16.12.1943
Sameinað þing: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í D-deild Alþingistíðinda. (3374)

191. mál, lækka verð á vörum innan lands

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það voru eiginlega ummæli í úrskurði hæstv. forseta, sem komu mér til þess að kveðja mér hljóðs, sem sé, að hann sagði, að úr því að þessi ákvæði giltu um hin þýðingarmeiri mál, þá hlytu þau að gilda um hin veigaminni mál. — Sem sagt, því er lýst yfir af hæstv. forseta, að þessi till. til. þál. teljist til hinna veigaminni mála.

Hvað felst í þessari till.? Að greiða má úr ríkissjóði niður verð á vörum innan lands alveg ótakmarkað. Samkv. þeirri heimild, sem veitt er með þessari till., getur ríkisstj. gripið inn í til að lækka verð á hvaða vöru, sem er, í hvað ríkum mæli, sem henni þóknast. Hún er ekki einu sinni tímabundin að öðru leyti en því, að hún á að gilda aðeins, „þar til Alþ. ákveður annað“.

Þetta telst forseta vera minni háttar mál, og svo virðist sem sá hluti þingsins, sem nú skipar sér að baki hæstv. ríkisstj., sé honum sammála. Það dreg ég af því, að sá hluti þm. virðist ákveðinn í að drífa málið í gegn á örskammri stundu.

Nú má gera ráð fyrir, að þessi heimild verði notuð til að greiða niður verð á mjólk og kjöti, líkt og verið hefur. Það er einnig upplýst, að slíkar niðurgreiðslur kostuðu á yfirstandandi ári nær 10 millj. kr., og má gera ráð fyrir, að á komandi ári kosti það engu minna. Þetta vill svo hæstv. forseti kalla minni háttar mál, að heimila útgjöld úr ríkissjóði, sem koma ekki til að nema minna en 10 millj. kr.

Það skal viðurkennt, að þetta er í fyllsta samræmi við það, sem farið hefur fram á þessu og undanförnum þingum. Þegar átt hefur að afgreiða veigamestu málin, þá hefur verið farið með þau sem hin veigaminnstu. Þannig var það á þingi 1942, þegar samþ. var þáltill., sem nú hefur bakað ríkissjóði 15 millj. kr. útgjöld. Þá — eins og nú — var komið í veg fyrir, að till. fengi þinglega meðferð og gengi til n. Það var neitað að gefa þær upplýsingar, sem þm. töldu nauðsynlegar til þess að geta gert sér rétta grein fyrir því, hvað verið væri að gera. Ég verð að segja, að öll þessi málsmeðferð er veigamikill þáttur í því að rýra traust þjóðarinnar á Alþ. og þeim grundvelli, sem þingræðið hvílir á. Það nálgast að vera örlaga kaldhæðni, þegar þeir þingflokkar, sem hæst tala um nauðsyn þess að verja sóma þingsins, eru á sama þingi að setja svartasta blettinn á þingræðið með því að þvinga í gegnum þingið einu veigamesta málinu, sem fram hefur komið, án þess að það fái þinglega meðferð.

Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í efnishlið málsins. Samþykkt þess er fyrir fram ákveðin af Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir hafa ákveðið að standa með þessari till. og þar með að taka á sig ábyrgðina af stefnu hæstv. stj. og þar með koma undir hana þingræðislegum grundvelli, sem hana hingað til hefur skort.

Ég get komizt hjá því að fara um þetta mál efnislega nokkrum orðum. Ég vil benda á það, hvílík reginfjarstæða það er að vera sífellt að ausa fé úr ríkissjóði til þess að lækka vísitöluna, án þess að það hafi nokkur áhrif á dýrtíðina. Hv. 1. þm. Eyf. hélt því fram í dag, að það væri óskiljanleg kenning með öllu, að aðgerðir eins og þær, að ríkið borgaði úr sínum sjóði eina krónu fyrir hvert kg kjöts, væru ekki til að lækka dýrtíðina. Ég verð að segja það, að mér er það óskiljanlegt með öllu, hvernig stendur á því, að vel vitibornir menn — eins og þessi hv. þm. — geta ekki skilið það, að kosti hvert kg af kjöti 6 kr. og kaupandinn greiðir 5 kr., en ríkið eina, er dýrtíðin algerlega óbreytt, hvort ríkissjóður greiðir meira eða minna af verði kjötsins. Það má öllum vera ljóst, að þessi barátta gegn vísitölunni stefnir að því eina marki að lækka kaupgjaldið í landinu og láta launastéttirnar bera þungann af dýrtíðinni.

Ég vil ekki tefja mál, sem eru á dagskrá sameinaðs þings og þurfa að fá afgreiðslu í nótt, en ég vildi þó nota tækifærið til þess að sýna fram á, hvílík meginfirra það er, að tala um málið sem eitt af hinum veigaminni málum, — það er eitt af hinum veigamestu, og það er eitt af þeim veigamestu vegna þess, að samþ. þess setur blett á það traust, sem hæstv. Alþ. og ríkisstj. hafa til þessa notið hjá þjóðinni. En bót er það í máli, að afgreiðsla málsins mun leiða til þess, að línurnar skýrist í íslenzkum stjórnmálum, leiða til þess, að landsmönnum verði ljóst, að á bak við hæstv. stj., sem hefur aðeins það stefnumál að berjast gegn dýrtíðinni, eins og hún orðar það, með því að lækka vísitöluna, standa tveir þingflokkar, Sjálfstfl. og Framsfl., og fer vel á því, að þeir aleinir taki ábyrgðina á því, að þingið samþ. að verja sjálfsagt 15 millj. kr. til verðuppbóta á vörum, sem fluttar eru út úr landinu, og þar að auki að greiða sjálfsagt 10 millj. kr. til verðuppbóta á vörur, sem seldar eru innan lands. Þessir tveir flokkar bera ábyrgðina á stefnu stj., eftir að þessi þáltill. hefur fengið samþ. Alþ.