri hl. Alþ. og ríkisstj., nema bak við tjöldin séu ákveðnar till. um óbeina skatta, sem Framsfl. ætlar að hjálpa Sjálfstfl. til að fá samþ. í byrjun næsta þ., eins og margt bendir til. Ég hef áður við fjárlumr. minnzt á þetta hörmulega ástand. Það er haldið áfram að samþ. uppbætur á útfluttar afurðir og seldar á innlendum markaði, sem nema tugum millj. kr., en engar ráðstafanir gerðar til að tryggja framtíðina.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist nokkuð á till. Sósfl. og Alþfl. um fjárframlög til skipakaupa. Ég vil taka fram, að það var svo um till. Alþfl., að þar var svigrúm til að veita þetta á fjárl., en hjá sósíalistum ekki. Till. Alþfl. var raunhæf, en till. sósíalista ekki. Þessi sami þm. minntist á, að það liti svo út sem núverandi stj. væri að verða þingræðisstj. Ég vil í því sambandi minna þennan hv. þm. á, að núverandi stj. má kallast stj. Sósfl., vegna þess að hann lagði til í átta manna n. að skipa þessa stj. eins og hún er nú skipuð, og ef það er rétt, að þessi stj. sé að verða þingræðisstj., væri það þá helzt á þann hátt, að hún væri að verða stj. íhaldsins í landinu, og væri það þá endurtekning þess, sem gerðist í Þýzkalandi á sínum tíma, þegar sósíalistaflokkur Þýzkalands, Kommúnistaflokkurinn, veitti nazistum stuðning til að ná völdum. Þeir sögðu þá: Það er ágætt, að nazistar taki völdin nú, svo komum við á eftir. — En svo mistókst þessi ráðagerð þannig, að nazistar tóku völdin, en kommúnistar þurrkuðust út. Mér dettur ekki í hug að ætla, að núverandi ríkisstj. grípi til slíkra ofbeldisráða, en ég bendi á það, að hér endurtekst sú saga, að kommúnistar styðja að myndun slíkrar íhaldsstj., einmitt þegar þeir hafa tækifæri til að koma á vinstri stj. En sennilega tekst þeim hér eins og í Þýzkalandi að koma því til vegar, að myndun vinstri stj. mistekst, með því að þeir slá á hönd vinstri aflanna. Þeir fá stj., sem ekkert gerir til að ráða fram úr þeim vandamálum þjóðarinnar, sem nú eru efst á baugi. Niðurstaðan verður, að allt það fé, sem áskotnast, verður veitt í uppbætur, sem eru ekki neinar raunverulegar ráðstafanir til að leggja grundvöll að atvinnurekstri landsins. Þetta eru sorgleg eftirmæli þessa þ., og hv. 2. þm. S.-M. segir með fullum rétti, að illa sé frá málinu gengið eins og öllum þeim stefnumálum, er snerta dýrtíðina og atvinnumálin og fyrir þ. hafa legið og þjóðinni hefur riðið mest á, að fengju heppilega lausn.