16.12.1943
Sameinað þing: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3363)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Brynjólfur Bjarnason:

Út af ræðu hv. þm. Ísaf. og endurtekningum hans á ósannindum, sem hann hefur endurtekið áður mörgum tugum sinna, bæði í ræðu og riti, að núverandi ríkisstj. hafi verið sett á laggirnar að tilhlutun Sósfl., vildi ég segja örfá orð. Hann veit, að þetta eru ósannindi, og samt notar hann ræðutíma sinn til að ítreka þau. Og nákvæmlega sömu ósannindin voru það, sem hann fór með um Þýzkaland. Þessi hv. þm. hefur ekkert vit á sögu Þýzkalands, og það kemur raunar ekki málinu við, því að hann vill ekki þekkja hana og þarf ekki á henni að halda. Það vita allir, sem þekkja sögu Þýzkalands, að enginn flokkur í Þýzkalandi á slíka sök á sigri nazismans þar og flokkur sósíaldemókrata. Þeir ruddu Hitler braut, ekki aðeins fyrir valdatökuna með öllu því afli, sem þeir áttu til, heldur studdu þeir nazismann einnig, eftir að hann komst til valda, í þeirri veiku von, að þeir fengju að starfa áfram. Þeir greiddu t. d. atkv. á „þingi“ með utanríkismálastefnu Hitlers. En þetta mistókst, eins og allir vita. Svo mikið er hatur þessa hv. þm. til Sósfl., að þegar hann heldur ræðu í máli, þar sem hann er sammála flokknum, notar hann ræðutíma sinn til að fjandskapast við hann. Hv. þm. Ísaf. er annars einn af þeim mönnum, sem betra er að hafa móti sér en með. Venjulega er talið, að betra sé að hafa menn með sér en móti, en það er öfugt um þennan hv. þm.